Format: Web | XHTML | Text | PDF | EPUB - Citation
Versions:


Ljósvetninga saga

1. kafli

Þorgeir goði bjó að Ljósavatni, höfðingi mikill. Forni hét maður er bjó í Haga í Reykjadal, góður bóndi. Þá bjó Arnór í Reykjahlíð, faðir Þorfinns, kappi mikill. Þeir voru þingmenn og vinir Þorgeirs goða. Það er og sagt að þeir Þorfinnur og Grettir fundust og réð þar hvorgi á annan og má á því marka hvílíkur kappi Þorfinnur var.

Í þann tíma bjó Ófeigur Járngerðarson í Skörðum, höfðingi og garpur mikill.

Ölvir hét maður er bjó að Reykjum, búandi góður.

Þeir bræður, Sölmundur og Söxólfur, bjuggu að Gnúpum, Víðarssynir, garpar miklir og ójafnaðarmenn og bjuggu fyrir austan ána í dalnum og voru óeirðarmenn miklir um kvennafar og málaferli og höfðu því mikinn yfirgang að fáir treystust að ganga í mót þeirra vilja. Ærið voru þeir frægir og þó að illu. Sölmundur var fyrir þeim. Hann venur komur sínar til Ölvis að hitta dóttur hans og í mót vilja frænda hennar og fékkst þó engi forstaða af lítilmennsku föður hennar.

Það er að segja að Ófeigur átti för inn í hérað og hitti Ölvir hann og bað að hann kæmi þar er hann færi heim aftur og sagði honum ósæmd þeirra Víðarssona.

Ófeigur mælti: "Illa mun sjatna ofsi þeirra bræðra en koma mun eg hér er eg fer heim."

Ölvir þakkar Ófeigi góð orð.

Ölvir hafði átján þræla. Ófeigur kom þar um kveldið.

Nú er að segja frá þeim Víðarssonum að þeir fara heiman til Ölvis.

Þá mælti Sölmundur: "Þið bræður skuluð standa í dyrum og horfa út og vætti eg að rýr verður þrælaættin fyrir oss."

Sölmundur sótti inn eftir konunni og hafði hana á brott.

Þá mæltu þrælarnir: "Hvað gerðum vér nú átján er þeir Víðarssynir komu að þrír?"

En Ófeigur spratt upp og tók vopn sín og gekk út eftir þeim og voru þeir þá komnir að túngarðinum. Og í því er Sölmundur vill taka við henni og hefja út af garðinum kom Ófeigur að í því og grípur til hennar og kippir henni inn af garðinum.

"Hvar til ætlar þú Sölmundur," segir Ófeigur, "um þína ósæmd er þú gerir eftir bóndadætrum? Og máttu svo til ætla að menn munu það eigi þola þér og sæk hana nú þangað í Skörð ef þú vilt og reynum við með okkur."

Sölmundur mælti: "Ekki munum við til þrautar leggja."

Og skildust að því að þeir fóru í brott og tókst svo af fíflingar og ósæmd af tilkomu Ófeigs. Sat Ölvir í friði.

Síðan kom Hallvarður út Arnórsson í Húsavík og Sigurður hét maður er skip átti með honum, norrænn maður. Þeir Austmennirnir vistuðust þar um veturinn og var Sigurður með Forna í Haga. Hann seldi varning sinn um veturinn og sagði Forni hvar skuldarstaðir voru bestir. Austmaður fór og bar svo til að hann fór fyrir neðan garðinn að Sölmundar og lá hestur hans í keldu. Sölmundur sá það og fór til og bauð honum til sín og tók við honum vel og falaði varning að honum og hét verði fyrir. Austmaður fór heim og sagði Forna að hann hafði selt Sölmundi varninginn en Forni lét illa yfir og sagði að hann mundi illa gjalda. Nú var kyrrt um veturinn.

Um vorið fór Austmaðurinn að heimta varningsverðið en Sölmundur svaraði illa og kvað fúinn vera varninginn og vildi ekki gjalda. Austmaðurinn fór heim.

En bráðlega eftir það fóru þeir stefnuför til Sölmundar, Forni og Arnór. Þeir voru fimmtán saman. Þeir bræður voru þrír heima í virki einu og hlýddu til um hríð. Síðan mælti Sölmundur að einsætt væri að þola slíkt eigi. Og þá hljóp Söxólfur til og þreif spjót sitt og skaut til Austmannsins og fékk hann þegar bana. Þeir fóru við það í brott. Arnór flutti hann upp í Reykjahlíð. Þeir bjuggu málið til þings.

Þeir fóru nú á þingið og var leitað um sættir og kom þar að Söxólfur skyldi utan fara og koma eigi út en Sölmundur vera utan þrjá vetur og fóru þeir utan. Sölmundur lagðist í víking og þeir bræður og reyndist hinn hraustasti drengur.

2. kafli

Í þann tíma var Hákon jarl yfir Noregi og fór Sölmundur til hans þá er honum leiddist í víkingu að vera og mat jarl hann mikils. Hann fýstist út um sumarið en jarl kvað það óráðlegt, slíkt sem hann átti hér um að vera. Jarl kvaðst fyrr mundu senda girskan hatt Guðmundi hinum ríka en Þorgeiri Ljósvetningagoða taparöxi. Sölmundur var tvo vetur í Noregi.

Og eftir það fór hann út og hitti þá og sagði þeim vingan jarls og orð en afhenti þeim gjafarnar og gripi þá sem jarl hafði sent þeim. Þeir tóku við honum og voru honum fengnir fjórir menn til fylgdar. Hann færði Þorgeiri þá hina góðu gripi er jarl hafði sent honum.

Þorgeir mælti til Sölmundar: "Guðmundi varstu sendur því að hann er handgenginn."

Guðmundur mælti: "Þér voru gripirnir sendir og sæki hann að þitt traust. En ef þú vilt eigi það þá verum allir samt og veitumst að málum þessum."

Þorgeir svarar: "Eg em vant við kominn er þingmenn mínir eiga í hlut. En þó mun eg að styðja," sagði Þorgeir, "en þú ver fyrir málinu."

Guðmundur mælti: "Eigi kann eg í móti því að mæla er þú hefir lögin í þínu valdi."

Þorgeir mælti: "Sé eg ráðið til, að koma honum á þrjár leiðir, Eyfirðinga leið og Reykdæla leið og Ljósvetninga leið, og höldum saman leiðum öllum þó að norður séu meir mínir þingmenn og mun þá maðurinn vera friðheilagur ef svo gengur."

Þorgeir átti fjóra sonu, Tjörva, Höskuld, Finna og Þorkel. Þorfinnur var þá utan, úr Reykjahlíð, en Arnór faðir hans hittir Þorgeir og biður hann veita sonum sínum.

Þorgeir kvað: "Eigi mun eg Guðmundi í móti vera."

Arnór mælti: "Eigi veit eg hvað í slíku er fólgið. Og gakk þú eigi í móti sonum þínum er málinu vilja fylgja."

Þorgeir svarar: "Mér þykir þú illt ráð hafa upp tekið að leggja sæmd sína í virðing við eins manns mál útlends og sé sá þó látinn nú. Og mun eg Guðmundi veita."

Arnór mælti: "Kynleg veisla og að illu mun verða."

Arnór ríður á Vagla, þar bjó Höskuldur Þorgeirsson, hittir þá bræður og segir hver efni hann ætlar í vera um samband þeirra höfðingjanna.

"Það þykir mér ráð," sagði hann, "að þér bræður hittið Þórð föðurbróður yðvarn, vitran mann og yður vel viljaðan."

Og svo gera þeir.

Nú líður á sumarið og setja þeir til njósnir í lið þeirra höfðingjanna og verða þess varir að þeir ætla að koma manninum á þrjár leiðir svo að þeir mættu eigi vita. Guðmundur og Þorgeir ætla nú að fjölmenna. Þeir bræður safna nú liði. Og er þeir eiga skammt til leiðmótsins þá segir Finni Þorgeirsson að þeir munu ríða í móti liði þeirra höfðingjanna. Og svo gera þeir og stíga af baki hestum sínum hjá sauðahúsinu og láta hesta sína að húsabaki en þeir ganga inn í húsið. Svo var háttað húsinu að tvö voru vindaugu á hlöðunni en vegur þeirra Guðmundar lá fyrir dyrnar. Nú ber þá að brátt.

En Finni Þorgeirsson var maður skyggn: "Það ræð eg ef yður er hugur á að banna Sölmundi leiðina þá missið eigi klyfjahestsins er milli þeirra höfðingjanna er rekinn fram."

Höskuldur mælti: "Eg skal það annast."

Og er þá ber þar fyrir dyrnar þá skýtur Höskuldur spjóti og keyrði fyrir brjóst Sölmundi þar sem þeir fóru með hann en þeir bræður hlupu út úr húsinu og til hesta sinna og ríða til liðs síns. En þeir Guðmundur og Þorgeir bregða við skjótt þegar er þeir vissu hverjir að ollu og ríða eftir þeim. Og þegar er þeir finnast þá slær þar í bardaga með þeim. Þar fellur Arnór úr Hlíð af liði þeirra Þorgeirssona. Þar féll og húskarl Guðmundar og einn maður af þeim bræðrum. Og ná þeir Guðmundur nú eigi leiðinni. Þórður bróðir Þorgeirs gekk þar mest í millum manna og kvað Þorgeiri mjög missýnast er hann gekk í mót sonum sínum í orustu. Þeir skilja nú að sinni.

3. kafli

Eftir fundinn var Þorgeiri það sagt að Höskuldur sonur hans var mjög sár og báðu menn hann skiljast við mál þessi og vera eigi í móti sonum sínum.

Þorgeir mælti til Guðmundar að illt hlyti af málum þessum "og mun eg við skiljast," segir Þorgeir og svo gerir hann.

Guðmundur segir: "Það er nú ráð að við söfnum saman liði okkru."

"Ekki mun nú af því verða," segir Þorgeir og nú fer hann heim.

En frá Höskuldi er það að segja að hann var ekki sár en höfðu þetta því til bragðs tekið að þeir vildu að Þorgeir skildist við sem var. En þeir bræður voru allir saman og óhelguðu Sölmund. Þeir lögðu nú í fjandskap við Guðmund sem lengi hélst síðan.

Þeir bræður sátu nú yfir sæmdum og áttu fund um vorið og bundu það saman að skiljast eigi við málið og búa til vígsmálið eftir Arnór og fjörráð við sig. Guðmundur átti annan fund við sína menn. Þeir bræður hittu Ófeig og báðu hann fara til leiðar til liðveislu við sig og kölluðust réttu að fylgja þótt þeir hefðu þann óhelgað er fyrstur fór með vélræði og kom fyrr út en mælt var.

Ófeigur hafði áður setið hjá málum þeim og latti hann og kvað ófallið að deila við föður sinn "en mér þykir enn eigi með öllu ráðið hvort hann skilst við málin eða eigi og vildi eg að þú sættist á málin með jafnaði og er sá bestur og mun eg ríða til með þér."

Höskuldur kveðst lítið erindi haft hafa á hans fund "og ertu kallaður drengur góður og garpur mikill en ekki má eg því hæla."

Ófeigur mælti: "Mikið tekur þú af þessu en leita mun eg um sættir fyrst með yður en skiljast þó eigi við þig í þraut. En það ræð eg að þér farið vægilega með yðru máli en takið eigi fyrr sætt en vér komum."

En hálfum mánuði fyrir þing reið Tjörvi í Goðdali fyrir því að hann var þar mægður og reið nú til þings.

Guðmundur hitti Þorgeir og spurði um afla þeirra sona hans. Þorgeir kvaðst ætla að þeir munu hafa fjölmenni.

"Er það satt," segir Guðmundur, "að til sé búið vígsmálið og Sölmundur óhelgaður?"

Þorgeir mælti: "Það er vegur og munum við hafa fjölmenni í móti þeim."

Og fara nú allir til þings hver með sínu liði.

4. kafli

Arnsteinn hét maður er bjó í Öxarfirði að Ærlæk. Hann átti þriðjung í goðorði við Þorgeir og synir hans hinn þriðja þriðjung. Kominn var Ófeigur til þings með fimm tigu manna, þeir Tjörvi vestan með hundrað manna og voru á þingi nótt eina.

Þá gengu þeir á fund Arnsteins, Tjörvi og Höskuldur, og kölluðu hann til máls við sig. Hann bað þá inni við talast. Þeir báðu hann út ganga og svo gerði hann.

Þá mælti Höskuldur: "Hér horfist til málaferla og horfir mjög í móti með oss frændum. Er þér vandi á báðar hendur. Og kalla þeir oss ómæta í kviðinum. Nú höfum vér þriðjung goðorðs en faðir vor annan. En þú ræður hvar þú snýrð að og þeir hafa meira hlut er þú vilt fylgja."

Arnsteinn mælti: "Það er mér vandi mikill. Mér er vel við Þorgeir og þykir mér það ráð að þér leggið á hans vald."

Höskuldur mælti: "Ekki standa svo málaefni til."

Höskuldur stóð úti fyrir búðardyrunum en Tjörvi í búðinni en Arnsteinn á milli þeirra.

Tjörvi mælti: "Engi sæmd er boðin fyrir Arnór vin vorn."

Höskuldur mælti: "Það hæfir nú betur að þú gerir eftir vorum vilja en þó er nú ekki lengur að draga fyrir þér. Ger sem vér biðjum eða reyn ella hvort öxin kann bíta."

Tjörvi mælti: "Með óhöppum hefir hafist og svo mun slitna. Tak af hinn vildra hlut og er svo þetta upp hafið að eigi mun niður falla."

Hann tekur þá það til ráðs sem þeir vildu og skildust að því. Skyldi hann fara á fund þeirra bræðra um morguninn eftir. Þeir taka við mönnum hans og tjalda búð hans og ætla nú til dóma að ganga.

Þá mælti Guðmundur til Þorgeirs: "Synir þínir ganga nú fast fram en þú eldist. Eða hvort er raunar að þú vilt eigi í móti þeim ganga og þeir hafa allt málið undir sér og dómendur?"

Þorgeir mælti: "Allt mun koma fyrir eitt. Bjargað mun málinu verða að lögum."

Guðmundur mælti: "Það er nú sem tekst til við þá sem um er að eiga ef þeir koma til alþingis. Þar munu þeir fram koma þó að eigi komi þeir hér fram eða hafi eigi til fjölmenni."

Síðan mælti Höskuldur: "Hví setjið þér eigi dómendur niður?"

"Það má vera," sagði Tjörvi, "að þeir séu aflaminni en þér ætluðuð."

Höskuldur mælti: "Illt er það ef föður minn þrýtur drengskapinn. Og göngum nú að þeim Guðmundi."

Ófeigur mælti: "Eigi hæfir það. Leitum heldur um sættir. En ef þetta kemur til alþingis munu eigur yðrar upp ganga hér til. Megið þér þá eigi haldast í öðrum kostum en sættast og geri Þorgeir um mál þessi."

Höskuldur mælti: "Eigi mun það ef nokkur er annar til."

Ófeigur svarar: "Sættast munum vér Þorgeir þó að Guðmundur vilji eigi sættast því að þeir eru enn aflamiklir."

Þeir kváðust fúsastir bræður að þeir reyndu með sér.

En Höskuldur kvaðst mundu bera kviðinn í móti þeim að öðrum kosti "og mun þá fram ganga."

Ófeigur mælti: "Lítið ráð og er illt að gera þingsafglöpun er Þorgeir setur eigi niður dómendur sína."

"Stefna má honum af goðorði sínu," sagði Höskuldur.

Ófeigur mælti: "Hver mun það gera? Eigi sé eg þar mann til."

Höskuldur mælti: "Eg mun stefna honum af goðorðinu."

Ófeigur mælti: "Þá mun atgangur takast."

Höskuldur mælti: "Vér skulum rjóða oss í goðablóði að fornum sið" og hjó hrút einn og kallaði sér goðorð Arnsteins og rauð hendurnar í blóði hrútsins.

Arnsteinn nefndi sér votta en vildi eigi nefna sér dóma fyrir því að hann vildi eigi ber verða í málum þessum. Síðan gekk Höskuldur í þingbrekku og stefndi Þorgeiri af goðorðinu og nefndi votta þar að og síðan dóma.

Þeir áttu þá þing í Fjósatungu upp frá Illugastöðum því að þeir komu eigi fram að vorþingi og riðu ofan á þingið að finna Þorgeir, en létu standa dóminn á meðan, og horfðist þá til atgöngu.

Þá gekk að Snorri Hlíðarmannagoði með fjölmenni og mælti: "Óvænt efni horfist hér til. Nú eru tveir kostir fyrir hendi, að láta þá Höskuld dæma mál sín og kann vera að þeir komi því fram með sínum afla að Þorgeir missi goðorðsins, hinn er annar að sættast. Og erum vér þess fúsari því að með kappi voru málin upp tekin og kann vera að af þeim aukist vandræðin. Er það nú einráðið að sættast."

Var nú þetta ráð tekið og gerðu þeir það mest fyrir bænastað vina og frænda. Voru nú handsöluð mál í dóm og menn til gerðar nefndir. Höfðu þeir Höskuldur virðingarhlut af málum þessum. Sölmundur féll óhelgur. Mikil voru fégjöld ger eftir Arnór en þó eigi á kveðin. Arnsteinn fékk eigi aftur goðorð sitt.

5. kafli

6. kafli

Það er sagt að Guðmundur hinn ríki var mjög fyrir öðrum mönnum um rausn sína. Hann hafði hundrað hjóna og hundrað kúa. Það var og siður hans að láta löngum vera með sér göfugra manna sonu og setti þá svo ágætlega að þeir skyldu engan hlut eiga að iðja annan en vera ávallt í samsæti með honum. En það var þó sá siður þeirra er þeir voru heima að þeir unnu þó að þeir væru af göfgum ættum. Þá bjó Einar að Þverá í Eyjafirði en Guðmundur hinn ríki á Möðruvöllum bróðir hans.

Það er sagt að eitt sumar fór af þingi með Guðmundi Sörli sonur Brodd-Helga, hinn siðmannlegasti maður, og var með honum í góðu yfirlæti. Þá var heima þar með Guðmundi Þórdís dóttir hans er þá þótti vera hinn besti kostur og var það mál manna að tal þeirra Sörla bæri saman oft. Kom það fyrir Guðmund og kvaðst hann ætla að eigi þyrfti orð á því að gera. En þá er hann fann að eigi varð við séð lagði hann þó aldrei eitt orð í við Sörla en lét fylgja ofan til Þverár Þórdísi til Einars.

Þá varð enn svo að þangað bar komur Sörla.

Og einn dag er Þórdís gekk út til lérefta sinna var sólskin og sunnanvindur og veður gott. Þá getur hún að líta að maður reið í garðinn, mikill.

Hún mælti er hún kenndi manninn: "Nú er mikið um sólskin og sunnanvind og ríður Sörli í garð."

Þetta bar saman.

Liðu nú svo stundir og fór svo fram til þings um sumarið. Ætlaði Sörli þá aftur austur til frænda sinna.

Og á þinginu gekk hann einn dag til Einars Þveræings og heimti hann á tal við sig og sagði svo: "Eg vildi hafa liðsinni þitt til að vekja bónorð við Guðmund bróður þinn til Þórdísar dóttur hans."

"Eg mun það gera," kvað Einar, "en oft virðir Guðmundur annarra manna orð eigi minna en mín."

Síðan gekk hann til búðar Guðmundar. Hittust þeir bræður og settust á tal.

Þá mælti Einar: "Hversu virðist þér Sörli?"

Hann mælti: "Vel, því að slíkir menn eru vel mannaðir fyrir hversvetna sakar."

Einar mælti: "Hversu er þá? Eigi skortir hann ættina góða né mannvirðing og auð fjár."

"Satt er það," sagði Guðmundur.

Einar mælti: "Koma mun eg orðum þeim er Sörli lagði fyrir mig sem er að biðja Þórdísar dóttur þinnar."

Guðmundur svarar: "Eg ætla það fyrir margs sakar vel fallið en þó fyrir orðs sakar annarra manna er á hefir leikið mun eigi af því verða."

Síðan hitti Einar Sörla og sagði honum að fast var fyrir og það með hvað til var fundið og við bar.

En hann svarar: "Heldur þykir mér þunglega horfa svo búið."

Síðan mælti Einar við Sörla: "Nú mun eg hyggja ráð fyrir þér. Maður heitir Þórarinn tóki Nefjólfsson, vitur maður. Hann er vinur mikill Guðmundar. Far þú á fund hans og bið hann leggja ráð á með þér."

Svo gerði Sörli.

Kom hann nú norður á fund Þórarins, heimti hann síðan á tal við sig og mælti: "Sá hlutur er um að véla er mér þykir miklu máli skipta að þú vildir í ráðast, að fara með orðum mínum til Guðmundar Eyjólfssonar og biðja Þórdísar dóttur hans mér til handa."

Hann svarar: "Hví leitar þú þessa við mig?"

Hann segir honum þá hvar komið er að menn hafa til orðið að tala um en eigi lágu svörin laus fyrir.

Þórarinn mælti: "Það ræð eg nú að þú farir heim en eg mun forvitnast og senda þér orð ef nokkuð vinnst því að eg sé að þér þykir þetta miklu varða."

Hann lét sér það vel líka. Síðan skildu þeir.

Fór Þórarinn á fund Guðmundar og fékk hann þar góðar viðtökur. Síðan gengu þeir á tal.

Þá mælti Þórarinn: "Hvort er svo sem komið er fyrir mig að Sörli Brodd-Helgason hafi beðið Þórdísar dóttur þinnar?"

"Satt er það," segir Guðmundur.

Þórarinn mælti: "Hverju léstu svarað verða?"

"Eigi sýndist mér það," kvað hann.

"Hvað kom til þess? Hefir hann eigi ættina til eða er hann eigi svo vel mannaður sem þú vilt?"

Guðmundur mælti: "Eigi skortir hann þá hluti og gengur það meir til að eg vil eigi gefa honum Þórdísi er orð hefir áður á leikið um hag þeirra."

Þórarinn mælti: "Einskis er það vert. Annað ber til að þú annt honum eigi ráðsins og veit eg það þótt þú látir á þessu brjóta."

Guðmundur mælti: "Eigi er það satt."

Þórarinn mælti: "Eigi muntu mega leynast fyrir mér og veit eg hvað í býr skapinu."

Guðmundur mælti: "Eigi kann eg nú hlut í að eiga ef þú veist þetta gerr en eg."

Þórarinn mælti: "Far þú svo með þá."

Guðmundur mælti: "Forvitni er mér á hvað þú ætlar mér í skapi búa."

Þórarinn mælti: "Eigi mundir þú mig til spara að kveða það upp er þér þykir."

Guðmundur mælti: "Þar er nú komið að eg ætla að eg vilji það."

Þórarinn mælti: "Svo skal og vera. Því viltu eigi, að þú sérð fyrir landsbyggðinni, að eigi verði sá maður fæddur að hann sé dótturson þinn er maðurinn ert ríkastur. Og ætlar þú að landsbyggðin megi eigi bera ríki þess manns hér á landi er svo göfugra manna er."

Guðmundur mælti og brosti að: "Hví munum vér nú eigi gera þetta þá að álitamálum?"

Síðan voru Sörla orð send. Kom hann til mála þessa og gekk að eiga Þórdísi. Þau áttu tvo sonu, Einar og Brodda, og voru hvorirtveggju ágætir menn. Nú er því frá þessu sagt að Guðmundi þótti gott lofið en hinn sýndi eftirleitan viturlega og gat nærri skapi mannsins.

Dætur þrjár áttu Kolbeinn og Guðríður. Eina dóttur, Guðrúnu, átti Sæmundur hinn fróði og tvær dætur hans áttu tveir bræður Sæmundar. Kolbeinn Flosason var grafinn í Fljótshverfi en hún færði hann til Rauðalækjar.

7. kafli

8. kafli

Í þann tíma er Guðmundur hinn ríki bjó á Möðruvöllum í Eyjafirði þá bjó á Þverá Einar bróðir hans. Guðmundur var bæði ríkur og fjölmennur. Hann var því vanur að fara norður um héruð á vorið og hitta þingmenn sína og ræða um héraðsstjórn og skipa málum með mönnum. Og stóð þeim af því hallæri mikið er höfðu lítt áður skipað til búa sinna. Hann reið oft með þrjá tigu manna og sat víða sjö nætur og hafði jafnmarga hesta.

Þorbjörn hét maður er bjó að Reykjum í Reykjahverfi. Hann var mikill maður og sterkur, vinsæll og auðigur.

Þá bjó Ófeigur Járngerðarson í Skörðum. Önundur hét faðir hans Hrólfssonar Helgasonar hins magra. Ófeigur réð mestu áður norður þar. Hann var vinur þeirra bræðra, Guðmundar og Einars.

Eitt haust var fundur fjölmennur í Skörðum að tala um hreppaskil og ómegðir manna og var því skipt að lögum. En hallæri mikið var norður þangað.

Þá mælti Þorbjörn: "Þig kveð eg að þessu Ófeigur og mæli eg fyrir margra hönd því að mikil er óöld á mönnum norður hingað en þú veist siðvenju Guðmundar hins ríka, höfðingja vors, að hann fer norður hingað á vorið og situr í sumum stöðum lengi. Nú kynnum vér því vel ef hann færi við tíunda mann en þetta er oss ofurefli."

Ófeigur svarar: "Þar sé eg gott ráð til. Guðmundur hinn ríki skal sitja hjá mér hálfan mánuð með öllu liði sínu og skuluð þér færa honum hingað gjafar þær er þér gefið honum og leysa hann héðan á brott."

Þorbjörn svarar: "Reyndur ertu að stórmennsku og stórlyndi. En þó viljum vér þenna kost eigi."

Ófeigur svarar: "Þá mun vandast taka svo að eigi mun öllum vel líka. Nú skuluð þér setja inn hesta yðra, einum fátt í þrjá tigu og alla feita. Þeir skulu allir vera graðir. En sækið hey til mín ef þér þurfið."

Þeir kváðust þetta vilja og skilja að svo mæltu.

Líður nú svo að kemur efsta vika langaföstu. Þá kemur svo að Ófeigur lætur senda eftir þeim sem hestana hafa og komu þeir í Skörð með hestana og tekur Ófeigur við þeim vel. Fimmtadaginn bað Ófeigur þá leggja söðla á hesta sína og svo gerðu þeir. En er þeir voru albúnir var út leiddur hestur Ófeigs og lagður á söðull. Var hann bæði mikill og feitur og var graður. Ófeigur stígur á bak honum og var maðurinn hinn skörulegasti. Þá ríða þeir úr garði.

Þá mælti Ófeigur: "Þér munuð þykjast fara mjög að óvísu ráði. En eg mun sjá ráð fyrir oss."

Þeir játuðu því allir.

Þeir ríða upp eftir héraði til Reykjadals og svo til Ljósavatns og svo til Fnjóskadals og svo til Vöðlaheiðar og komu til Þverár um kveldið til Einars. Hann tók við þeim vel og bauð þeim þar að vera fram yfir páska. Ófeigur þakkar honum boðið en kvaðst ríða mundu upp á Möðruvöllu á laugardaginn.

"Það vil eg," sagði Einar, "að þú komir hér er þú kemur aftur og segir mér tal ykkart Guðmundar bróður míns."

Ófeigur kvaðst svo gera skyldu.

Ríða þeir nú upp á Möðruvöllu á laugardaginn. Og er þeir nálgast bæinn gekk út húskarl einn og inn aftur og sagði Guðmundi að menn riðu að bænum eigi allfáir.

Guðmundur kvað það enga nýlundu þar í Eyjafirði þótt menn riðu þar um hérað: "Nú er eitt til marks hvort þetta eru hér héraðsmenn að þessir menn munu ríða þar í hlið sem þeir koma að en ef lengra eru að komnir þá munu þeir ríða í þjóðhlið ef nokkurir eru merkismenn í förinni."

Húskarl kom inn í annað sinn og sagði svo: "Eigi er til efs að þessir menn ríða að grindhliði og ríður þar fyrir einn maður í blárri kápu."

Og er þeir komu út mælti Guðmundur: "Vera kann að þeir eigi hingað nokkuð erindi, Reykdælirnir, eða nýtt um að vera norður þar er kappinn þeirra er hér kominn, Ófeigur."

9. kafli

Guðmundur fagnar vel Ófeigi og þeim félögum hans og býður þeim þar að vera svo lengi sem þeir vildu.

Ófeigur kvað þá það þiggja mundu "en vandhæfi mun þér þykja á vera að láta geyma hesta vorra því að þeir eru allir graðir og má engi við annan eiga. En vér erum að þeim vandir mjög því að þetta eru stóðhestar vorir töðualnir."

Guðmundur kvaðst ætla að húskörlum mundi eigi vel hlýða að geyma eigi svo hesta að dygði allvel og sagði endast mundu hús á Möðruvöllum "því að heldur skal leysa út nautin úr fjósinu og búa þar um hestana."

Þeir Ófeigur sátu þar fram um páska.

Hinn fjórða dag páska er Ófeigur var upp risinn kom að honum einn förunautur hans og spurði: "Hversu lengi ætlar þú að vér skulum hér sitja?"

Ófeigur svarar: "Fram um páskaviku."

Sjá svarar: "Það kemur lítt við því að nú var farið að kaupa bæði hey og mat."

Ófeigur mælti: "Sitjum nú sem fastast og vildi eg gjarna að þú segðir satt."

Mánadaginn eftir páskaviku bjuggust þeir í braut.

En Guðmundur bað þá enn sitja lengur og skemmta sér "og er enn mart vantalað."

Ófeigur kveðst nú mundu ríða. Guðmundur lét taka hest sinn og ríður á veg með þeim. Þeir koma að stakkgarði einum.

Guðmundur mælti: "Hér munum vér af baki stíga og æja. Eigi vil eg að Einar bróðir minn eigi að hlæja að því í kveld að hestar yðrir séu svangir."

Og svo gera þeir.

Guðmundur mælti: "Þú hefir verið með oss Ófeigur um hríð og vitum vér ekki erindi þitt. Nú vildum vér vita hver þau væru."

Ófeigur svarar: "Það er vel að þú hefir að spurt Guðmundur og beið eg þess að. En það er erindi mitt að færa þér heim sanninn því að þeim norður þar þykir þú hafa of lítinn áður. Nú veistu að það er vandi þinn að fara á hendur þingmönnum þínum norður um sveitir á vorið með þrjá tigu manna og setjast að eins bónda sjö nætur. Nú er það lítil vægð við þá sem lítil fé eiga og eigi hafa betur en skipað til búa sinna á haustið. Og verður þeim slíkt mikil yfirskipan. Nú höfðum vér eigi svo lengi hér verið og þótti mér sem þú þyrftir bæði að kaupa hey og mat og áttir allt gnógt og ert höfðingi yfir mönnum. Eg hygg að þú værir aldrei minni höfðingi þótt þú færir til vina þinna við tíunda mann. Mundu allir því kunna vel."

Guðmundur mælti: "Þetta er harðla vel talað sem von er að þér. Er það og víst satt að eg hafi þetta gert. En athuga er vert hvort þú munir vera í móti mér er mín sæmd liggur við. Og er það víst."

Ófeigur mælti: "Eigi varði mig slíkra orða af þér og eigi hefir mér það í huga verið hér til."

Varð Ófeigur fár við þetta og varð eigi mart um kveðjurnar með þeim Ófeigi og Guðmundi að skilnaði og þótti Guðmundi hvergi betri sannurinn en Ófeigi þótti grunur Guðmundar. Skildu þeir við þetta og reið Ófeigur til Þverár um kveldið. Tók Einar við þeim ágæta vel og sagði Ófeigur honum allt tal þeirra Guðmundar.

Þá mælti Einar: "Karlmannleg er orðin ferð þín Ófeigur og eigi veit eg hversu yður fer, Reykdælum, en eftir ganga oss Eyfirðingum spár Guðmundar bróður míns."

Um morguninn eftir ríður Ófeigur norður aftur og heim.

En um vorið fór Guðmundur heiman norður við tíunda mann og sat þar nú tvær nætur er fyrr sat hann sjö. Hann gisti að Ófeigs í Skörðum og var þar við honum tekið forkunnar vel. Sat hann þar viku. En að skilnaði gaf Ófeigur honum tvo oxa rauða, sjö vetra gamla, og voru það hinir bestu gripir.

Guðmundur mælti: "Þetta er vel gefið. En eg á tvo oxa aðra, alsvarta, er að engu eru verri en þessir og vildi eg gefa þér hvoratveggju oxana til þess að þú legðir eigi í móti mér þá er mín sæmd liggur við."

Ófeigur mælti: "Þiggja máttu gjöfina af því að eigi fylgir undirhyggja við þig."

Guðmundur kvaðst eigi vita hvað bætast mundi í því þó að hann þægi eigi. Síðan fór hann þaðan á braut og þótti mönnum Ófeigur mjög vaxið hafa af þessum viðskiptum þeirra Guðmundar.

10. kafli

11. kafli

Þorkell hét maður er bjó á Mýri. Hann var góður bóndi. Brandur hét sonur hans. Hann var mikill maður og sterkur og 5var kallaður Vöðu-Brandur. Hann var maður ódæll og illur viðureignar og heldur óvæginn svo að trautt mátti faðir hans halda vinnuhjónum fyrir honum.

Eitt sumar kom skip af hafi norður við Tjörnes. Það áttu þrænskir menn. Hét annar Þórður en annar Sigurður. Það var þá siður að hásetar vistuðust fyrr en stýrimenn.

Einn dag reið Vöðu-Brandur til skips og fann stýrimenn. Þeir spurðu hvað manna hann var en hann kvaðst vera búanda son. Þeir spurðu ef faðir hans mundi vilja taka menn til vistar.

En hann kvað þar eigi útlendra manna vist, "er þar fámennt og dauflegt," segir hann, "en þó er enn annar meiri annmarki á."

Þeir spyrja hver sá væri.

Hann svarar: "Það er sá að engi má við mig skapi koma."

Þeir kváðust á það hætta mundu.

Brandur svarar: "Þá mun eg þetta mál tala við föður minn," ríður nú heim og segir föður sínum að hann hefir tekið við stýrimönnum.

Þorkell kvað það vera hætturáð "en vel þætti mér," segir hann, "ef þér yrði sæmd að."

Hann kvað föður sinn einan ráða skyldu "en betur þykir mér," segir hann, "að við höfum eigi svikið þá."

Þorkell bað hann sjá fyrir "því að þetta kemur mest til þín."

Síðan fór Vöðu-Brandur til móts við Austmennina og sagði að þeim var kostur vistarinnar en þeir kváðust það þiggja mundu og fóru heim með honum. Það töluðu margir menn að þeim hefði þetta kynlega missést. Síðan var heim færður varningur þeirra stýrimanna og reið Brandur með hann norðan til Fnjóskadals og seldi hann þar. Það töluðu þar margir menn að Brandur mundi enn hafa vana þann að hann mundi illa við þá lúka sem alla aðra. En stýrimenn gáfu að slíku engan gaum hvað sem hver talaði. Fór Brandur allt til Eyjafjarðar með varninginn áður en hann gat selt allan en eigi gat hann um fyrir stýrimönnum hvar hann hafði selt varning þeirra þá er hann kom heim.

En um vorið fór hann að heimta saman fé Austmanna og sýndist engum ráð að halda fyrir honum réttri skuld og heimti hann hverja alin þá er honum bar að heimta. En er hann kom heim sýndi hann stýrimönnum og virtist þeim vel. Báðu þeir hann sjálfan kjósa sér laun fyrir en hann kvaðst vildu utan fara með þeim.

Þeir sögðu það til reiðu skyldu og báðu hann vera skapvaran "eða hvað er til fararefna?" sögðu þeir.

Hann kvað það mjög undir föður sínum vera. Þeir tóku nú tal við Þorkel og sögðu honum þetta.

En hann kvaðst hyggja að þeir mundu vera góðir drengir "og mun eg láta til við hann fimmtán hundruð. Og er mér þó grunur á að ykkur kosti meira," sagði hann, "ef þið viljið honum nokkura ásjá veita."

En þeir kváðust á það hætta mundu.

Fóru þeir nú utan um sumarið og líkaði þeim vel við Brand því að hann var bæði knár og liðvaskur. Þeir voru úti lengi og komu að norður við Þrándheim. Buðu þeir bræður Brandi heim með sér og það þiggur hann. Þar áttu menn gleði saman og var þar fjölmenni mikið. Þeir bræður buðu Brandi með sér að vera en sögðu vant að vera í stórum samdrykkjum.

Hann kvaðst eigi á aðra leita mundu að fyrra bragði "en eigi veit eg," segir hann, "hversu mér bregður við ef aðrir leita á mig."

Þeir komu til þess manns er Hárekur hét. Hann var ættstór og mjög áleitinn og hafði sveit manna um sig við sitt skaplyndi. En er hann sá Íslendinginn tók hann til að spotta hann og hæða á marga vegu. Fór nú svo fram um hríð að þeir ortust á vísur og varð Brandur hlutdrjúgari svo að Hárekur fékk úr verra. Hárekur kvað Brand eigi hafa beðið sig byggðarleyfis en fylkismenn sögðu að þeir bræður ættu heimila sveitarvist þeim sem þeir vildu. Hárekur var hinn mesti vígamaður og bætti engan mann fé.

Einn dag gekk Hárekur fyrir Brand með horn mikið og bað hann drekka til móts við sig.

En Brandur kvaðst eigi drekka mundu, "hefi eg vit eigi of mikið þótt eg drekki það eigi frá mér sem eg hefi áður. Munt þú og þurfa vit þitt allt að því er mér líst á þig."

Hárekur drekkur nú af horninu til hálfs og bauð Brandi að drekka hálft er eftir var en hann vildi eigi við taka. Hárekur kvað hann skyldu verða að þjóna honum og laust horninu í höfuð honum svo að drykkurinn slóst niður á Brand. Síðan gekk Hárekur til rúms síns og slær nú til spotts við Brand en Brandur gerði sig eigi óðan og sló þessu í gaman. Hárekur kvað honum svo við þetta verða sem hann hefði oft barður verið.

En um morguninn er menn voru komnir í sæti sín gekk Brandur fyrir Hárek, keyrði öxi í höfuð honum og vó hann. Nú spruttu upp hvorratveggju þeirra menn og varð þar þröng mikil. Þeir bræður gátu Brandi í brott skotið og buðu boð fyrir hann frændum Háreks. En með því að hann var óvinsæll þá tóku þeir fébætur. Gekk þá upp fé það allt er Brandur hafði haft af Íslandi og meira annað.

Síðan spurðu þeir bræður hvað Brandur vildi ráða sinna en hann kvaðst vilja fara til Íslands þótt nú væru eigi sýn fararefni.

Sigurður kvaðst eigi við fleirum mönnum hafa tekið af Íslandi en svo að hann skyldi hafa peninga slíka sem hann hafði til hans haft "og eru hér nú fimmtán hundruð þín," segir hann, "og er þeim varið í norrænan eyri."

Síðan fylgdu þeir bræður honum til skips og skildu eigi við hann fyrr en þeir létu í haf. Þakkaði Brandur þeim vel sína liðveislu alla og skildust vinir. Skipi því byrjaði lítt og tóku þeir Reyðarfjörð að áliðnu sumri. Snemma tók að hausta og gerði færðir þungar sökum snjóva.

12. kafli

Þorkell hét maður Geitisson. Hann bjó í Krossavík í Vopnafirði. Þá var á vist með honum sá maður er Einar hét. Hann var reykdælskur. En er hann frétti að Vöðu-Brandur var út kominn þá bjó hann sig. Þorkell spurði hvert hann ætlaði.

Hann kvaðst á braut ætla "því að eg hefi spurt að Vöðu-Brandur er út kominn en eg veit risnu þína að þú munt taka við honum. En til hans má engi maður sæma."

Þorkell svarar: "Snemmt er þér að kvíða við honum. Og ef hann kemur hér niður skal eg sjá ráð fyrir þér ef þér er eigi hér við vært. En ef það verður að Brandur er hér og leitar hann eigi á þig þá er þér marglæti í að bregða vist þinni."

Lét hann nú setjast.

Fám nóttum síðar kom Vöðu-Brandur í Krossavík og var þar vel við honum tekið. En er hann hafði þar verið þrjár nætur þá talaði hann við Þorkel bónda og sagði að hann vildi að hann tæki við honum um veturinn.

Þorkell svarar: "Gera mun eg þér kost á því þótt þú sért ódæll og óeirinn. Nú vil eg taka við lögheimili þínu því að mér þykir það óvandast en þú skalt fá varning þinn í mitt vald hvað sem að borði kann að bresta."

"Þenna kost vil eg," kvað Brandur, "því að mér er leitt að rekast í ófærðum en illt nú til heyja."

Hinn fyrsta hálfan mánuð er Brandur var í Krossavík var hann svo fylgisamur Þorkatli að hann gekk út og inn með honum hvert sem hann fór. En annan hálfan mánuð brá nokkuð hætti hans. Þá var hann eftir í stofu á kveldum er Þorkell gekk að sofa og hafði frammi margs konar ertingar. Og það hafa menn sagt að hann hafi fyrstur fundið Syrpuþingslög. Komu menn víða af bæjum og gerðist þar af þys mikill. Þorkell sat að drykkju og var eigi nema við annan mann. Nú er getið um fyrir Þorkatli að konum þykja ríkt bornir kviðirnir er þær komu eigi fram vörn nýtri og eigi réðu þær sjálfar ferðum sínum.

Þorkell heimti nú Brand á mál við sig og mælti: "Eigi hefi eg hlutsamur verið um hagi þína og háttu hér til. En það kemur fyrir mig að konur ráði varla ferðum sínum fyrir þér og sveitungum þínum en þér hæfir slíkt varla. Er hér því líkast sem nýr höfðingi sé kominn í sveit og gangi menn af hendi þeim sem áður er fyrir. Eg geng fram við annan mann en þú situr eftir við alla sveitina. Og nú vil eg að því gera láta."

Brandur kvað betur mundu af ráðast.

Og um kveldið fór Brandur til rekkju. En þingmenn komu að vana sínum og máttu þá eigi heyja þing er formaðurinn var engi. Var þá farið eftir honum og fór hann eigi að heldur. Þá komu þingmenn annan aftan og fór enn sem fyrr. Tók þá af komur manna en Brandi kom aldrei orð frá munni á hálfum mánuði.

Þá mælti Þorkell við Brand: "Örskiptamaður ertu mikill. Nú tak þú aftur gleði þína hæfilega."

Hann kvaðst eigi kunna og eigi vita hversu hann skyldi með fara er engan veg líkaði "og er engum manni hjá þér vært og skal eg í brott fara."

Þorkell mælti: "Þú ert minn heimamaður og það þykir mér þú gera mér til svívirðingar ef þú hleypur í brott úr vist þinni."

Brandur reið nú á braut eigi að síður og vestur til föður síns. Þar tókust brátt upp leikar. Þorbjörn var þar knástur maður frá Reykjum og lékust þeir við og Brandur. Báðu menn þá að Þorbjörn skyldi leika af öllu afli og sýna það að hann var sterkur maður. Hann kvað það vel mundu mega. Og einn dag er leikur var keyrði Þorbjörn Brand niður fall mikið, leikur nú eftir megni og hafði Brandur eigi við. Líkaði honum nú illa. Og að skilnaði þeirra veitti Brandur honum mikinn áverka. Þar var þröng mikil og var þar kominn Ófeigur úr Skörðum. Brandur fer nú heim til föður síns og segir honum hvar komið var.

Þorkell svarar: "Þú hefir stýrt oss í mikið vandræði og var það mjög ófyrirsynju er þú fórst í brott frá Þorkatli. Nú er það mitt ráð að þú farir aftur á hans fund."

Brandur kvaðst þess ófús vera en þó fór hann austur og sagði Þorkatli þessi tíðindi.

En hann kvað betra að hann hefði kyrr verið: "Mun eg þó við þér taka því að eg man eigi að eg hafi heimamann minn fyrir róða látið."

13. kafli

Síðan fór Þorkell Geitisson á fund Guðmundar hins ríka og bauð fé fyrir manninn, "vil eg að þú gerir sjálfur um."

Guðmundur kvaðst eigi vilja taka fé fyrir slíkan óeirðarmann er hlaupa vildi í höfuð saklausum mönnum "og er landhreinsan að slíkir menn séu af ráðnir að lögum."

Fékk Þorkell ekki af en Guðmundur fór norður í Reykjahverfi og tók mál af Þorbirni og bjó það til vorþings.

Nokkuru síðar fór Þorkell Geitisson austur í Álftafjörð á fund Þorsteins Síðu-Hallssonar vinar síns og tók hann vel við honum.

Þorkell mælti: "Svo hefir borið til í vetur að Brandur, mikill ónytjungur, hefir unnið á einum bónda fyrir norðan en hann er nú heimamaður minn. En Guðmundur hinn ríki hefir búið málið til Vöðlaþings. Kann það vera að hann hafi eigi það íhugað að hann er eigi nú þar í fjórðungi og hefi eg handsalað honum löggrið. Og kemur mér það í hug að oss muni veita mál til laga. Nú vildi eg þitt liðsinni til þiggja að sækja til þings og verja málið með kappi fyrir Guðmundi ef hann skal þó eigi fébótum fyrir koma og reyna svo hvort eg sé eigi annarrar handar maður hans sem hann svaraði Bjarna Brodd-Helgasyni frænda mínum um sumarið á alþingi."

Þorsteinn kvaðst sjá að vörn var í málinu "en þó mun þá þykja með kappi að gengið og fara mun eg með þér."

Um sumarið búast þeir heiman með sex tigu manna hvorir og ríða til Jökulsár. En þá voru góð vöð víða.

Þá mælti Þorkell: "Nú munum vér skipta liði voru. Skal Þorsteinn og vér fimm saman fara almannaveg vestur til þings en flokkurinn allur annar skal ríða fyrir ofan Mývatn til Króksdals og Bleiksmýrardals og svo fyrir neðan heiði."

Var þar þá víða skógi vaxið. Og ríða þeir ofan eftir Fnjóskadal en þeir Þorkell fóru á Akureyri því að þeir höfðu tjöld samlit við skóga. Þeir finnast nú þar sem á kveðið var og varð engi maður var við ferð þeirra.

Þeir Þorkell og Þorsteinn ríða á þing drottinsdaginn og þeir fimm saman. Þorkell bað menn sína skynja ef hann þyrfti liðs við. Kvaðst hann þá mundu ganga á hól þann er var í milli þings og þeirra "og mun eg hafa í hendi handöxi mína hina reknu og veifa henni yfir höfuð mér."

Síðan ríða þeir á þingið til búðar Ófeigs Járngerðarsonar fimm saman. Hann bauð þeim þar búðarvist.

Maður kom inn í búð Guðmundar hins ríka.

"Furðu fámennir ríða þeir Þorkell Geitisson á þingið," segir hann.

"Hversu þá?" segir Guðmundur.

"Þeir voru með fimmta mann," segir hann.

Guðmundur kvað þá mundu ríða mega með meira flokki í völlinn ef þeir ætluðu að eyða málum fyrir honum "en þó kemur mér nú það í hug að vanhugað mun nokkuð í máli voru. Þeir Þorkell munu kalla hann sinn heimamann en þó er ólíklegt að Þorkell eyði málum fyrir oss við fimmta mann. En vera má að hann búi um brögð nokkur við oss og hafi þeir fleiri saman verið."

Sendir hann þá menn þegar að spyrja að gistingarstöðum þeirra. Og kann engi annað að segja þar sem þeir hafa gist en það að þeir hafi eigi fleiri saman verið en fimm.

Þá mælti Guðmundur: "Vera kann að þá megi hlýða ef þeir hafa eigi fleiri austan riðið og munum vér þá eigi senda eftir fleira liði að sinni. Og ganga mál þessi til svo sem auðnar."

14. kafli

Guðmundur hinn ríki sækir nú málið í Norðlendingadóm og setur dóminn og býður til varnar.

Þá mælti Þorkell Geitisson: "Það vildi eg Guðmundur að þú tækir sættir og sjálfdæmi sektalaust."

Guðmundur svarar: "Það mundi eg þiggja ef þú ættir eftir duganda mann að bjóða. En nú nenni eg eigi um vanmennu þá er eg hefi svo starfa fyrir haft."

Þá mælti Þorkell og nefndi sér votta og setti lýritti og fyrirbauð þeim að dæma. En Guðmundur kvað hann nú með kappi að ganga að verja og segir hann skulu þar engum sínum málum fram koma.

Þá mælti Þorkell: "Enn munum vér þetta handsala fyrir manninn ef þú vilt sjálfdæmi taka."

Guðmundur kvaðst eigi sækja manninn í þeirra sveit ef þeir vildu eyða þar málum fyrir honum "og skal að vísu maðurinn sekur verða."

Þá gekk Þorkell upp á hólinn og brá upp öxinni. Dynja þá þegar menn hans fram á þingið og hleypa upp dóminum. Kom þetta á alla óvara. Nefndi Guðmundur sér votta og stefndi Þorkatli um þingsafglöpun en Þorkell stefndi Guðmundi um rangan málatilbúnað og stefndu báðir til alþingis um sumarið.

Fjölmenntu þeir þá mjög hvorirtveggju. Var þar Bjarni Brodd-Helgason og hafði hann mikinn flokk og vissu menn eigi hvar hann mundi að snúast um liðveisluna. Þeir Þorkell og Þorsteinn voru fjölmennir en þó var Guðmundur miklu fjölmennari. Þorkell átti búð uppi við Fangabrekku. Var nú leitað um sættir milli þeirra og var fast fyrir.

Einn morgun snemma gekk Þorsteinn Síðu-Hallsson til búðar Ófeigs Járngerðarsonar og talar við hann.

Þorsteinn spyr: "Hversu segir þér hugur um sættir manna?"

Ófeigur kvað sér hug þungt um segja og mjög þunglega á horfast.

Þorsteinn mælti: "Það vil eg þér kunnigt gera þar sem þér eruð vinir hvorratveggju að hér munu áður vandræði af gerast ef eigi er sæst á málið. Þeir ætla að bjóða Guðmundi einvígi og vill hann heldur hafa bana en svívirðing of mikla ... og hætta á við Einar bróður hans. Nú væri það ráðlegra að menn leiti um sættir og eigi þar í Einar hlut þann sem vér eigum allir. Hefir Þorkell það mjög við orð að biðja Jórunnar dóttur Einars að Þverá. Nú vil eg að við hittum Einar."

Ófeigur svarar: "Vel þykir mér þeirra mála leitanda við Einar en hin málaleitan sýnist mér óviturleg."

Síðan hitta þeir Einar og ganga nú á tal allir saman.

Ófeigur mælti: "Svo er sem þú veist Einar bóndi að hér horfir til stórra vandræða með mönnum og eiga þeir menn í hlut er vitmenni eru báðir og þó kappsfullir. En vér erum beggja vinir og skyldir til að ganga vel í milli. Því vill Þorsteinn það mál uppi hafa við þig að biðja til handa Þorkatli Geitissyni Jórunnar dóttur þinnar."

Einar kvað þessa vel leitað "en þó mun Guðmundur hér mestu um ráða þá er vér finnum hann."

Þeir kváðust ætla að hann sjálfur mundi réttur lögráðandi vera fyrir dóttur sinni þó að eigi væri Guðmundur að fundinn, "muntu á það líta að Guðmundur heldur þér lengstum lítt til metnaðar eða virðingar."

Einar mælti: "Er Þorkell eigi félítill en dóttir mín hefir mikið fé?"

Ófeigur svarar: "Hver er stórlyndari en Þorkell því að hann geldur fé fyrir menn á þingum eða hvers þeirra bú stendur með meira blóma en hans? Hvað er þá undir um peninginn er hvorki verður honum gjald að né öðrum? Og situr hann yfir virðingum allra Austfirðinga."

"Allvel er nú flutt Ófeigur enda hefir Guðmundur góðs spáð Jórunni dóttur minni og ganga jafnan eftir spár hans. Má nú og vel tala um þessi mál, ef sýnist, vilji Þorkell hingað ganga."

En Þorsteinn kvað það eigi mundu að bila.

15. kafli

Nú gekk Þorsteinn Síðu-Hallsson þegar til búðar Þorkels en hann heilsar honum vel og spurði hvað hann árnar.

Þorsteinn svarar: "Eigi veit eg nú að hverju verða vill en konu hefi eg beðið í morgun til handa þér."

Þorkell mælti: "Mikið er um liðveislu þína við mig er þú gerir það ekki síður er eg býð þér um eigi. Hver er sjá kona?"

Þorsteinn svarar: "Sjá mær heitir Jórunn og er dóttir Einars frá Þverá."

Þorkell mælti: "Þá mey vildi eg og helst eiga á Íslandi."

Þorsteinn mælti: "Þá er nú ráð að ganga til festarmálanna."

Síðan finnast þeir Einar og Þorkell og tala um málið. Urðu þeir á allt vel sáttir og á kveðin brullaupsstefna. Síðan fóru festar fram og skyldi brullaupið vera að Þverá hálfum mánuði eftir þing.

Síðan gekk Þorsteinn þar nærri sem Guðmundur hinn ríki var og þótti honum vel að tal þeirra bæri saman og svo varð.

Guðmundur mælti: "Göngult verður þér Þorsteinn um þingið og munuð þér mikið afreka."

Þorsteinn svarar: "Eigi síður mun þér það þykja ef þú veist gjörla."

Guðmundur spyr: "Hvað er nú nýrra tíðinda Þorsteinn?"

Hann svarar: "Smá eru tíðindi sem eg hefi að segja en þó það helst að Þorkell Geitisson festi sér konu."

Guðmundur svarar: "Sú kona er vel gefin er honum er því að hann er hinn mesti hreystimaður þótt nú sé með okkur fátt. Eða hver er sú kona?"

Þorsteinn svarar: "Jórunn bróðurdóttir þín."

Guðmundur mælti: "Eigi var Einari það í hug áðan er við skildum."

"Nú rétt gekk eg frá festarmálunum og var eg votturinn og Ófeigur Járngerðarson."

Guðmundur mælti: "Satt muntu segja og þar mun hugur minn mest hafa fyrir borist en þessu mun mest hafa ráðið Ófeigur Járngerðarson."

Síðan var um sættir leitað og gekk nú mest að Einar og Ófeigur Járngerðarson.

Þá mælti Guðmundur: "Nú er það fram komið Ófeigur er eg spáði þér um vorið að mín virðing mundi hallast af þínu tilstilli."

Ófeigur svarar: "Eigi hefi eg hallað virðingu þinni að heldur þó að eg hafi fengið þér mága betri og fleiri en áður."

Þorkell mælti: "Enn vil eg bjóða þér Guðmundur að þau hin sömu boð haldist er þú gerir um sjálfur fyrir áverkann en eg geri fyrir málatilbúnaðinn er eg hefi haft við þig."

Guðmundur sá nú að sér gerði eigi annað og tók þetta boð og gerði svo að báðum hugnaði vel. En þó eldi hér lengi af með þeim bræðrum. En Þorkell sat yfir sæmdinni allri.

Og einn dag á þinginu fundust þeir Guðmundur hinn ríki og Bjarni Brodd-Helgason.

Þá mælti Bjarni: "Svo sýnist mér Guðmundur sem þú hafir þurft báðar hendur við Þorkel frænda minn og hafi þó ekki af veitt um. Og man eg enn það Guðmundur er eg bað þig að þú skyldir sætta okkur Þorkel og svaraði engi ódrengilegar en þú og sagðir hann eigi vera mundu meira en annarrar handar mann gilds manns og kvaðst hann hafa hálfþynnu eina í hendi en mig höggspjót gilt á hávu skafti. En eg em nú minni höfðingi en þú og sýnist mér sem hann muni eigi þar lengi gengið hafa skaftamuninn."

Síðan fóru menn af þinginu. Og var brullaup að Þverá og gaf Þorkell upp Guðmundi mál það er hann hafði rangt til búið er hann sótti í Norðlendingafjórðung þá er hann átti í Austfirðingadóm að sækja. Síðan fór Þorkell heim með konu sína og þótti hann mjög vaxið hafa af þessi ferð. En Jórunn var hinn mesti kvenskörungur sem ætt hennar var til. Hún kom og því til leiðar sem engi hafði áður komið að þeir sættust frændurnir, Þorkell Geitisson og Bjarni Brodd-Helgason, og héldu þá sætt vel og drengilega síðan. Þorkell bjó í Krossavík til elli og þótti ávallt hinn mesti garpur þar sem hann kemur við sögur.

Vöðu-Brandur fór austan og bjó á föðurleifð sinni og samdist mikið og þótti góður bóndi og þóttist aldrei fulllaunað geta Þorkatli Geitissyni sína liðveislu og góðvilja.

Og lýkur þar þessum þætti af Vöðu-Brandi Þorkelssyni.

16. kafli

Guðmundur hinn ríki átti Þórlaugu dóttur Atla hins ramma. Herdís hét móðir Þórlaugar, dóttir Þórðar frá Höfða. Þar óx sá maður upp með Guðmundi er Þorsteinn hét og gerðist verkstjóri. Ekki var hann stórrar ættar en mannaðist vel.

Þá bjó Þórir Helgason Valþjófssonar Helgasonar hins magra að Laugalandi í Hörgárdal. Hann var goðorðsmaður og garpur mikill. Geirlaug hét kona hans. Hún var skörungur mikill og vel mennt.

Einar bjó þá að Þverá, spekingur mikill og vinur Þóris Helgasonar. Þeir veittust að öllum málum. Fátt var með þeim bræðrum Einari og Guðmundi því að Guðmundur sat mjög yfir metorðum manna norður þar.

Þorkell hákur, sonur Þorgeirs lögsögumanns, bjó þá að Öxará í Ljósavatnsskarði. Hann var einlyndur og hetja mikil. Hann hafði fátt hjóna og átti þó sökótt.

Brúni hét maður er bjó í Gnúpufelli. Eilífur hét bróðir hans og var kallaður skyti, mikill og vaskur maður. Þeir höfðu goðorð og voru komnir frá Helga hinum magra.

Það er frá sagt að Þorsteinn kom að máli við Guðmund og mælti: "Svo er með vexti að eg hefi hér upp sest að þér og tekið hér þrifnað. Nú vildi eg leita mér kvonfangs og hafa þar til yðvart liðsinni."

Guðmundur mælti: "Þú munt þetta áður hugsað hafa hvar niður skal koma en heimil munu þar til vor orð."

Hann svarar: "Rétt getur þú. Hugfest hefi eg þetta. Kona heitir Guðrún og er frændkona bóndans að Bægisá og er þar matselja fyrir búi. Hennar vildi eg að þú bæðir mér til handa. Þín orð munu þar meira metin fá en mín mörg."

Guðmundur svarar: "Eg kalla það jafnlegt og vel leitað. En lítið er mér um að fara í sveit Þóris Helgasonar og að hann eigi meiri afla en eg. En er hestaþing er á Oddeyri í Hörgárdal þá mun eg vekja til en gera eigi að því ferðir mínar einvirðulega."

Síðan var hestaþingið og kom þar mart manna.

Og þar kom Guðmundur og brá bónda þegar á eintal, frá Bægisá, og mælti: "Þorsteinn heitir maður er upp hefir fæðst með oss og höfum vér hann að góðu reynt. Hann vill mæla til ráðahags við Guðrúnu frændkonu þína. Viljum vér flytja mál mannsins."

Bóndi svarar: "Allvel er maðurinn til fenginn að flytja hans mál og munum vér mikils meta þín orð."

Síðan hitti hann konuna og spurði hversu henni var um gefið en hún bað hann gera sem hann vildi. Síðan var á kveðið um brullaupsstefnu og skal vera að Bægisá.

Þorsteinn mælti þá: "Nú er ætlað að eg muni fara til brullaups míns en eg vil biðja þig til ferðar með mér því að mér er mestur sómi að þér."

Hann svarar: "Þetta em eg ófús að veita þér og færð þú ærna menn til þessa."

Þorsteinn svarar: "Meiri sæmd er að þér einum en að mörgum öðrum og mun dælt við mig þykja ef þú ert eigi í för."

Guðmundur mælti: "Eg mun og fara en fyrir þykir mér."

Guðmundur sat í öndvegi en Þórir Helgason gagnvert honum en konur sátu á palli. Ljós brunnu björt og voru borð fram sett. Brúður sat á miðjan pall og Þórlaug á aðra hönd en Geirlaug á aðra. Kona fór með vatn fyrir pallinn og hafði dúk á öxl og fór fyrir Geirlaugu því að hún hafði verið með henni hinn fyrra veturinn.

Geirlaug tók til orða: "Þú ferð með góðum vilja en eigi með nógum álitum. Færðu Þórlaugu fyrr vatnið. Svo á að vera."

Hún gerði nú svo.

Þórlaug drap við hendi öfugri og mælti: "Of ger eigi beinann Geirlaug því að sjá kona gerir rétt. Eigi býr það í mínu skapi að mér leiki á þessu öfund. Er sýnt að önnur sé kona göfugri en þú í héraðinu?" sagði hún.

Geirlaug mælti: "Gerður er beininn Þórlaug. En hefir þú metnað til að vera mest metin. Hefi eg engan hlut til jafns við þig nema gjaforð."

Þórlaug svarar: "Víst hygg eg þig vel gefna en nú er þar komið að eg veit eigi aðra framar gifta en mig."

Geirlaug svarar: "Þá værir þú vel gefin ef þar væri einmælt um að bóndi þinn væri vel hugaður eða snjallur."

Þórlaug svarar: "Þetta er illa mælt og muntu fyrst manna mæla."

Hún svarar: "Satt mun það fyrir því að fleiri mæla hið sama en Þorkell hákur hefir haft þetta fyrst fyrir mér og þeir Þórir bóndi minn en hver maður mælir það sama er tungu hrærir."

Þórlaug mælti: "Ber hingað vatnið kona og hættum tali þessu."

Síðan hneig hún upp að þilinu og mataðist ekki.

En er menn voru að boðinu þá hvíldu hvorir sér konur og karlar. Og um morguninn er menn risu upp og fóru til kirkju er að messum kom sá Guðmundur að Þórlaug var eigi í kvennaliðinu. Hann spurði konu eina hverju það sætti en hún kvað hana hafa tekið sótt.

Guðmundur mælti: "Sitjið þér hér eftir en einhver gangi með mér."

Hann gekk að rúminu.

"Ertu sjúk Þórlaug?" segir hann.

Hún kvað að ósýnt var um heilsuna "en þó vildi eg í brott héðan í dag og leggjast eigi hér."

Guðmundur mælti: "Þetta er mér mikill skaði en fúsari væri eg að kyrrt væri meðan boð þetta stæði."

Hún svarar: "Engi hlutur má mér í hald koma ef eg em hér. Og ef eg hefi nokkuð vel til þín gert þá lát þú þetta eftir mér."

Guðmundur mælti: "Mikils krefur þú nú hvað sem þér í brjósti býr" og gekk svo í brott.

En er tíðum var lokið og dagverði þá mælti Guðmundur: "Nú skal taka hesta vora og vil eg heim fara því að Þórlaug er sjúk."

Þorsteinn mælti: "Gerðu það eigi Guðmundur að þú farir heim þegar."

En hann svarar: "Bið þú nú eigi framar en eg vil veita þér því að það mun eigi stoða."

Síðan riðu þau á brott.

Og er þau komu í skógana hjá Laugalandi þá veik Guðmundur hestinum aftur og mælti við þann mann er fylgdi hesti Þórlaugar: "Ríð þú nú fyrir en eg mun fylgja Þórlaugu."

Og svo var.

Síðan mælti Guðmundur: "Við þig vil eg tala Þórlaug því að eg sé að þú ert eigi sjúk og seg mér hverju þetta gegnir."

Hún svarar: "Eg mun svo gera. En sjaldan hefi eg það mælt fyrir þér er þér megi verr líka en áður. En nú eru þau efni í er eg má eigi leyna þig."

Síðan sagði hún honum hvað þær höfðu talað og fjandmæli manna við hann.

Guðmundur mælti: "Nú þætti mér eg betur hafa ráðið að við hefðum hvergi farið og væri þá óhættara við orðum manna. En af verður að ráða nokkuð hverju vandræði og heim munum við fara. Og skaltu nú fyrst liggja viku og láttu þér þá enn batna hægt. Að jöfnu skal eg við þig tala. En eigi þykir mér það ráðið hvort oss verður þetta að engu."

Þaðan riðu þau og komu heim og fór sem Guðmundur gerði ráð fyrir.

Síðan ríður Guðmundur norður í Reykjadal á fund Einars Konálssonar fóstra síns og hins besta vinar. Einar var spekingur mikill.

Síðan mælti Guðmundur: "Svo er mál með vexti Einar að eg vil segja þér fjandmæli þau er menn hafa frammi við mig, Þorkell hákur og Þórir Helgason. Vissi eg eigi af óvingan þeirra til mín svo gjörla sem nú."

Einar mælti: "Illa er slíkt gert við göfga menn. En eg vil biðja þig að þú hafir þrótt við. Og verði því meiri hefndin sem lengur er."

Guðmundur svarar: "Eigi er þess að leita. Hefna skal hvort sem það verður fyrr eða síðar."

Einar mælti: "Þá vil eg til hlutast með þér og svo ráð setja að þú takir sök hverja er þú færð á hönd þingmönnum Þóris Helgasonar og mun það fé brátt safnast."

Guðmundur þakkar honum þessi ráð og fleiri önnur og fer síðan á brott. Líða nú eigi langar stundir áður Guðmundur hendir sakar á þingmönnum Þóris.

Þórir hét maður og var kallaður Akraskeggur. Hann var þingmaður Þóris Helgasonar, auðigur en eigi vinsæll og slægur í kaupum við menn.

Skip kom í Eyjafjörð og átti sá maður er Helgi hét og var Arnsteinsson, farmaður mikill, og var ávallt með Guðmundi hinum ríka er hann var út hér, mikils virður.

Guðmundur reið til skips og mælti: "Það er mitt erindi hingað Helgi að bjóða þér heim til mín hvert sinn sem þú ert hér á Íslandi."

Hann svarar: "Það mun eg þiggja Guðmundur og kunna þér þökk fyrir."

Hann var með Guðmundi um veturinn og fór með þeim vingjarnlega.

Þórir Akraskeggur kom til skips, hitti Helga og kvaðst vilja kaupa að honum vöru. Helgi lét það vel mega og tók upp varning og seldi honum. Voru þar mæltir fyrir vararfeldir og skilið á hversu þykkröggvaðir vera skyldu.

Helgi bjó skip sitt um vorið. En er hann var albúinn reið hann á Möðruvöllu og hitti Guðmund.

Síðan mælti hann við Guðmund: "Nú er hér að líta á vistarlaunin þó að minni séu en þú værir verður."

Það var skikkja, pell dregin yfir skinnin og gullbönd á tyglinum og var hin mesta gersemi.

Guðmundur mælti: "Haf þökk fyrir og hefi eg eigi betra grip þegið."

Skildust þeir nú góðir vinir. Síðan fór Helgi til skips. Héldu þeir mjög til flýtis og var mjög borið á skip. Þórir hafði eigi ofan komið.

Og einn dag sjá þeir að maður reið af landi ofan til skips. Það var Þórir Akraskeggur. Hann hitti Helga og bað hann taka við gjaldinu en Helgi kastaði því inn í tjaldið því að honum var annt og leit eigi til en kvað hann síð komið hafa. Þórir kvaðst fleira eiga að sýsla en sjá upp á kaupmenn og fór í brott. En þeir drógu upp segl og sigldu út til Hríseyjar. Tók þá af vindinn og hlóðu þeir seglum. Þá leysti Helgi baggana og fann þar í feldi þá er á voru illar og margar raufar.

"Þetta eru mikil svik og skal honum að illu verða."

Síðan reri Helgi þaðan til lands, fékk sér hest og reið á Möðruvöllu. Hann kom þar snemma dags og heimti Guðmund á tal við sig.

Hann fagnaði honum vel "eða hvað er tíðinda?"

Hann lést engi tíðindi hafa "en orðið hefir þó í prettur nokkur við oss."

Guðmundur mælti: "Hvað er í því?"

Helgi segir honum hversu farið hafði með þeim Þóri Akraskegg "og vil eg að þú Guðmundur takir við málinu því að eg vil sigla."

Guðmundur mælti: "Oft hefir þú mér hallkvæmur verið en eigi mun nú smæstu ráða. Og má mér þetta koma að miklu haldi."

Heimti Guðmundur þá til sín tvo menn og tók nú sök á hönd Þóri Akraskegg. Gaf Guðmundur Helga góðar gjafar og skildust að því. Fóru þeir Helgi síðan utan og byrjaði þeim vel.

17. kafli

En litlu eftir þetta lét Guðmundur taka hest sinn og reið ofan til Þverár. En menn voru engir upp risnir nema sauðamaður. Hann kvaddi Guðmund og spurði hví hann reið einn saman.

Hann lét ýmsa vega gegna "eða hvort er Einar bróðir minn heima?"

Sauðamaður segir hann heima vera, gekk inn og mælti til Einars: "Guðmundur bróðir þinn er úti og vill hitta þig."

"Hvað er manna með honum?" spyr hann.

"Hann er einn saman," segir sauðamaður.

Einar mælti: "Það er honum eigi oft títt að ríða sveinalausum og skil eg eigi þetta."

Hann gekk út síðan og heilsaði Guðmundi en hann tók honum vel og mælti: "Setjumst niður bróðir og tölumst við. En svo er mál með vexti að fátt hefir verið með okkur um frændsemi og vildi eg því meir leita minnar sæmdar en gæta frændsemi við þig. Hefir þú trautt afla við mig en þú ert maður vitrari. Og ef við værum báðir að einu ráði og samhuga þá ætla eg að fátt skyldi við haldast. Nú vildi eg að betur væri með okkur. En fyrir því að þú hefir það gnægra en eg, er mest þarf við, skal eg nokkuð í millum leggja til vinganar þinnar."

Síðan tók hann upp skikkju góða og gaf honum.

Einar svarar: "Þetta er góður gripur og fer þetta nú annan veg en líklegt væri og kalla eg mínu kaupi vel keypt því að allgóður er meðalaukinn."

"Tökumst nú í hendur að guðs vitni," segir Guðmundur, "að við veitumst að öllum málum því að það er maklegast."

Og svo gerðu þeir. Síðan reið Guðmundur í brott. En Einar skipaði sauðamanni sínum að hann skyldi snemma upp rísa hvern morgun og fylgja sólu meðan hæst var sumar. Og þegar út hallaði sumar á kveldum skyldi hann halda til stjörnu og vera úti með sólsetrum og skynja alla hluti þá er honum bar fyrir augu og eyru og segja sér öll nýmæli, stór og smá. Einar var sjálfur árvakur og ósvefnugur. Gekk hann út oft um nætur að sjá himintungl og hugði að vandlega. Kunni hann alls þess góð skil.

Það var einn morgun að sauðamaður hafði út gengið. Og er hann litaðist um sá hann reið tuttugu manna ofan með Eyjafjarðará. Þeir riðu hvatlega. Hann gekk inn til rúms Einars og sagði honum hvað hann hafði séð. Einar stóð upp þegar og gekk út, hugði að reið mannanna og starði á um hríð. Einar var skyggn maður, heyrður vel og glöggþekkinn.

En er sólin rann upp og skein um héraðið þá mælti Einar: "Með skjöldu ríða þessir menn og mun það annaðhvort að þeir eru utanhéraðsmenn, þeir er virðing er að, og munu hafa farið að sækja heim Guðmund bróður minn þó að vér höfum það eigi spurt eða að öðrum kosti mun þar ríða Guðmundur sjálfur og þykir mér það miklu líkara. En eigi mun örvænt hvert hann stefnir eða hvert erindið mun vera. En skammt mun til áður vér munum þess vísir verða."

Einar bað að húskarlar skyldu gefa geymdir að er hann riði aftur "og látið hesta vora vera nær túni."

Einar gekk inn aftur til rekkju sinnar og lagðist niður.

En um daginn um nónskeið riðu þeir Guðmundur aftur. Einar reið á móti bróður sínum og kvöddust þeir vel.

Þá mælti Einar: "Hvert hafið þér farið eða hvað er að erindum?"

Guðmundur svarar: "Eg reið nú út til Hörgárdals og stefndi eg mannníðingnum Akra-Þóri fyrir brotttekju fjár Helga Arnsteinssonar. Hefir hann sök á hverjum manni og vélar lengi haft og saman dregið of fjár."

Segir Guðmundur honum þá innilega frá kaupinu og hvar þá var komið er Helgi fór í brott: "Vil eg nú bróðir hafa liðsinni þitt til þeirra mála svo sem við höfum áður mælt."

Einar svarar fá og reið hann heim aftur að annarri stundu. Varð eigi stórum af kveðjum með þeim að skilnaði.

Þegar eftir stefnu þessa reið Þórir Akraskeggur á fund Þóris Helgasonar og sagði honum hvað títt var og bað hann liðs "því að eg em í þingreið með þér."

Þórir svarar: "Leitt er mér að fást í með þér en veita mun eg þér."

Setti hann þá átölum við hann um þæfni sína og ranglæti.

Þórir Akraskeggur segir: "Eg mun gefa þér vingjafar ef þú leggur hlut þinn við þetta."

Litlu síðar reið Þórir Helgason til Þverár á fund Einars og mælti: "Nú em eg hér kominn að sækja lið þitt Einar sem við höfum rætt."

Hann svarar: "Svo má vera. Stilltir erum við nokkuð. En hitta má eg Guðmund og leita um sættir og mun eg fara til þings áður en alls er fótum undan mér skotið. En grunur er mér á að hann vilji eigi annað en fram fari sektir."

Síðan reið hann á fund Guðmundar og kvöddust þeir bræður vel.

Síðan mælti Einar: "Þórir Helgason býður gerð sína á þessu máli og veit eg bróðir að þér mun þykja mart til þess fundið, fyrst fastmæli okkur og frændsemi."

Guðmundur svarar: "Eigi ann eg þess Akraskegg að fara sektalausum af þessu máli. Og eigi ann eg öðrum manni hér um að dæma en mér."

Einar mælti: "Þá mun enn velta til vanans að þú munt engan meta nema þig einan í þessu máli og kann vera að skammt taki frá borði."

Guðmundur mælti: "Engi vorkunn þykir mér það þér að þú leggir hlut þinn við mál okkur Akraskeggs. Er hann og ekki bundinn í vináttu við þig en hann er flestum mönnum óþekkur og engi héraðsbót að honum."

Skildust þeir þá að svo búnu.

En er menn komu á Vöðlaþing var Guðmundur allfjölmennur. Þórir Helgason var og fjölmennur en Einar var eigi til þings kominn. Var nú leitað um sættir en Guðmundur kvað eigi það þurfa að leita um sættir "og vil eg eigi annað en Akra-Þórir sé ger sekur."

Þórir Akraskeggur svarar: "Viltu Guðmundur að þið Þórir Helgason gerið um málið?"

Guðmundur svarar: "Eigi ætla eg að við verðum samdóma um málin. En mér virðist þú maklegur þess að láta þitt fyrir þung svik við oss."

Akra-Þórir hitti nú nafna sinn og spurði hvort þar mundi staðar nema er nú var komið að hann mundi eigi á líta með sér, "er hér til lítils að slægjast og sjá er þú ert. Ávallt fer það einn veg að þú lætur hlut þinn fyrir Guðmundi."

Þórir svarar: "Mikill ríkismunur er með okkur Guðmundi. Þó má hann mér mart illt þola."

Akraskeggur kvað þá mjög undir fótum troðna "og væri betur að menn töluðu við Guðmund með varygð heldur en láta sæmd sína."

Og er að dómum kom vildi Þórir Helgason eigi af láta að verja málið og kom málið í dóm. Þá gekk að Þórir Akraskeggur og bauð sættir að nýju og kvað sæst á slík mál.

Guðmundur kvaðst engi gjöld vilja "en eigi máttir þú Þórir Helgason mjög aftur halda ójafnaðinum. Mátti enn svo vera að þú sætir hlutlaus hjá."

Varð Þórir Akraskeggur nú sekur og þótti mönnum fast fylgt málinu. Grunuðu margir að annað mundi meira búa undir fjandskapinum en þá var bert gert. Þeir sjá nú hvar komið var og fóru norður í Húsavík um þingið með mikið lausafé en lönd stóðu eftir og of kvikfjár á skuldastöðum. Fór Þórir Akraskeggur utan og er hann úr sögunni.

Guðmundur hinn ríki frétti það og vissi að afarfé mikið var eftir er Akraskeggur átti. Féránsdóm átti Þórir Helgason að nefna eftir þingmann sinn en Guðmundur átti að sækja og svo gerði hann. Og var þeim til boðið er heimtur áttu að Akra-Þóri og var þangað boðað öllu fé sem féránsdómur átti að vera. Guðmundur var fjölmennur og var engi mannafli á móti. Guðmundur háði féránsdóm eftir Akra-Þóri en síðan lét hann safna kvikfé hans öllu og fékk menn til að reka það í brott. En er féið var rekið með túngarðinum hlupu geldingarnir inn yfir garðinn í tún. Sauðamaður Guðmundar sótti eftir og elti sauðina eftir túninu og út að garðinum. Þar stóð sauðahús. Sauðamaður hljóp fyrir dyrnar og sá að nær þrír tigir hafra voru inni í húsinu.

Þá mælti sauðamaður: "Mörgu ræður þú nú fénu Guðmundur."

Hann svarar: "Fédrjúgir verða þeir þingmenn Þóris."

Sauðamaður svarar: "Svo væri ef þú hefðir gersamlega allt féið."

Guðmundur mælti: "Hvað skortir?"

Sauðamaður svarar: "Eigi mikið en séð hefir verið eftir minna" og segir honum nú til hafranna.

Guðmundur mælti: "Verða má þér þetta að gæfu og mundi eg svo helst kjósa að Þórir gerði skóggangssök á hönd sér."

Guðmundur reið á fund Þóris og kvaðst eigi vilja stelast að honum.

Þá leit Guðmundur til og mælti: "Hús stendur þar úti við garðinn og mun maðurinn satt sagt hafa. Rýkur þar af upp og mun þar fé inni."

Var nú til farið og hlupu þar út þrjátíu hafrar, allir nýmarkaðir og fært til marks Þóris Helgasonar. Síðan reið Guðmundur aftur til Þóris og spyr hverju gegndi er þar var fé inni markað.

Þórir svarar: "Akra-Þórir gaf mér hafra þessa á vori til liðs sér er þú hafðir stefnt honum en nú var markað fyrir féránsdóma og á eg hafrana."

Guðmundur svarar: "Mundi sú gjöf nokkuð lögleg meðan sakar voru hafðar á hendur honum? Þú vissir að féið var allt dæmt."

Síðan nefndi Guðmundur sér votta og stefndi Þóri Helgasyni um fé það er hann hafði markað og villt heimildir á, er Akra-Þórir hafði átt, síðan sök var hafin á hendur honum og telur hann eiga verða sekjan fjörbaugsmann og stefndi því máli til alþingis.

Þórir svarar: "Eigi kanntu nú hófi þínu um áganginn."

Guðmundur kvað þetta upphafið mega heita "og er seint mann að reyna. Eg hugði að þú mundir hlutvandur maður vera."

Þórir svarar: "Geystur ferð þú nú."

Fé þetta var stórlega mikið er Guðmundur fékk og tók Einar Konálsson við.

18. kafli

Guðmundur var nú heima á Möðruvöllum.

Og er þetta spyr Einar Eyjólfsson þá mælti hann: "Svo mæli eg um að tröll hafi þá skikkju. En komið hefir Guðmundur á vitsmuni við mig og hefir slíkt eigi fyrr orðið."

Síðan reið Þórir Helgason til Þverár og sagði Einari hvar þá var komið málum þeirra Guðmundar og bað hann ásjá og taldi til fornrar vináttu.

Einar svarar: "Það ætla eg að Guðmundur hyggi að reka þess fjandskapar við þig er honum er sagt frá orðum þínum, meira en honum gangi siðvendi til við héraðsbyggð þó að Akra-Þórir næði eigi að sitja hjá mönnum í byggð fyrir honum. Hefir þú mart satt í þínu máli. Og vera kann að Guðmundi þyki eg eigi torsóttlegur eftir ef hann kvistar af mér slíka vinina sem þú ert eða aðra þvílíka. Ætla eg það sannast að eg skal aldrei bregða okkarri vináttu meðan þú vilt halda."

Síðan reið Þórir heim en Einar fór á fund Guðmundar og hafði skikkjuna með sér.

Þá mælti hann: "Eg vil bjóðast til þess frændi að sætta ykkur Þóri og mæla til vinmæla í milli ykkar. Og munu menn það mæla að þínu máli sé framar komið þó að á þetta sé sæst."

Guðmundur svarar: "Eg mun nú hafa vilja liðveislu þá til mála okkarra Þóris sem þú hefir áður heitið mér að guðs vitni. Væri það þó hin mesta óhæfa að verða mér ekki að liði og fulltingi þótt frændsemi eina væri til að telja en nú er það ógeranda með því að þú hefir því áður til guðs skotið og þegið af mér dýrgrip."

Einar mælti: "Ærnir eru skyldleikar í milli okkar en eigi varðveitir þú þá betur en svo að þú þykist nú hafa komist á spektarmun við mig. En eg kalla þetta vélar og læt eg að brugðið sé öllu ummæli okkru því að þú hefir mig að viðsjámanni um mál þessi en til einskis trúnaðar. Skilur og eigi svo mikið visku okkra að eigi sjái eg þau ráð er þú gerir. Tak nú við skikkju þinni aftur er þér hafa lengi áður augu til staðið."

Kastaði Einar þá skikkjunni til hans.

Guðmundur mælti: "Eigi mun eg við henni taka. Selt hefi eg hana og fullu verði. Haf þú nú allt saman, skikkjuna og andvirðið, og get eg að svo búist þú um að þér verði að bæði heimska og klækiskapur. Nú mun eg eigi kaupa af þér vandraun né frelsi og ertu maklegur þess að sitja í nokkuru vandkvæði."

Einar mælti: "Er nú jafn mjúklega mælt og þá er þú komst á fund minn með skikkjuna? Væri það víst góður gripur ef eigi hefðu vélar undir búið."

Guðmundur mælti: "Kasta þú niður skikkjunni ef þú vilt. Fyrr skal hún fúna en neinn taki hana upp."

Einar reið heim með skikkjuna og skildu þeir bræður að því.

19. kafli

Það er sagt frá þeim bræðrum þá er þeir voru ungir að Guðmundur átti sér fóstra sköllóttan og unni hann honum mikið. Og einn dag er hann svaf úti í sólskini settist mý mart á skalla honum en Guðmundur rakaði á brott með hendi sinni og þótti honum sem fóstra sínum mundi mein að verða.

Einar mælti: "Högg þú til öxi þinni vinur í skalla karlinum."

Hann gerði svo að hann tók öxina og nartaði í skallann svo að skallinn blæddi en mýið hófst upp.

Þá vaknaði karlinn og mælti: "Erfitt er nú Guðmundur er þú vinnur á mér."

Hann svarar: "Nú finn eg í fyrsta sinni að ráðin Einars eru eigi af heilu við mig. Má og vera að að því komi oftar."

Og heldur eldist þeim hér langur óþokki af bræðrum.

Einar fann nú Þóri og segir honum frá viðskiptum þeirra Guðmundar, kveðst nú vant við kominn fyrir frændsemis sakar og svo fyrir gerðar sakar.

Síðan riðu menn til þings allfjölmennir og var nú um sættir leitað. Þórir kvaðst ætla að hann mundi seint bætur fram leggja fyrir þetta mál en Guðmundur lét sér og ekki annað betur falla en sekt hans. Var Guðmundur miklu fjölmennari.

Eitt sinn á þinginu spurði Einar Þóri hverja meðferð hann ætlaði að hafa "eða hví ætlar þú að Guðmundur þingi svo fast um þetta? Kann vera að honum þyki þér framarlega talað hafa?"

Þórir mælti: "Eigi hefi eg varorður verið við Guðmund sem margir aðrir. En auðsætt er nú að hann ætlar að vér munum engi föng í móti hafa."

Einar mælti: "Hvað berst þú fyrir?"

Þórir mælti: "Það er ætlan mín þá er vér komum til Lögbergis að eg vil bjóða honum hólmgöngu og mætti þá mýkjast ofsi hans."

Einar svarar: "Það er erindi gott en eigi lítilmannlegt."

Það var venja þeirra bræðra, Guðmundar og Einars, þá er þeir voru á alþingi að þeir gengu til tíða báðir saman og sátu sunnan undir kirkju. Stóð flokkur Einars vestur frá þeim en Guðmundar flokkur austur frá og var svo jafnan hvort er var í millum þeirra mart eða fátt. Þórir Helgason sat næst Einari en næst Guðmundi sat Vigfús Víga-Glúmsson og voru nokkurir félagar hans á þingi. Margir menn leituðu um sættir með þeim Guðmundi og Þóri og gerði það ekki því að Guðmundur vildi eigi annað en sjálfdæmi sitt en Þórir vildi eigi fé bjóða.

Einn dag að Lögbergi þá er menn höfðu lokið þar lögskilum þá spurði Þórir Helgason hvort Guðmundur væri að Lögbergi. Hann kvaðst þar vera.

Þá mælti Þórir: "Vinir vorir margir og göfgir menn hafa lagt sig til þess að ganga í milli um málaferli okkur og veita þeir mér ámæli fyrir það að eg vildi eigi fé bjóða fyrir sakar þær er þú hefir á hendur mér. Skal nú eigi svo lengur fram fara. Vil eg nú bjóða þér því betur sem eg hefi lengur frestað, það eru handsöl mín og gerð Einars bróður þíns."

Guðmundur svarar: "Engum manni ann eg að gera um þessi mál nema sjálfum mér. Ætla eg nú að þú skulir vita að þér Hörgdælar hafið lengi haft tvímæli á hvor okkar væri ríkari."

Þá mælti Þórir hátt: "Eigi mun eg enn láta þrjóta boðin við þig Guðmundur því að eg veit að þér þykir annað miklu stórlegar við mig en um haframerkingina Þóris Akraskeggs því að eg veit að þú kennir mér það einum er margir mæla, og eru þó eigi aðrir minna af valdir, að eg hafi mælt raglega við þig. Vil eg það nú reyna hvort þetta er sannmæli eða eigi því að eg vil skora á þig til hólmgöngu að þú komir á þriggja nátta fresti í hólm þann er liggur hér í Öxará er menn hafa áður vanir verið á hólm að ganga og berjumst þar tveir svo sem forn lög liggja til. Ætla eg áður en þeim fundi lúki að færast skal af tvímælið hvort sannara er að þú sért maður snjallur og vel hugaður eða sé hinn veg, sem vér höfum áður orðum til komið og allmargir hafa sagt fyrir oss, að þú sért eigi snjallur."

Varð þá mikið óp að Lögbergi að orðum hans. En óhappalaust skildu menn þar þá um sinn.

20. kafli

Þeir bræður, Guðmundur og Einar, gengu það kveld til aftansöngs svo sem þeir voru vanir og var Guðmundur allkátur.

En eftir um nóttina þá er heldur tók að morgna vaknaði Vigfús Víga-Glúmsson og mælti til Guðmundar: "Lítt sefur þú í nótt Guðmundur. Hyggur þú eigi gott til hólmgöngunnar við Þóri eða hvern veg ætlar þú að fara með málum þínum?"

Guðmundur svarar: "Smátt bregður slíkt svefni fyrir mér. En ráðið hefi eg skjótan úrskurð um þetta mál okkart Þóris því að hann bauð mér það er eg átti honum að bjóða. Ætla eg að hamingja og góð málaefni munu skipta með okkur hólmgöngunni. Hygg eg að mál mun vera að færa af hendi illmælið."

Vigfús mælti: "Nú mun eg því við bregða er eg hefi eigi fyrr náð við þig að tala Guðmundur að eg mun vera maður miklu vitrari en þú fyrir því að eg sé að þú ert verr en dáðlaus. En eg kann þér gott ráð hér til, það er virðing þín megi af vaxa en þú verður þó í engri mannhættu. Muntu eigi þurfa neinu til að kosta en hafa þó af málum það er þú vilt."

Guðmundur leit við honum og mælti: "Nú er enn komin gautan þín eða hvað þykist þú kunna að sjá í þessu máli er eg sé eigi?"

Vigfús svarar: "Eg mun ganga til Lögbergis í dag. Síðan mun eg skora til hólmgöngu Einar bróður þinn að hann berjist nú við mig í dag. Skal eg veita formæli þar að miklu freklegar en við þig var mælt ef Einar vill eigi berjast við mig. Skortir þar eigi nógar sakar til minnar handar við hann er þess er óhefnt að Einar rak oss föður minn brott af Þverárlandi og allri mannvirðingu. Horfir Einari engum mun betur hólmgangan við mig en þér við Þóri. Nú látum hann fyrst hafa hvikunarrúmið ef svo er að hann þorir eigi á hólm að ganga. En ef hann berst við mig þá mun eg drepa hann. En höfðingjar munu leita annars ráðs en þið bræður séuð höggnir hér niður á þinginu báðir."

Guðmundur mælti: "Slíka menn getur varla til viturleiks sem þú ert þótt menn eigi margra góðra kosti."

Vigfús mælti: "Láttu nú eigi finna á þér feginleikinn því að ef Einar finnur af visku sinni að skipt er skapi þínu þá mun hann hitta bragð til að þetta ráð komi eigi upp."

Og um daginn þá er þeir gengu til tíða sátu þeir í rúmum sínum. Guðmundur var hljóður og mælti ekki orð og hafði höfuðið í feldi sínum. En þar varð lítill atburður. Barn eitt hvarflaði þar á hellunum fyrir Guðmundi og fretaði en sumir menn hlógu að þessu.

Og er þeir Einar og Þórir komu til búðar þá mælti Einar við Þóri: "Hvern veg leist þér nú á Guðmund bróður minn við kirkjuna?"

Hann mælti: "Svo sem eg vildi og þótti mér hann eigi hefja höfuðið hátt og mun hann vera því hryggvari er meir dregur að óvirðing hans þeirri er hann á fyrir höndum."

Einar mælti: "Eigi sýndist mér svo. Í gær að aftansöng þá þótti mér hann láta allglaðlega en var þó hryggur raunar en nú sýndist hann hljóður. En sástu eigi að feldarröggvarnar hrærðust er hann hló? Nú munu þeir hitt hafa ráð mikið er oss mun illu gegna ef fram kemur og skal eigi þess bíða. Skal nú þegar ganga á fund Guðmundar og lúka málum þar sem framast má koma."

Síðan gengu þeir Einar til búðar Guðmundar og þá mælti Einar: "Það er erindi mitt hingað sem maklegt er að eg vil sætta ykkur Þóri og hefi eg komið honum til þess að hann vill bjóða þér sjálfdæmi svo sem þú hefir áður beitt um mál ykkur öll."

Þá laut Vigfús að Guðmundi og mælti: "Nú hefir þú eigi gætt að bera af þér feginleikinn og hefir Einar fundið af spekt sinni gleði þína. En þó er nú einsætt að þiggja þenna kost er svo er vel boðið."

Margir tóku undir og fluttu þetta erindi með Einari. Síðan lét Guðmundur koma til sín höfðingja og vini sína þá er honum höfðu áður liði heitið. Varð til þess fundar allfjölmennt. Síðan handsalaði Þórir Guðmundi sjálfdæmi.

Þá mælti Guðmundur: "Eg geri á hönd Þóri hundrað silfurs. Og veit eg að það eru stinn manngjöld og kveð eg þess vert. Hann skal og sekur og vera utan þrjá vetur svo sem fjörbaugsmaður. En fyrir hvern vetur ef hann er hér á landi skal hann gjalda hundrað silfurs."

Svo komst þar orðrómur á að Guðmundur hefði haft mestan sæmdarhlut af málum þessum.

21. kafli

Það sumar fór Þórir Helgason utan í Skagafirði en bú hans stóð eftir á Laugalandi. Hann var vetur þann í Orkneyjum. En eftir um vorið kom hann út aftur til Íslands í Eyjafirði er þrjár vikur voru af sumri og reið þá heim til Laugalands og réð sér hjú. Reið hann eftir um sumarið til alþingis. Og svo var hann á Vöðlaþingi og héldu þeir Einar saman flokkum sínum. Hann var heima um sumarið að búsýslu sinni og fór utan um haustið og þá til Noregs litlu fyrir veturnætur og var þó í Orkneyjum þann vetur. En eftir um vorið fór hann til Íslands og fór hann alla sömu leið sem hið fyrra sumarið. Fór hann enn utan um haustið og var í Noregi þann hinn þriðja vetur og fékk sér húsaviðu. Stýrði hann skipi sínu aftur til Íslands og kom í Eyjafjörð. Fór hann þá heim til bús síns á Laugaland og bjó þar til elli og þótti vera skörungur mikill.

Á þessum hinum sama tíma sem nú var frá sagt höfðu margir höfðingjar liði heitið Guðmundi. Og þegar að þinglausnum dró gekk hann í búðir og þakkaði mönnum lið. Hann gekk og í búð Svínfellinga. Og er Guðmundur snýr utar að dyrunum þá sá hann að maður gekk í búðina og bar inn bagga og söðulreiði.

Guðmundur leit við honum og snýr að Vigfúsi Víga-Glúmssyni og mælti: "Hefir þú nokkurn þann séð að síður sé nokkurs verður en þessi maður?"

Vigfús svarar: "Eigi veit eg það þegar."

Guðmundur mælti: "Eigi hefi eg séð þann mann er betur sé fallinn til flugumanns en sjá."

Hann veik að honum og mælti: "Hvað heitir þú?"

"Eg heiti Þorbjörn," segir hann, "og kallaður rindill, austfirskur að ætt."

Guðmundur mælti: "Viltu kaupa við mig nokkuru?"

Hann svarar: "Hver ert þú?"

"Eg heiti Guðmundur og em eg Eyjólfsson."

"Vel veit eg nú," kvað hann. "Eg heyri sagt að flestir farsælist af þér. En fátt hefi eg til kaupa. Eg em félítill."

Guðmundur mælti: "Mér kemur fleira en fé. Mátt þú koma norður í sumar og leita þér þar margra vista en ráð þig hvergi fyrr en þú finnur mig."

"Eg mun koma," segir hann.

Var þetta nú ráðið. Skildu menn svo af þinginu.

Og er þeir komu á Eyfirðinga leið var þar kominn Rindill og var allhjaldrjúgur við marga menn.

Þá mælti Guðmundur: "Hver er sá maður er nef hefir í eyra hverjum manni og falar sér misseravistir víða en ræður af enga?"

Hann svarar: "Eg heiti Þorbjörn eða viltu taka við mér Guðmundur?"

Hann kvaðst það gera ef hann vildi "því að vér þurfum marga vega manna."

Síðan fór hann þangað til Möðruvalla og var þar um hríð.

Einn dag mælti Guðmundur við hann: "Mun nú eigi ráð að þú takir til sýslu?"

Hann lét það vel fallið. Var honum nú fenginn ljár og sló hann.

Guðmundur mælti: "Eigi muntu þessu verki vanur vera eða þykir þér nokkuð hægra að ríða til laugar um daga?"

Hann kvað það víst enn hægra vera.

Svo fór enn fram og eitt sinn mælti Guðmundur við Rindil: "Nú er á þá leið Þorbjörn að nokkuð er á höndum. Eg vildi hafa nokkuð fyrir mitt og er enn eigi örvænna að eg geri þig tignum mönnum kunnan. Og mun það annaðhvort að þér mun verða að því gæfa eða gæfuþrot."

Þorbjörn mælti: "Þessu muntu ráða en hugað mun mér um að gæta lífs míns. Og treysta vil eg því að eg mun vera þér trúr. En ef hætta er í sendiförum og viljir þú þær fyrir mig leggja þá mun eg um njósna en í áræði em eg eigi trúr."

"Þó má vera að oss komi í hald," segir Guðmundur. "Eg mun nú leggja fyrir þig stórræði er eg berst fyrir. Maður er nefndur Þorkell og er kallaður hákur er býr norður í Ljósavatnsskarði. Hann vil eg hafa að dauðamanni. Þangað vil eg þig senda að njósna fyrir mér því að eg mun brátt eftir sækja."

Þorbjörn svarar: "Því mun eg heita þér að eg mun þér trúr að njósna slíkt er þú vilt. En eigi rétti eg hendur mínar til að vinna á Þorkatli."

Guðmundur mælti: "Eg mun setja til ráðið. Þú skalt hverfa héðan í brott en eg mun fá þér í hendur hesta tvo, magra og baksára, og þar með klyfjar á og ostar í vorskinni. Þú skalt fara Hellugnúpsskarð og svo ofan í Bárðardal. Er nú á hallæri en hvalreiðarár er mikið norður um Tjörnes. En þú ert engum mönnum jafnlíkur sem þeim er komið hafa vestan úr Hálfdanartungum og skaltu látast þaðan vera. Still þú svo til að þú komir til Þorkels í vondu veðri og lát vesallega og gakk eigi í brott. Taktu steina úr læk og lát vera jafnmarga sem menn eru fyrir og hefi eg það til marks því að eg ætla mér þangað."

Síðan fór Rindill og kom til Öxarár í drápviðri miklu.

Þorkell var úti og mælti: "Hver er sjá maðurinn eða hví komstu hér eða hvert skaltu fara eða hvar áttu heima?"

Hann svarar: "Eg heiti Þórhallur og bý eg vestur í Hálfdanartungum og fer eg til hvalkaupa. En því kom eg hér að mér þótti mál að hvílast og mun eg deyja hér undir húsagarði þínum úti ef eg má eigi inn komast. Og mun það þykja illt að vita svo mikill garpur sem þú ert."

Þorkell svarar: "Lítið er oss um ókunniga menn því að vér eigum lítt vingað við stórhöfðingjana en vitum ógjörla hvert erindi hvers í verður."

Hann svarar: "Þykir þér eg grunsamlegur vera? Enda mun eg hér niður leggjast ef þú lætur mig eigi inn."

Þorkell svarar: "Eg á sel skammt héðan og vertu þar í nótt."

Hann segir: "Eigi geng eg feti framar."

Skalf hann þá mjög.

Þorkell mælti: "Mjög vesallega lætur þú og lát sjá hestana."

Hann gerði svo; tók ofan kláfana og voru hestarnir baksárir og fóthrumir.

Þorkell mælti: "Satt muntu segja og langan veg muntu til kominn og vera kotbóndi nokkur því að þesslegur er varningur þinn og ber inn reiðinginn fretkarl."

Hann kvaðst það gjarna vilja.

Þorkell var kvongaður maður. Þorgerður hét kona hans.

Hún tók til orða: "Hvern leiðir þú eftir þér þar herjans soninn?"

Hann svarar: "Eigi sýnist mér sjá maður bráðhættlegur og eigi nenni eg að hann deyi undir görðum mínum og sé mér það í brigsli fært."

Hún svarar: "Gjörla skil eg nú að þú ert feigur. Nú lát hann orna sér og fær hann síðan til sels vors."

Rindill svarar: "Eigi mun eg fara að geipan þinni. Hlíta mun eg og því er Þorkell bauð."

Síðan var hún allæf í orðum við hann en Rindill svaraði henni illa. Tók nú að nátta.

Þá mælti Þorkell: "Sit hér hjá mér Þórhallur. Sé eg að konur hafa þungan hug til þín."

En eftir mat fór gesturinn að sofa og svo Þorkell og lá hann í lokrekkju en gesturinn þar utar frá. Konur fóru eigi í rekkju.

Þorkell spurði: "Hví ferð þú eigi í rekkju húsfreyja?"

Hún svarar: "Eg trúi verr gestinum en þú."

Þorkell svarar: "Þungt er þér til hans."

Síðan sofnaði Þorkell og hvíldi Guðrún dóttir hans hjá honum. Hún var þá fjögurra vetra. Og er myrkt var orðið reis Rindill upp og skaut frá lokum. En ekki þótti honum gagn í er konurnar voru á gangi ef þeir Guðmundur kæmu. En Þorkell hafði lokið aftur lokrekkjuna.

Húsfreyja gekk eftir gólfi utar í öndina og mælti: "Var svo þó" og lét fyrir lokurnar.

Og vaknaði Þorkell við og mælti: "Hvað er nú húsfreyja?"

"Slíkt sem grunaði að gesturinn vill svíkja þig og hefir látið frá lokur."

Rindill mælti: "Mikinn fjandskap sýnir þú við mig nær sem að gjöldum kemur."

Þorkell mælti: "Eigi mun gáð hafa verið að setja fyrir lokurnar."

Síðan sofnaði hann.

Og er stund leið þá skreiddist Rindill úr rúmi sínu og skaut frá lokum og mælti við sjálfan sig: "Enn mun Þorkell dyljast við."

Gekk hann þá í skálann og svaf Þorkell þá og þegar jafnskjótt sprettur Rindill upp og heyrði þá hundgá og að menn riðu að bænum. Hann hljóp út þegar og hafði klæði sín í fangi sér en sjálfur var hann nökkviður og fór úti í klæðin.

22. kafli

Síðan drifu menn að bænum og inn í húsin. Var þar kominn Guðmundur og þeir tuttugu saman. Og við gnýinn og vopnabrak vaknaði Þorkell og varð eigi ráðrúm til að fara í brynju sína en höggspjót tók hann í hönd sér en setti hjálm á höfuð sér. Mjólkurketill stóð í húsinu í horninu og var þröngt.

Þá mælti Guðmundur: "Það er nú ráð Þorkell að sýna sig Guðmundi og skríða eigi í hreysi."

Þorkell svaraði: "Nú skal eg víst sýna mig þér Guðmundur. Og eigi komstu fyrr en eg ætlaði. Eða hverja leið fóruð þér hingað?"

Hann svarar: "Eg fór Brynjubrekku og Hellugnúpsskarð."

Þorkell mælti: "Þú hafðir bratta leið og erfiða og trautt kann eg að ætla hversu rassinn mundi sveitast og erfitt hafa orðið í þessi ferð."

Síðan hljóp hann fram með brugðið sverð og hjó þegar til Guðmundar en hann hopaði undan. Þorkell lét sem hann sæi engan nema Guðmund í atsókninni. Menn báru vopn á Þorkel en hann varðist hraustlega og fengu menn sár af honum.

Þorsteinn hét maður og kallaður hinn rammi. Hann gekk mest í móti Þorkatli og varð hann sár mjög því að margir voru um einn. Hann var eigi að óákafari þó að iðrin lægju úti. Guðmundur hopaði undan og hrataði í mjólkurketilinn.

Það sá Þorkell og hló að og mælti: "Nú kveð eg rassinn þinn hafi áður leitað flestra lækjanna annarra en mjólkina hygg eg hann eigi fyrr drukkið hafa. Enda ráðst þú nú hingað og finnumst við ef þú þorir því að nú liggja úti iðrin mín. Þar hefir þú jafngjarn á verið er þig lysti þessa."

Síðan drápu þeir hann.

Þá mælti Guðmundur: "Vill húsfreyja tilbeina vorn að Þorkell sé jarðaður?"

Hún svaraði: "Það vil eg víst eigi og verðið á brottu sem fyrst og betra þykir mér hjá honum dauðum en hjá yður lífs."

Síðan fóru þeir á brott og hittu Einar Konálsson. Hann fagnaði Guðmundi vel og spurði tíðinda.

Guðmundur mælti: "Veginn segi eg Þorkel hák."

Einar svarar: "Eigi þarf að sökum að spyrja. Ætla eg nú að þú munt taka með fé þínu og bjóða Ljósvetningum fébætur."

Og síðan var fundur settur og kom þar Guðmundur og Einar Konálsson og þeir synir Þorgeirs, Tjörvi og Höskuldur.

Einar mælti: "Spurt munuð þér nú hafa líflát Þorkels og munu það margir kalla eigi fyrir sakleysi. En Guðmundur vill yður bætur bjóða og stinn manngjöld en ekki er þess að vænta að Guðmundur flýi land sitt. Mun hann og um kyrrt sitja."

Höskuldur sagði: "Það er nú fram komið er þér hafið lengi um setið. Og ótrúlegar munu sættir vorar verða þótt Guðmundur hafi nú ríki mikið."

Tjörvi svaraði: "Eigi er það mitt ráð að neita fébótunum."

Síðan greiddi Guðmundur fram féið og voru sáttir að kalla.

23. kafli

Rindill fór heim með Guðmundi og lét hann vel yfir honum. Ekki var hann þó þokkaður af alþýðu.

Þeir bræður í Gnúpufelli voru bundnir í tengdum við Þorkel hák. Eilífur átti Þórdísi skáldkonu. Hann var maður mikill og sterkur og bogmaður góður. Laungetinn var hann.

Brúni átti Álfdísi Koðránsdóttur og voru þær bræðrungar og Þórlaug kona Guðmundar Atladóttir. En móðir Þorkels háks var Guðríður er Þorgeir goði átti en eigi Hjalti Eiríksson og hennar móðir var dóttir Hrólfs Ingjaldssonar í Gnúpufelli. Og var frændsemi með þeim Þorkatli og þeim bræðrum í Gnúpufelli.

Hlenni hinn spaki bjó í Saurbæ. Þeir voru bræðrasynir og Þorgeir goði. Hlenni var þá blindur og gamall.

Þar kom að að menn riðu til leiðar. Guðmundur var vanur að ríða fjölmennur. Hann fór út frá garði. En þeir er ofan riðu fóru hið efra með ánni og hittust í ákveðnum stað. Menn voru þá mettir og voru rekin heim hross og kom eigi hestur Rindils. Guðmundur bað leita hestsins.

Rindill svaraði: "Það hæfir að aðrir menn leiti hests míns en eg veit hvar er og ríðið fyrir."

Guðmundur hafði virðing mikla á honum og hélt hann vel og mælti: "Far þú sem eg vil."

En engi vildi sinn hest láta fyrir honum. Þeir Guðmundur riðu fyrir en Rindill var eftir og maður einn hjá honum og fóru til matar þegar hesturinn var fundinn. Rindill hafði skyr og mataðist skjótt því að skyrið var þunnt og riðu síðan út frá garði og svo í skóginn. Þá hleyptu menn í móti þeim og var þar kominn Eilífur og maður með honum, þar varð fátt af kveðjum, og setti þegar kesjuna á Rindil miðjan en skyrið sprændi úr honum og upp á Eilíf. En förunautur Rindils sagði Guðmundi. Hann varð við óður og sneri þegar ferðinni eftir þeim en fékk mann til að helga leið.

Þeir Brúni urðu varir við og sneru aftur en þeir Eilífur sneru í Saurbæ. Hlenni var úti og bjó ferð húskarls síns en hann skyldi fara í Seljadal með kálfa.

Þeir sögðu honum hvað þeir höfðu gert og biðja hann ásjá "því að Guðmundur vill hafa líf okkart og ríða hér eftir."

Hlenni svarar: "Hvað er til saka Eilífur eða hefir þú skotið Rindil?"

"Já," segir hann, "og hefir Guðmundur því reiðst."

Hlenni mælti: "Lítill mannskaði en eg má lítið traust veita en þó gangið þið inn og verjist innan."

Og svo gerðu þeir.

Síðan komu þeir Guðmundur í túnið og kvöddust þeir Guðmundur og Hlenni.

Guðmundur mælti: "Eru þeir hér ódáðamennirnir hjá þér Hlenni, Eilífur og förunautur hans?"

"Hér eru þeir," segir hann, "og þykir mér engi harmsaga þótt Rindill sé dauður."

Guðmundur mælti: "Ger þú annaðhvort að þú sel þá fram ella munum vér brenna upp bæinn. Engum skal hlýða að drepa heimamenn mína."

Hlenni svaraði: "Vera má það að nú megir þú gera slíkt sem þú vilt en verið mundi það hafa fyrr meir að fjölrætt mundi í héraðinu ef þú gerðir mér óvirðing. En þann veg er mér um gefið að betra þykir mér að þeir séu eigi fyrir augum mér drepnir nú og vil eg senda þá í Eyrarskóg."

Guðmundur segir: "Viltu því heita að þeir komi þar? Þá mun eg þann kost taka því að jafnt þykir mér heit þín sem handsöl annarra manna."

Síðan gekk Hlenni inn og mælti: "Nú er Guðmundur hér kominn og vill hafa líf þitt en eg hefi enga mótstöðu."

Eilífur svarar: "Slíks er að von og skal eg út ganga."

Þá mælti Hlenni: "Þú skalt eigi hvata að því. En lítið mun verða undanbragð. Nú skuluð þið fara yfir í Eyrarskóg með þeim hætti að í sínu hripi skal vera hvor ykkar og bera á ykkur gras en þá skal liggja kálfur á hvorum ykkrum. En þó má vera að Guðmundur sjái eigi þetta undanbragð fyrir reiði sakar. En ef þig ber skjótt fram hjá þá kipp þú þegar knappinum úr hripsgrindinni. Enn mun auðna ráða."

Og er hann kom yfir á og í skóginn þá drifu þeir Guðmundur í móti þeim.

Þá mælti Guðmundur: "Hví eru þeir Eilífur svo seinir?"

Hann svarar: "Eg ætla að þeim þyki eigi til öls boðið en þó voru þeir búnir er eg fór."

Og er hann kom fram hjá þeim þá hljóp hann þegar aftur hjá hestinum og hleypti þeim niður úr hripunum en þeir hlupu þegar í skóginn og til Gnúpufells.

Þá mælti Guðmundur: "Nú erum vér villtir. Þeir hafa verið í hripunum. Og sé eg nú eftir hversu hesturinn sté fast að grjótinu er hófarnir lögðust fyrir. Nú mun Hlenni eigi þykjast logið hafa og er hann vitur maður. Enda snúum nú eftir þeim."

Síðan komu þeir í Gnúpufell og gengu að dyrum. En hurðir voru aftur og stóð Eilífur fyrir innan hurð með skeyti sín.

Þá mælti Guðmundur: "Sel þú fram, Brúni, Eilíf ódáðamanninn ella munum vér leggja eld að bænum."

Hann svarar: "Þá skal hart eftir ganga og kynlegt er að þér sýnist að hafa stórvirki á vorum frændum og leita eftir svo frekt um menn slíka er einskis eru verðir."

Guðmundur mælti að eldinn skyldi að bera. Þá var svo gert.

Þá gekk kona til hurðarinnar og mælti: "Má Guðmundur heyra mál mitt?"

Hann kveðst heyra "eða er Þórlaug þar? Og er einsætt að ganga út."

Hún svarar: "Eigi mun eg skilja við Álfdísi frændkonu mína en hún mun eigi skilja við Brúna."

"Ef þú vilt kjósa heldur að deyja við skömm hér en lifa með mér með sæmd og virðingu þá skal þó verkið eigi fyrir farast."

Þá gekk maður í dyrnar ungur og mælti: "Hvort má Guðmundur heyra mál mitt?"

Hann kvaðst heyra "eða er Halldór þar sonur minn?"

Hann kvað svo vera.

Guðmundur mælti: "Gakk þú út frændi."

Hann svarar: "Eigi þarftu þess mig að eggja því að þér skal engi verri en eg ef móðir mín brennur hér inni."

Síðan áttu menn hlut að við Guðmund að hann gerði eigi svo mikla óhæfu. Og svo varð að hann lét teljast og fór í brottu. Síðan varð aldrei vel með þeim. Guðmundur sat yfir metorðum mestum í héraðinu.

24. kafli

Það barst að eitt sinn að Guðmund dreymdi draum mikinn.

Síðan fór hann á fund Drauma-Finna norður í Kaldakinn undir Fell og mælti: "Draum vil eg segja þér er fyrir mig bar."

Hann svarar: "Óþökk er mér á öllum komum þínum fyrir sakar harma vorra."

Guðmundur mælti: "Engi kemur grimmd til þessa og þigg að mér fingurgull."

Hann tók við og mælti: "Hvað dreymdi þig?"

Hann svaraði: "Eg þóttist ríða norður um Ljósavatnsskarð og er eg kom gagnvert bænum að Öxará þá sýndist mér höfuð Þorkels háks á aðra hönd hjá mér þá er að bænum vissi. Og er eg reið norðan sat höfuðið á annarri öxl mér þeirri er þá horfði við bænum. Nú stendur mér ótti af þessu."

Finni mælti: "Sjá þykist eg fyrirburð þenna. Það hygg eg að hvert sinn er þú ríður norður og norðan komi þér í hug víg Þorkels háks en frændur hans sitja hér í hverju húsi og mun þér ótti af því standa. En því skiptist það á öxlum þér að svo ber bæinn við. Og ekki kemur mér það á óvart að nær stýrt verði nokkurum þínum frændum."

Síðan reið Guðmundur á brott og norður í sveitir til þingmanna sinna og gisti á Tjörnesi og var honum skipað í öndvegi en innar frá honum var skipað Ófeigi Járngerðarsyni.

Og er borðin komu fram þá setti Ófeigur hnefann á borðið og mælti: "Hversu mikill þykir þér hnefi sjá Guðmundur?"

Hann mælti: "Víst mikill."

Ófeigur mælti: "Það muntu ætla að afl muni í vera?"

Guðmundur mælti: "Eg ætla það víst."

Ófeigur segir: "Mikið muntu ætla að högg verði af?"

Guðmundur segir: "Stórum mikið."

Ófeigur segir: "Það muntu ætla að saka muni?"

Guðmundur mælti: "Beinbrot eða bani."

Ófeigur svarar: "Hversu mundi þér sá dauðdagi þykja?"

Guðmundur mælti: "Stórillur og eigi mundi eg vilja þann fá."

Ófeigur mælti: "Sittu þá eigi í rúmi mínu."

Guðmundur segir: "Það skal og vera," og settist öðrum megin.

Það fannst á að Ófeigur vildi þar mest vera metinn en skipaði áður öndvegið en sveifst einskis sjálfur þess er honum í hug kom.

Kona hét Þórhildur og kölluð Vaðlaekkja og bjó að Naustum. Hún var forn í lund og vinur Guðmundar mikill.

Guðmundur fór á fund hennar og mælti: "Forvitni er mér á því mikil hvort nokkur mannhefnd mun fram koma fyrir Þorkel hák."

Hún svarar: "Kom þú í öðru sinni að hitta mig eina saman."

Síðan liðu stundir. Og einn morgun reið Guðmundur heiman snemma einn saman til Vaðla og var Þórhildur úti og gyrð í brækur og hafði hjálm á höfði og öx í hendi.

Síðan mælti hún: "Far þú nú með mér Guðmundur."

Hún fór ofan til fjarðarins og gerðist heldur þrýstileg. Hún óð út á vaðlana og hjó hún fram öxinni á sjóinn og þótti Guðmundi það enga skipan taka.

Síðan kom hún aftur og mælti: "Eigi ætla eg að menn verði til að slá í mannhefndir við þig og muntu sitja mega í sæmd þinni."

Guðmundur mælti: "Nú vildi eg að þú vissir hvort synir mínir munu undan komast."

Hún segir: "Nú gerir þú mér meira fyrir."

Síðan óð hún út á vaðlana og hjó hún í sjóinn og varð af brestur mikill og blóðigur allur sjórinn.

Síðan mælti hún: "Það ætla eg Guðmundur að nær stýrt verði einhverjum syni þínum. Og mun eg þó nú eigi oftar þraut til gera því að engan veg kostar mig það lítið og munu hvorki tjóa við ógnir né blíðmæli."

Guðmundur mælti: "Eigi mun eg þessa þraut oftar fyrir þig leggja."

Síðan fór Guðmundur heim og sat í virðingu sinni.

Og er leið á ævi hans þá er þess getið að maður hét Þórhallur, góður bóndi. Hann bjó þar í Eyjafirði. Hann dreymdi draum og fór norður á fund Finna. Hann var í dyrum úti.

Þórhallur mælti: "Draum vildi eg að þú réðir Finni þann er mig hefir dreymt."

Finni mælti: "Far þú í brott sem skjótast og vil eg eigi heyra draum þinn" og rak aftur hurðina og mælti: "Far þú og seg Guðmundi á Möðruvöllum ellegar skal þig með vopnum brott reka."

Síðan fór hann í brott og á Möðruvöllu. En Guðmundur var riðinn um daginn út eftir héraði og var heim von um kveldið. Einar bróðir hans lagðist niður og sofnaði. Hann dreymdi það að oxi gengi upp eftir héraðinu, skrautlegur og hyrndur mjög, og kom á Möðruvöllu og gekk til hvers húss er var á bænum og síðast til öndvegis og féll þar niður dauður.

Síðan mælti Einar: "Slíkt mun fyrir miklum tíðindum og eru þetta mannafylgjur."

Þá kom Guðmundur heim og var það siður hans að koma til hvers húss er var á bænum og er hann gekk til öndvegis þá lagðist hann upp og talaði við Þórhall. Sagði hann Guðmundi draum sinn og eftir það réttist Guðmundur upp og var þá fram kominn matur. Mjólk var heit og voru í steinar.

Þá mælti Guðmundur: "Eigi er heitt."

Þórlaug mælti: "Kynlega er þá" og heitti steinana aftur.

Síðan drakk Guðmundur og mælti: "Eigi er heitt."

Þórlaug mælti: "Eigi veit eg nú Guðmundur hvar til kemur heitfengi þitt."

Og enn drakk hann og mælti: "Ekki er heitt."

Þá hneig hann á bak aftur og var þegar andaður.

Þá mælti Þórlaug: "Mikil tíðindi og munu víða spyrjast. En engi maður skal taka á honum. Grunað hefir Einar oft eftir minni tíðindi."

Síðan kom Einar þar og veitti honum nábjargir og umbúnað.

Einar mælti: "Eigi hefir draumur þinn Þórhallur lítinn kraft. Og það hefir Finni séð á þér að sá væri feigur er þú segðir drauminn og þess unni hann Guðmundi. Og kaldur hefir hann nú verið innan er hann kenndi sín eigi."

25. kafli

Síðan tóku synir Guðmundar hins ríka fé eftir hann, Eyjólfur og Koðrán. Var Koðrán manna vænstur, efnilegur og vinsæll. Hann óx upp með Hlenna. Halldór Guðmundarson var þá utan farinn. Hann féll í Brjánsorustu. Eyjólfur vildi einn hafa föðurleifð sína og unni eigi jafnaðar bróður sínum. Eyjólfur var vænn maður og mikill.

En er Koðrán var fullkominn að aldri beiddist hann fjárskiptis við Eyjólf en hann svaraði: "Eigi vil eg hafa tvíbýli á Möðruvöllum og eigi rísa upp fyrir þér."

Síðan hitti Koðrán Hlenna fóstra sinn og sagði honum svo búið "og mun eigi sannleg vörnin ef eg skal rænast arfinum?"

Hlenni svarar: "Eigi kemur mér óvart ofsinn Eyjólfs en eigi ræð eg að þú dæmir þig sjálfur af arfinum heldur ger þú hús út frá garði á Möðruvöllum."

Og það var ráð haft.

En það ráð samdist svo síðan að Koðrán bjó í Möðrufelli. Einar Arnórsson bjó þá að Hrafnagili, vitur maður, göfugur og ættstór. Eyjólfur var ríkastur maður fyrir norðan land.

Þorvarður Höskuldsson Þorgeirssonar bjó þá að Fornastöðum í Fnjóskadal. Hann var fyrir þeim Ljósvetningum. Hann var vitur maður og stilltur vel og nokkuð aldraður. Eyjólfur sendi menn á fund hans og bauð honum heim til sín og þann kost tók hann.

Eyjólfur tók vel við honum og mælti: "Undir þínum þokka þykir mér mest af þínum frændum og þótt fátt hafi verið um með oss af hinum fyrrum atburðum þá vil eg nú vingast við þig og skalt þú þiggja að mér stóðhest. Þessi er hér bestur í héraðinu."

Þorvarður svarar: "Þiggja mun eg hestinn og haf þökk fyrir og hlýða mun okkur ef eigi spilla aðrir menn um."

Hann fór heim síðan.

Höskuldur hét sonur Þorvarðs. Hann var mikill maður og sterkur og uppvöðslumaður mikill.

Þorkell hét maður. Hann bjó að Veisu. Hann var Hallgilsson. Móðir hans hét Solveig Þórðardóttir. Þórður var bróðir Þorgeirs að Ljósavatni. Með honum var að uppfæðslu Höskuldur Þorvarðsson.

Gunnsteinn hét maður er bjó að Ljósavatni Þórðarson. Brandur hét son hans. Hann var jafnaldri Höskulds og voru báðir með Þorkatli og áttu mikið lag við Þveræinga.

Þorvarður Höskuldsson var maður óafskiptinn um málaferli. Hann bauð nær jafnaði enda gekk eigi af því. Þeir fóstbræður voru skaplíkir og urðu híbýlin skærusöm. En fátt var með þeim frændum, Þorvarði og Höskuldi, því að þeir voru óskaplíkir frændur í sumum háttum.

Maður hét Ísólfur og bjó norður á Tjörnesi. Þingmaður var hann Eyjólfs Guðmundarsonar. Friðgerður hét dóttir hans. Hún var kona væn, ættgóð og sköruleg, sýslumaður mikill. Grímseyingur einn, ungur og frálegur, gerðist til og slóst á tal við hana.

En föður hennar gast eigi að því, hitti hana og mælti: "Eigi er mér um vistir þínar hér lengur til þess að í því aukist vor ósæmd. Nú sendi eg þig til Eyjólfs vinar míns og mun hann vel við þig gera."

Hún svarar: "Það er vænlegt ráð."

Síðan fór hún og maður með henni. Og er þau komu á Fornastaði til Þorvarðs gerði veðráttu illa.

Þá mælti Þorvarður: "Aldrei þykir mér óvænna að snúa norður aftur."

Hún svarar: "Þann veg er mér um farið síðan eg fór norðan að eigi komi eg þar svo búið. Þorsteinn heitir maður og er kallaður drafli. Hann býr á Draflastöðum. Hann er nú norður og mun eg vera þar meðan óveðráttan batnar eigi."

Þorvarður svarar: "Eg hefi nú og um rætt slíkt er mér sýnist. En eigi kemur mér óvart að þessu sé misráðið."

Síðan fór hún ofan í dalinn og á Draflastaði og var vel við henni tekið. Þetta fréttist brátt. Veisusynir spurðu og þetta og sóttu þangað leika og bar saman tal þeirra fóstbræðra og Friðgerðar og fór hún þangað og var þar.

Þess er getið að skip kom út í þetta mund norður og það ætlaði að fara tvívegis. Þeir fóstbræður fóru til skips og könnuðust við kaupmenn.

Þá mælti Höskuldur: "Það höfum við ætlað félagar að fá yður tveim mönnum fleira en áður."

Stýrimaður svarar: "Er eigi það þá ráð Höskuldur?"

Hann svarar: "Það er í ætlan ef kostur er."

Stýrimaður svarar: "Þess skal víst kostur."

Þeir tóku sér fari og fóru síðan heim.

Og er þeir voru mjög búnir þá heimtu þeir Þorkel á tal.

Þá mælti Höskuldur: "Við fóstbræður ætlum utan að fara en við viljum fá þér í hendur sókn og vörn mála þeirra er okkur snerta og höfum þar votta við."

Þorkell svarar: "Fátt hefi eg í móti ykkur látið en varla sýnist mér þetta vandalaust og kann mart til þess að bera. En þó skuluð þið þessu ráða."

Gekk þetta nú fram. Þeir fóru utan og voru vel virðir.

En Friðgerður var eftir og þótti vera kona sæmileg og allmikill gleðimaður og samdi sig mjög í háttum með ungum mönnum og var verkmaður mikill og umsýslumaður.

Hún kom eitt sinn að máli við Þorkel.

"Svo er sem þú veist," segir hún, "að eg hefi haft umönnun hér og verknað en nú fellur mér það allt þyngra því að vöxtur minn er í þrútnan og þyngist heldur gangan. Eg hefi eigi þurft annarra hér til en nú þykir mér þess ráðs þurfa er svo ber til. Eg em nú kona eigi heil."

Þorkell svarar: "Hver veldur því?"

Hún kvað Brand valda því.

Þorkell svarar: "Þó hefir hann þetta óvinlega gert og sagt mér ekki til. Er mér þetta vandséð mál. Hefir hér verið gleðivist mikil en þú kona eigi fálynd. Og veit eg ekki hvort hann veldur þessu eða aðrir hleypimenn þó að eigi séu jafnríflegir sem Brandur. Og þykir mér þeim ólið veitt fóstbræðrum ef þá skal sanna gera að þessu."

Hún fékk af þessu mikla ógleði og fór til föður síns. Honum eyddist skjótt fé. Og kvað hún sína ferð óþekkilega orðið hafa sem von var að.

Hann svarar: "Eigi hefir vel orðið enda var eigi góðu ráði til að bregða."

Ísólfur gerði ferð sína á fund Þorkels og vissi hann gjörla að hann var kominn þar til reitingar en eigi til bótar.

Hann brá Þorkatli þegar á tal og mælti: "Það er undir för minni að eg vildi að þú greiddir málið Friðgerðar og sómir yður það vel að eigi standi hér illt af sem von er að hermingar muni vera. Mæli eg til þess að hún sé með þér og mun eg leggja fé fyrir hana. En sættast ætla eg á málið og vera hægur í biðum og mun eg eigi mæla til framar en að vér séum eigi ræntir sannindum."

Þorkell svarar: "Saklaus em eg um þetta mál. Er dóttir þín kona eigi fálynd og eigi einn líklegri en annar til þokka með henni."

Síðan fór Ísólfur á brott, reið leið sína og fór á fund Eyjólfs Guðmundarsonar á Möðruvöllu og var þar vel við honum tekið.

Brá hann Eyjólfi á tal og mælti: "Ekki mun þér til virðingar mitt erindi en þó ætlum vér til þinnar ásjá, þingmenn þínir. Virðum vér svo að gild svívirðing sé í þeirra tiltæki, Fnjóskdæla. Hafa sumir hlaupist á brott af landi er vér ætlum hlut í hafa þessu máli en þeir svara engu til er nú eru fyrir mál settir. Stóð það svo í fyrstu til að eg ætlaði að senda dóttur mína á fund yðvarn og firra hana svo ámæli vondra manna en þeir heftu ferð hennar, Brandur og Höskuldur, og dvöldu hana til svívirðingar."

Eyjólfur svarar: "Þetta er illa við komið. Eg vildi víst undan eira við Ljósvetninga en þó ert þú nú illa við kominn. Ætla eg ráð að hún fari hingað til mín. Má eg eigi aka undan öllum fæti en svo mun þá þykja ef þetta er kyrrt."

Ísólfur svarar: "Þann veg mun virt vera að eigi haldið þér sæmdum nema til hlutist yður tignari menn."

"Eg mun við máli taka," segir Eyjólfur, "þótt eigi sé vandalaust og lát fylgja henni til mín. Mun eg þó lítilþægur að yfirbót. Vænti eg að Þorvarði fari best ef hans ráð eru höfð en lítillar sæmdar vænti eg að öðrum þeim er hér eiga hlut í."

Tókust þeir nú í hendur og seldi Ísólfur honum málið.

26. kafli

Síðan fór Ísólfur heim og leið veturinn. Og einmánuð öndverðan var samkoma að Hálsi í Fnjóskadal. En nú var hún í Kaupangi undir eins og kom Eyjólfur því seint þangað og var þar lokið öllum samkomumálum er hann kom. Var Þorvarður í brottu og bændur. Eyjólfur spurði hvað títt var um ferðir Þorvarðs en honum var sagt að hann var heim farinn.

Eyjólfur segir: "Það er oss engi gæfa eða hvort er hér Þorkell Hallgilsson?"

"Hér em eg," kvað hann.

Eyjólfur mælti: "Við höfum vel hist að málum. Eða hversu vilt þú svara málum þeirra Ísólfs og Friðgerðar er menn kalla yður taki félaga? Er mér sagt að þú eigir sókn og vörn mála þeirra er við eru kenndir Brandur og Höskuldur. Nú mun eg eigi mikilþægur að um yfirbætur ef vel er svarað."

Þorkell svarar: "Þetta ber breytilega til er þú hefir að ganga eftir kvittan óvísra manna. Nú mun eg eigi veita fóstbræðrum mínum ólið eða sanna þá að því máli er allir eru jafnlíklegir til samlags við Friðgerði. Nú mun eg eigi svara betur en vita hver sannindi til eru af þeim er þér kennið málið."

Eyjólfur svarar: "Þá eruð þér tregari en vér mundum vilja en eg mun hóglega til mæla. Viltu handsala lögréttu og skíri hún sig og handsala faðerni ef hún verður skír?"

Þorkell svarar: "Þungur verður hluturinn vor ef eg handsala faðerni en annar verður sannur að. En skírslunnar mun eg eigi varna. Sumir kveða þó langstaðið. Og vil eg handsala rétt presti þeim er skírslu gerir."

Eyjólfur svarar: "Það mun í lýsast að eg vil sættast og kýs eg þetta af."

Síðan gerði Þorkell svo, að hann handsalaði presti rétt ef hún yrði skír og eindaga á fénu.

Skírsla skyldi vera í Laufási. En sá prestur hét Ketill er gerði skírsluna er kallaður var Möðruvellingaprestur. Þá var í Skálaholti Ísleifur biskup. Síðan fastaði hún.

En Eyjólfur bauðst nú til að sjá skírsluna og kvað auðvelt að þeir vildu enn tefja málið "og skal því meira hug á leggja eftir að sjá."

Þorkell kom þar og var nú leyst til handarinnar. Prestur veitti eigi skjót atkvæði.

Þá mælti Þorkell: "Hví ert þú svo mikill verrfeðrungur að segja eigi að hún er brunnin?" og nefndi sér votta að því.

Prestur mælti: "Nú fer óliðlega er þið dæmið og takið málið fyrir hendur mér fram er eg á atkvæðið að veita og skal vera enn tilraun önnur skírari."

Eyjólfur svarar: "Eigi má skírari vera en fyrir fjandskap þinn og mútur er þú hefir til tekið þá skal eg heimta sem föðurarf minn."

Þorkell svarar: "Vitum vér það Ljósvetningar að ósparir hafið þér lengi verið við oss um fjandskapinn."

Eyjólfur svarar: "Þér hófuð fyrri fjandskapinn en komuð niður hart eftir verðleikum."

Þorkell svarar: "Fyrir þessa sök skal eg annaðhvort láta allt fé mitt eða ekki."

Eyjólfur svarar: "Eigi mundi Þorvarður svo svara frændi þinn."

Síðan skildu þeir að því.

Þá kom skip að Gásum og voru þar á fóstbræður, Brandur og Höskuldur.

Þorkell hitti þá brátt og mælti: "Heimil mun vist með mér sem fyrr þótt vant sé."

Þeir þágu það og fóru til Veisu.

Þá mælti Þorkell: "Svo er nú málavöxtur Brandur að Eyjólfur vill bera þig sökum með þeim hætti að þú hafir legið dóttur Ísólfs og mælt svo ferlega að hann mundi svo heimta rétt hennar sem arfinn eftir Guðmund föður sinn. En eg ætla að hann geri það lítt eftir sannri raun því að skírslur hygg eg að henni gangi æ til smánar. Sá eg hönd hennar ófegri en áður og sýndist í því fjöllyndi hennar. En Eyjólfur vill enn vekja forna óhæfu við oss frændur."

Brandur svarar: "Engan greiða mun eg á því gera að eg sé þar í meiri venslum en aðrir menn."

Þorkell mælti: "Hverja meðferð viljið þér hafa? Því að frændur vorir vilja allir með Eyjólfi vera nema Hrafn Þorkelsson frá Ljósavatni" hann bjó þá að Lundarbrekku í Bárðardal - "hann vænti eg að oss sinni eigi síður. Hann skortir eigi vit" - kona Hrafns var ættuð úr Goðdölum - "nú vænti eg að hann fái til nokkuð ráð að vér höfum hærra hlut. Og yrði svo vel að Eyjólfur réðist norður hingað væri gott að hann hefði skapnaðar erindi."

Höskuldur mælti: "Auðsýnt er að vér stöndum við."

Síðan hittu þeir Hrafn og bar Höskuldur málið upp fyrir honum og mælti: "Spurt munt þú hafa óþykktarsvip Ísólfs og Eyjólfs til vor enn að nýju. Nú viljum vér í móti rísa með þínu ráði."

Hann svarar: "Þú segir satt. Eyjólfur vill nú ganga yfir alla þjóð en þeim þykir ekki til vor koma nema til Þorvarðs eins. Og er mér til nokkurs? En farið nú til Óðslu og hittið Ótrygg og bindið hann í liði með yður og til vina vorra í Fnjóskadal. Því að eg kenni ofsa Eyjólfs að hann mun norður hingað leita. Verum þá við búnir og leynum Þorvarð."

Það er sagt það sumar að Eyjólfur átti samkomu í héraði og mælti: "Það mun yður kunnigt að eg em kallaður höfðingi yðvar. Nú þykir mér sem það muni sannlegt kaup með oss að hvorir veiti öðrum að réttum málum og að þér styrkið oss til móts við mína ágangsmenn en eg sé yðvar liðsinnismaður í yðrum nauðsynjum."

Mönnum þótti þetta vel sagt. Síðan reið Eyjólfur til Hrafnagils til Einars Arnórssonar. Hann var virðingamaður og vinur Eyjólfs.

Þá mælti Eyjólfur: "Svo er því máli háttað er eg vil ræða við þig. Mér er nú að sækja eindagann. En ef eg fer fjölmennur þá mun eg við leita að þrengja að þeim með fjandskap en Þorvarður einn er vægðar verður."

Hann svarar: "Gamall maður er hann nú víst og góður drengur er hann því að hann barðist við Gyrð þá er hann var með Þórólfi. Er honum vel farið. Hann er varúðigur og mikill fyrir sér. Og því að eins dugir þeim frændum ef hann sest fyrir málið. Er það mitt ráð að þú farir með átjánda mann og seg að þú farir eftir fangi til Flateyjardals."

Síðan bjóst Eyjólfur og með honum Þorsteinn hinn rammi af Arnarstöðum og Þórir sonur Finnboga hins ramma, heimamaður hans. Veður var hvasst er þeir riðu á Vöðlaheiði. Þeir komu á Draflastaði til Atla bónda. Hann var maður auðigur og þingmaður Eyjólfs. Þeir komu síð og var vel við þeim tekið. Bóndi spurði um ferðir Eyjólfs.

Hann kvaðst ætla út til Flateyjardals "og skalt þú vita hvað undir býr. Eg vil að þú gerir mann yfir til Veisu að vita hvað þar er manna heima."

Bóndi var fámáligur.

Eyjólfur mælti: "Hví ert þú svo fálátur?"

Atli svarar: "Eg væri glaðari ef þú værir við hundrað manns."

Eyjólfur svarar: "Vel er það mælt eða veistu nokkuð til tíðinda frá Veisu?"

Hann svarar: "Ekki nema kyrrt en eigi er þeim um þig."

Eyjólfur bað hann senda húskarl sinn til Veisu og vita hvað til tíðinda var. Hann gerði svo. Húskarlinn kom til Veisu.

Höskuldur stóð úti í dyrum og mælti: "Snemma ertu á fótum félagi" og brá honum til glímu og kvað hann hafa "vanda til að glepja konur vorar" og tók hann að reika á fótunum.

Hann ætlaði þá að ganga að öðrum dyrum og var Brandur þar fyrir og mælti: "Eigi muntu hér inn ganga. Sofa vill hún."

En þeir reiddu hann aftur og fram eftir vellinum og rifu af honum klæðin. Varð hann því feginn að hann komst á braut. Síðan fór hann heim og spurði Eyjólfur að um ferðina.

Hann lét hana illa orðna, "voru þeir fóstbræður úti og ætla eg að þeir hafi grunað mig og gerðu þeir mér aðfarar margar og rifu af mér klæðin. Og voru hurðir aftur fyrst er eg kom og fékk eg þó séð frá hurðinni hvað títt var inni og gruna eg að fjölmenni muni fyrir og að þeir hafi njósn af um ferðir þínar."

Eyjólfur svarar: "Eigi er það ólíklegt."

Það var síðan vanur að mæla Þorvarður Þorgeirsson þá er hark var haft: "Höfum nú Veisubragð."

Atli mælti: "Slíkt grunaði mig."

Eyjólfur segir: "Eigi er förin góð svo búið."

Atli svarar: "Eg býð þér tíu menn vel búna og far aftur og legg eigi menn þína í hættu."

27. kafli

Síðan riðu þeir Eyjólfur að ánni. Þá sjá þeir að menn riðu frá húsunum eigi færri en sjö tigir og létu þeir þegar drífa á þá grjót og voru þeir menn Eyjólfs dumpaðir illa um herðarnar og sneru þeir aftur. Atli kvað farið hafa sem hann grunaði.

Eyjólfur mælti: "Nú skal senda eftir Odda Grímssyni í Höfða vin vorum."

Og svo var gert. Menn voru og sendir til fjarðarins eftir mönnum.

Og er þeir Koðrán og Þóroddur heyrðu þetta mælti Hlenni: "Langsær hefir Eyjólfur verið nú."

Og snerust menn vel við og voru mönnum meiri vonir á harðfengi en fjölda. Oddi brást þegar við og fór við tíunda mann og reið Eyjólfur þegar í móti honum.

Þá mælti Oddi: "Hvort gera Ljósvetningar þér eigi greiðfært um vöðin eða hver er ætlan þín um ferð þína er svo er stofnuð?"

Eyjólfur svarar: "Eg ætla að þeim aftur á land og eigast þar við."

Oddi svarar: "Mikilmannlegt er það og eigi ráðlegt. Mun þeim eigi þykja þungt falla að svo búnu."

Eyjólfur mælti: "Hvað leggur þú til?"

Oddi mælti: "Ríðum hart fram að ánni en þá skulum vér snúa upp til Hestavaðs. Þar er mikið djúp að landi."

Þetta var allt fyrr en þeir Koðrán komu.

Og ríða þeir nú til vaðsins. Þetta sjá Veisumenn og réðust í móti og þröngdust að vaðinu. En þeir sneru þá hestunum upp með ánni.

Þá mælti Hrafn: "Bragð hitta þeir nú í."

Höskuldur svarar: "Látum það fyrir lítið koma og rennum upp í móti."

Og svo gerðu þeir. Snúa Ljósvetningar nú að og ríða út á ána en hinir ríða undan. Skaust hestur Eyjólfs í kaf en þeir Þorsteinn og Þórir tóku sínum megin í brjóstgjörðina hvor og hófu svo upp hestinn undir Eyjólfi og sneru aftur.

Þá mælti Oddi: "Eigi gengur nú fram Eyjólfur og snúum aftur."

Eyjólfur svarar: "Aldrei skulum vér undan fara."

Höskuldur sneri að Odda örðigum er þeir sneru hestunum og nam öxarhyrnan í milli herða honum. Komust þeir svo aftur til sama lands.

Þá mælti Oddi: "Eigi sækist nú skjótt reiðin."

Eyjólfur mælti: "Eigi munum vér enn skildir."

Þá var mönnum hleypt til liðsbónar á hvern bæ.

Síðan báru Ljósvetningar ráð saman.

Þá mælti Höskuldur til Hrafns: "Hvað leggur þú nú til frændi eða þykir þér eigi ráð að vér förum í móti þeim til Þriðjungavaðs því að þangað munu þeir leita?"

Hrafn svarar: "Til er slíkt. En þess get eg að nú leiti þeir þangað til er þeir hafa meira traust en nú. Það er nú ráð mitt að gera njósnarmenn til Þriðjungavaðs og á Þingmannaleið að sjá ferðir manna."

Höskuldur svarar: "Það munum við Brandur gera fóstbræður."

En þá var víða skógi vaxið.

Þeir sjá að menn fóru að Bíldsárskarði, sneru aftur síðan og sögðu mönnum sínum.

Þá mælti Hrafn: "Nú erum vér farnir nema Þorvarður ráðist í."

Höskuldur mælti: "Það mun yður ráð í þykja að eg fari á Fornastaði og biðji Þorvarð liðs."

Hann gerir nú svo og kom á Fornastaði. Hann gekk inn í stofu. Hún var skipuð öll af mönnum. Það voru frændur og vinir Þorvarðs.

Höskuldur mælti: "Skjótt er mitt erindi. Liðs er þörf. Vér munum skjótt ofurliði bornir af Eyjólfi nema vér njótum þín við" og sagði honum allt hversu farið hafði.

Þorvarður svarar: "Síð hefi eg að þessum málum kvaddur verið. Mundi vera hóglegar að farið ef eg réði. Nú fýsi eg eigi mína menn að fara í heimsku þessa."

Höskuldur mælti: "Eigi skal lengi lítils biðja þig og munt þú lítið veita og óhallkvæmt. En aldrei skal eg við þá skiljast."

Þá tók kona Þorvarðs til orða: "Hitt er á að líta að til þín mun koma þykja ef Höskuldur er drepinn og er þá eigi betra eftir að mæla."

Þorvarður svarar: "Veit eg ákafa kvenna en gott mun að hefta vandræði þetta."

Hún svarar: "Þú munt illa mæla eftir hann dauðan er þú veitir honum eigi lifanda. En eigi skal eg þá annan ala son ef þú selur þenna undir vopn."

Þorvarður svarar: "Er eigi það ólíklegt að oft standist ráð yður kvenna og látið búinn náttverð nokkurum mönnum í kveld" og spratt upp.

Hún svarar: "Eg skal það annast."

En Þorvarður sendi mann á fund Gunnsteins og svo til Ótryggs er átti Guðrúnu dóttur Þorkels háks.

Hallur Ótryggsson var að Þverá í Fnjóskadal með konu þeirri er Þorgerður hét og gekk að sauðum þann morgun og hafði skipt verkum við þann er fjár geymdi því að hann var oft á Grýtubakka í Höfðahverfi og hafði þar sláttu. Hann fór upp í dalinn. Ótryggur faðir hans var þá gamall og þó hinn vaskasti. Honum komu orð Þorvarðs að nýju. Og er sendimaður kom var hann að höfuðþvætti og kvaðst eigi búinn.

Þá mælti Guðrún: "Satt var það að Þorkell hákur var mér skyldur en eigi þér enda skal eg og fara."

Ótryggur svarar: "Mér sómir förin enda skal eg og fara."

Fór hann þá síðan til Þorvarðs. Gunnsteinn fór og til fundar við Þorvarð. Þá kom þar þræll hans og bað að hann mætti fara.

Gunnsteinn mælti: "Þú skalt heima vera og halda híbýlum upp."

Þrællinn svarar: "Hvað sérð þú það á mér að eg skuli heima vera? Nú mun eg þó fara og hirða ekki um fé þitt."

"Svo skal vera," segir Gunnsteinn.

Þeir Þorvarður fóru nú við sjö tigu manna og fóru tveim megin árinnar. Nú var eigi varið Eyfirðingum vaðið. Þeir Koðrán komu þá, Þóroddur hjálmur og Einar Arnórssynir, og höfðu mikið lið. Þeir komu til hóls þess er kallaður var Kakalahóll. Þar var mýri blaut og lækjarfall og stöðvaði þar fyrst áhlaup manna. Á aðra hönd Eyjólfi stóð Oddi Grímsson. Hann var sköllóttur og gamall. Koðrán hafði einn sér lið. Þeir Þorsteinn hinn rammi fylgdu Eyjólfi allra fastast en Eyjólfur veik undan á mýrina og lá hestur hans í feni. Hljóp hann þá af baki og snýr að Þorvarði og tóku þeir til að berjast í sólarupprás. Ótryggur sneri þegar að fram. Þorvarður virti svo sem Eyjólfur vildi þar að eins til snúa sem honum þætti næst standa hefndinni. Eyjólfur íhugaði að Þorvarður hefði vitað óþokkann þeirra í milli.

Þá mælti Ótryggur: "Hjálmur hinn ungi hver skal hér í dag fyrstur víg vekja?"

"Hver nema þú Háks mágur?" sagði hann.

Síðan tókust áhlaup mikil. Ótryggur lét sem hann sæi engan mann nema Eyjólf. Þorvarður var eigi í fyrstu bráðorður. Ótryggur lagði spjóti til Eyjólfs en Eyjólfur var í skarlatskyrtli rauðum. Hafði hann drepið upp skautunum en Ótryggur lagði í felina. En Þorsteinn hinn rammi laust á ofan öxarhamrinum svo hart að fal eggina spjótsins. Ótryggur laut eftir. En er Eyjólfur sá það þá lagði hann Ótrygg í gegnum með spjóti. En hann snaraðist við, féll í lækinn og dó þar. Þá frýðu menn eigi Þorvarði fram.

Starri hét maður er með var Þorvarði. Hann átti Herdísi dóttur Halldórs Guðmundarsonar, bróður Eyjólfs. Hann var sonur Þorgerðar Tjörvadóttur og var hann beggja vinur.

Þorvarður gekk hart fram og bar hann yfir Ótrygg. Þá rann Starri á hann og hélt honum. Í því hjó Eyjólfur á þumalfingurinn Þorvarði og loddi köggullinn við í sinunum. Þá mælti Þorvarður til Odda frá Mývatni að hann veitti honum. Hann var sonur Þorgeirs öxarstafs Grenjaðarsonar og kominn frá Fjall-Oddi. Hann átti Vigdísi systur Þorvarðs. Síðan hljóp Oddi að Starra og gaf honum öxarhamarshögg svo að fæturnir horfðu upp. Þorvarði hrumdi sárið og vildi snara af sér fingurinn.

Þá mælti Oddi: "Lát lafa, muna þeir mein er þiggja, er þú kemur heim jafnan."

Og svo gerði hann.

Höskuldur Þorvarðsson gekk í móti Odda frá Höfða og áttust þeir við.

Þá mælti Gunnsteinn: "Fremstur vill Höskuldur frændi vor vera og er því ráð að fylgja honum vel er þó er margur um einn."

Þá mælti Þorsteinn heimamaður Gunnsteins: "Eigi er í hættlegra lagi hjá þér í dag bóndi er þú berst við hann Þveræing, Einar Járn-Skeggjason. Nú mun eg ráðast fyrst í brott."

Síðan snýr hann að með húskarla fjóra og setur öxarhamar í höfuð Odda og var það svöðusár í enninu og blæddi mikið.

Þá spratt hann upp og mælti: "Búinn em eg að berjast."

Þá mælti Þorsteinn skuldarmaður: "Nú mun eg í brott Höskuldur. Ver nú hendur þínar og þið Þórálfur héðan frá."

Brandur gekk og vel fram Gunnsteinsson.

Nú er að segja frá Halli Ótryggssyni. Hann kom til Ness og var jökulbarinn. Hann spurði hvort sauðamaður væri heima.

Konur svöruðu: "Hvað mun þér undir um smalamann? Viltu eigi til ráða er frændur þínir berjast ef þú þorir?"

Hallur mælti hratt: "Fáið mér heldur vopn nokkuð."

Síðan tóku þær viðaröxi eina og fengu honum.

Og er hann kom til orustunnar stóð hann og mælti: "Hvað er hér tíðinda?"

Maður nokkur svarar: "Sérð þú eigi að faðir þinn er veginn og liggur hér fyrir fótum þér? Eyjólfur Guðmundarson vó hann."

Síðan gekk Hallur fram.

En Koðrán gekk í kvína og skildi menn og var þá svo komið að þeir einir menn börðust er sakar áttust við. Stóðu þá flestir kyrrir og þurfti engi meir að skilja þá. En Koðrán tók sinni hendi hvorn þeirra og skaut þeim svo tveggja vega frá sér. Og í því hjó Hallur í höfuð honum.

Þá kallaði maður: "Þar fór nú einn besti maður úr Eyjafirði," segir hann.

Hallur mælti: "Og var Guðmundarson þó að góður væri."

Koðrán var þá borinn í brott á skildi og bundið sár hans því að Ljósvetningar voru við skóg nokkurn. Eyjólfur eggjaði nú fast að hver dygði sem mætti.

Þá svarar Þóroddur hjálmur: "Það hugsar þú nú Eyjólfur hvað gert er en miður hyggur þú að hægja bróður þínum. Er nú og veginn húskarl Einars að Þverá."

Eyjólfur svarar: "Tjaldið um Koðrán. Eigi nenni eg að leita honum hér lækningar og skal færa hann til Svalbarðs til Þorvarðs læknis."

Þá sögðu menn að Hrafn gætti eigi miður skógarins en fundarins og mælti Hrafn: "Það er nú ráð að fela sig í skóginum og það annað að segja Þorvarð sáran til ólífis."

Höskuldur svarar: "Það er öruggt ráð og þó fjarri skapi föður míns. En ræða má eg þetta við hann" og svo gerði hann.

Þorvarður svarar: "Seg þú honum þau mín orð að hann segi sig svo veslan sem hann vill en ljúgi ekki á mig því að þar liggur á mín reiði."

Nú var framorðið dagsins en Eyjólfur eggjaði atgöngu. Hrafn hafði verið um nóttina á Hálsi og kom utan úr Flateyjardal. Og var það meir af atburð en að honum þætti þar allgott.

Hrafn fann Eyjólf og mælti: "Sjá fundur hefir harður verið, Koðrán sár mjög en Þorvarður óvígur og er einsætt að hætta."

Þá mælti Koðrán: "Já skiljið nú. Ekki mun mig saka."

Síðan skildust þeir. Eyjólfur vissi eigi hversu mjög Koðrán var sár.

Og er Þorvarður spyr þetta mælti hann: "Heyr á endemi að ljúga til sára manna. Verði fundur sjá sem auðnar. Erum vér jafnan seinir til óhæfu en skiljum eigi nú fyrr en öðrum þykir mál."

Eigi urðu menn til þess að segja Eyjólfi þessi orð.

En þeir Eyjólfur fóru til Svalbarðs og fundu Þorvarð lækni og leystu til sársins. Eyjólfur spyr hversu honum segði hugur um.

Hann svarar: "Ef Koðrán hefði kyrr verið þá væri von í en nú er engi."

Eyjólfur sagði að honum mætti á einum fingri dreyra vekja.

Síðan var eldur ger og afklæddust þeir við. Eyjólfur mátti eigi komast af kyrtli þeim er hann var í. Svo var hann þrútinn. En Koðrán andaðist um nóttina og hörmuðu menn það mjög. Hann var færður inn til Eyjafjarðar og búið vel um hans líkama.

28. kafli

Síðan er sagt frá Ljósvetningum að Þorkell Hallgilsson mælti: "Bjóða vil eg öllum mönnum til mín, þeim sem hér hafa verið við staddir nema Halli Ótryggssyni."

Gunnsteinn mælti: "Slíkum orðum vil eg mæla."

Þá mælti Þorvarður: "Eg vil bjóða öllum til mín í kveld og fyrstum Halli Ótryggssyni er skömm hefir af oss fengið og höggið og skal eitt yfir oss ganga."

Síðan fór Þorvarður heim með allan flokkinn á Fornastaði og mælti: "Hitt er nú húsfreyja að leysa beinann af hendi."

Hún svarar: "Eigi mun skorta beinann í kveld."

Höskuldur Þorvarðsson var kátur og veitti mönnum beina.

"Faðir," segir hann, "hvort skal skipa mönnum að mannvirðingu eða eftir framgöngu?"

Hann svarar: "Hrafn skal mér næstur sitja."

Hallur hvarf í eldhúsdyrum og vissu menn eigi um veturinn hvað af honum mundi orðið. En hann var þá í eldhússkoti að baki Þorvarði.

Síðan sendi hann orð þingmönnum og mælti er þeir komu: "Nú höfum vér hitt í stór vandræði og munum vér nú ráða við þurfa. Skal eg nú senda fyrst menn til Eyjafjarðar með boðum til Eyjólfs."

Hann gerði nú svo. Þeir sögðu Eyjólfi að hann vill gjalda tvö hundruð silfurs fyrir Koðrán og utanferð Halls og kæmi hann aldrei út.

Eyjólfur svarar: "Eigi ætla eg að hafa þenna dóminn Þorvarðs í bróðurbætur og neita eg þessu."

Sendimenn fóru aftur.

Eyjólfur sendi menn til allra höfðingja að biðja þá liðveislu og svo vestur til Gellis vinar síns að hann fjölmennti til Hegranessþings. Gellir var góður drengur. Eyjólfur bauð eyri silfurs fyrir nef hvert og hverjum höfðingja þeim er til þings riði hálfa mörk. Hann sendi menn til sona Eiðs í Ás í Borgarfjörð og bauð þeim fé til liðveislu og svo Goðdælum. Þá var umræða á að Hrafn mundi eigi fyrir sökum hafður því að hann þótti ekki mannhættlegur verið hafa á fundinum. Velflestir höfðingjar hétu Eyjólfi liði.

Hárekur hét maður er bjó í Ási í Kelduhverfi. Hann átti Þorgerði dóttur Þorvarðs. Hann var þingmaður Skegg-Brodda.

Þorvarður sendi hann austur til Skegg-Brodda að biðja hann liðs "og vil eg gefa honum gullhring."

Skegg-Broddi átti Guðrúnu Þórarinsdóttur sælings og Halldóru dóttur Einars að Þverá.

Eyjólfur sendi menn þangað og gista að Hrafns að Lundarbrekku og mælti til vináttu við hann og kunni hann ekki um sakar ef hann skildist við og væri í engri ráðagerð með Þorvarði og sendi Hrafni hálfs eyris gull. Og er sendimenn komu tók hann þenna kost. Og síðan hittu þeir Skegg-Brodda og báru fyrir hann málið.

Hann svarar: "Eigi veit eg um liðveislu þá. Lítinn sóma hafa þeir gert frændkonu sinnar, Möðruvellingar, enda munu þeir eigi þurfa lið úr Austfirðingafjórðungi. En koma mun eg til þings en liðinu heit eg engu."

Þeir fóru aftur er sendir voru.

29. kafli

Síðan kom Hárekur austur til Skegg-Brodda og bar honum kveðju Þorvarðs og sýndi honum hringinn.

Hann svarar: "Spurt hefi eg málaferli þeirra. En það hefi eg mælt að eg mun þeim veita sem færri eru. En hringurinn mun dveljast eftir."

Síðan komu þau í rekkju hjón.

Þá mælti hann: "Gesti eigum við Guðrún."

Hún svarar: "Hvert er erindi þeirra?"

Hann svarar: "Þorvarður sendi þér hring þenna að þú værir eigi í móti honum."

Hún svarar: "Eigi virði eg hringinn svo mikils að eg virði þig eigi meira og veit eg að þér er sendur hringurinn til liðveislu."

Hann svarar: "Koma mun eg til þings."

Nú fóru sendimenn á brott.

Eyjólfur átti sér fóstra. Eyjólfur var hljóður mjög um veturinn og áhyggjusamur.

Og einn morgun kom hann í stofu og mælti: "Dreymt hefir mig í nótt. Eg þóttist ríða norður Háls og sá eg nautaflokk koma í móti mér. Þar var í oxi einn mikill, rauður. Hann vildi illa við mig gera. Þar var og griðungur mannýgur og mart smáneyti. Þá kom yfir mig þoka mikil og sá eg eigi nautin."

Fóstri hans svarar: "Það eru manna fylgjur óvina þinna og oxi fylgir Þorvarði en griðungur Halli. En það er myrkur kom yfir þig sé eg eigi fyrir annan enda um mál yður."

Eyjólfur bjó mál til og bannaði það engi maður. Þá riðu þeir og var illfært um fjöll og var fjárfellir mikill.

Þorvarður hitti vini sína og mælti: "Mun eigi það ráð að snerpast við um þingförina? Ef þér viljið mér lið veita þá sé eg ekki til vænna en að menn fari og hafi tveir saman hest því að eg veit að Eyjólfur mun fjölmennur."

Menn urðu vel við og fékk hann víglegt hundrað manna. Þeir fóru degi fyrr en Eyjólfur og fóru Öxnadalsheiði og ofan Norðurárdal og áðu í Svínanesi. Eyjólfur hafði nær þrjú hundruð manna. Þar voru í för Þóroddur hjálmur og Einar Þveræingur. Og er hinir riðu úr Svínanesi riðu þeir Eyjólfur í nesið. Þá varð þeim Þorvarði farartálmi að klyfberaband brast í sundur og fóru ofan klyfjar.

Þorvarður mælti: "Hvað er nú ráð Hrafn frændi?"

Hann svarar: "Ekki sé eg annað til en hafa sig undan."

Þorvarður svarar: "Er þá drengilega skilist við menn sína? Og er nú verra en fyrr að hitta Eyjólf og þótt þá væri hlýtt ráðum þínum þá mun eg nú eigi hlýða þeim."

Og voru hinir þá eigi búnir.

Einar sá þá og þótti búið til mikils voða og leitaði sér fangaráðs og reið fram hjá Eyjólfi og mælti: "Sjáið þér flokkinn þeirra Þorvarðs?"

Hann kvaðst sjá "og sýnist mér sem skammt muni verða til fundar vors."

Einar svarar: "Hvar kemur fé það þá er þú hefir heitið höfðingjum til liðs þér?"

Eyjólfur svarar: "Eigi mun nú illa fallið að vér reynum með oss" og vill fram ríða.

Þá brá Einar öxi á söðulgjörðina og gekk Eyjólfur af baki og varð þá dvöl á eftirreiðinni en þeir Þorvarður riðu undan.

Þeir Eyjólfur riðu á Silfrastaði en Þorvarður reið ofan eftir héraðinu á Miklabæ. Þá reið maður í móti honum.

Þorvarður mælti: "Sjá stefnir til vor."

Sá mælti: "Hvar er Þorvarður?" sagði hann, "Þorgerður húsfreyja bauð þér heim."

Hann svarar: "Hafa munum vér þar náttverð og ríða síðan til Vallalaugar svo að vér komum til þingstaðar fyrri."

Þorgerður var ekkja og hafði átt hana Halldór bróðir Þorvarðs.

Þá mælti húsfreyja: "Nú hafið þér vel gert og séð híbýli mín. Nú vil eg fá yður tjöld og viðu og þrjátigi manna og vist."

Hann svarar: "Sýnir þú stórmennsku þína en ekki eru gistingarlaunin. En eigi skulu þeir fara og leggja það í hættu en annan beina munum vér þiggja."

Svo var gert. Þeir tjölduðu ágætt herbergi við þinghelgi til vægðar við Eyjólf.

30. kafli

Eyjólfur kom á þing með miklu fjölmenni og átti öllum mönnum búðarrúm að fá og var þar mikill mann fjöldi. Gellir kom vestan með tvö hundruð manna. Og er þeir riðu á þingið þá skipuðu þeir svo liðinu að hver rann eftir öðrum og þótti mönnum það frágerðalið til að sjá og störðu menn á. En einn var sá maður er þeim fannst einna mest um er á baki var. Það þótti mönnum lýtið á að þeim sýndist hann ríða folaldi. Og er þeir stigu af baki og hestar voru lausir látnir þá þótti sá hestur miklu mestur er sjá maður hafði riðið er þar var kominn. En það var Skeggi hinn rammi bróðir Álfs úr Dölum.

Og er menn höfðu eina nótt á þingi verið þá sáu þeir ferju á firðinum og tólf menn á og einn var í vargskinnsúlpu og um utan í blárri kápu og hafði verið hvasst veður. Þeir voru afburðarmenn á að líta og bar þó höfðinginn af öllum. Þeir Eyjólfur gengu í móti mönnum þeim í lendingu. En þeir Þorvarður gengu þar í móti þeim er verra var upp að ganga.

Og er þeir höfðu hlaðið seglinu síðan, leit Skegg-Broddi á liðið og mælti: "Hingað munum vér fara í lið þessara."

Þorvarður mælti: "Kom þú nú heill og kunnum vér allir þökk á að þú farir til búðar með oss."

Þeir gera nú svo.

Og var þá rætt um við Skeggja hversu fús hann mundi ganga í móti Skegg-Brodda ef saman lysti liðinu.

"Það ætla eg," segir Skeggi, "að meir endist mér afl við Skegg-Brodda eða þó hugur en hamingju uggir mig að eg hafi eigi við hann."

Síðan var rætt við Skegg-Brodda þetta sama mál.

Hann svarar: "Mikil von er mér á að Skeggja skorti eigi afl en það ætla eg þó ef svo væri til skipað í voru liði sem hér er að Þorvarður yrði eigi aflvani."

Morguninn eftir gekk Skegg-Broddi til búðar Eyjólfs og var engi blíða við hann af Eyjólfi.

Skegg-Broddi mælti: "Er eigi það vænst að sættast Eyjólfur?"

Hann mælti: "Má sem vill."

Skegg-Broddi svarar: "Fast er nú fyrir" og gengur til og hittir Gelli vin sinn.

Þá mælti Skegg-Broddi: "Fastlega horfir ræða Eyjólfs."

Gellir mælti: "G ... hluta."

Skegg-Broddi svarar: "Það samir vel enda væri þá nokkurs staðar. Eru með okkur þeir menn er eiga hér í hlut að aukast munu vandræði ef þeir verða sekir og mun þá meiri vandræði um að tala en fyrrum. Sækjum nú báðir eitt ráð og firrum mennina óhöppum."

Gellir svarar: "Eg veit vilja Eyjólfs að hann vill sjálfur á kveða og fjársektum ráða. Vill hann eigi sættast við Þorvarð nema þeir Brandur, Höskuldur, Þorkell og Hallur fari utan og séu skógarmenn ferjandi."

Skegg-Broddi svarar: "Eg veit og vilja Þorvarðs að hann vill að hann geri einn um fjársekt milli þeirra og eigi þeir útkvæmt nema Hallur. Og vildi eg að sá brotgeiri væri lagður fyrir okkur að við ákvæðum mannsektir."

Gellir mælti: "Mun þú fyrst hvað fyrir kemur."

Síðan hittu þeir Eyjólf og þá mælti Skegg-Broddi: "Óráðlegt er að vilja eigi sættast því að eigi munu allir í móti Þorvarði ganga. Láttu mæla um Gelli og sannvini hans."

Eyjólfur svarar: "Eigi sé eg það að eg muni skyldur til vera að virða þinn vilja."

Skegg-Broddi svarar: "Svo lítið er mitt traust að eg hefi nú vígsgengi að veita mínum mönnum. En þó skulu nokkurir tannsárir verða áður en Þorvarður er drepinn."

Gellir svarar: "Þá fer illa málahluturinn vor ef vandræðin aukast. Og þó að Skegg-Broddi hafi nú fá menn þá sómir eigi að fyrirlíta hann."

Eyjólfur svarar: "Eigi horfir Þorvarði vænlega dómurinn."

Þá var um rætt að dómur mundi út fara og treysti Eyjólfur fjölmenni sínu og bað fylkja við dóminn meðan þeir hefðu fram mál sín "en ætlum þeim í kvíarnar að ganga ef þeir vilja," sagði hann.

Og er Þorvarður spurði þetta mælti hann: "Hvað liggur nú til? Mun það eigi betra ráð að vér berjumst áður en vér erum sektir? Tökum nú til vopna en sumir færi heim hesta vora því að fundur sá mun verða að í brott munu komast nokkurir."

Svo gerðu þeir og sneru að hart. Dagur hét maður er var með Þorvarði og átti Sigríði dóttur Þorgeirs goða. Hann gekk fyrstur en þá fimm saman í senn og þá tíu og skipuðu liði sínu öllu því að fám var þekkt í þeirra liði að fara seint.

Þá mælti Skegg-Broddi til Gellis: "Hér kemur illa í hald að góðir menn margir eru hér við staddir. Þú ert fjölmennur mjög Gellir og vel vingaður við Goðdæli. Snú svo til fjölmenni þínu að þú verðir betri drengur af og fyllum báðir einn flokk og göngum í milli þeirra. Snúumst að með þeim er okkur orð vilja virða."

Gellir svarar: "Nú er vel skipt með okkur. Þú hefir drengskapinn en eg féið."

Síðan gengu þeir að dómum með liði sínu áður en málaferli færu fram. En þá var svo komið að hvorirtveggju voru búnir að berjast.

Þá mælti Skegg-Broddi: "Má Eyjólfur heyra mál mitt?"

"Heyri eg," segir hann.

Skegg-Broddi mælti: "Hér horfir óvænt að menn skulu berjast hér fyrir þitt tilstilli. Kalla eg það heldur best ráð að hvor sætti sína menn."

Gellir segir: "Öllum er það auðsætt að sjá er verstur hluturinn að berjast og mun eg bjóðast til að gera um málin."

Eyjólfur svarar: "Mun eigi þeim að duga sem drengurinn er bestur? Og gef eg þér eigi fé til afarkosta."

Gellir svarar þá: "Að þessu er mjög ráð vandanda er þú berst nú fyrir" og snýst í mót Þorvarði: "Hvað viljið þér nú gera? Geystir farið þér nú mjög."

"En friðarmenn skulum vér."

Gellir mælti þá: "Meir hyggur þú nú á ofurkapp en forsjá er þú gengur að, slíkt ofurefli sem fyrir er. Gangið eigi að dóminum svo að þröngt verði að yður."

Þorvarður svarar: "Það er eigi örvænt að þeir unni oss eigi jafnaðar um höggið. En verra er þó að vér séum fyrst sakteknir og síðan drepnir."

Skegg-Broddi svarar: "Mun eigi annað ráðlegra en færa menn í slík vandræði og sættast heldur?"

Þorvarður svarar: "Óvanur em eg að láta draga alla sæmd úr hendi mér."

Skegg-Broddi mælti: "Hyggur þú nokkuð að þessu hvað að er? Þótt eg veiti þér lið þá eru þó margir í móti. Sýnist mér nú svo betur að þú munir játa vorum ummælum."

Hann svarar: "Eg skal játa."

Síðan stöðvaðist liðið og var fram gengið. Tókust þeir nú tali við.

Þá mælti Eyjólfur: "Hví mun nú eigi ráð að snúa til lykta máli voru?"

Skegg-Broddi svarar: "Það er nú einsætt að láta Gelli fyrir sjá um sinn og mun þér eigi gera að meira mein."

Eyjólfur svarar: "Hví mun hann meir kunna en allir aðrir?"

Er þetta mál um síðir lagt undir Gelli og skyldi hann kveða á mannsektir en þeir sögðu það upp að allir menn skyldu eiga afturkvæmt nema Hallur. Það líkaði Eyjólfi illa. Gellir gerði átta hundruð silfurs fyrir Koðrán. En það stóðst á víg Ótryggs og aðfarar þeirra Höskulds í fyrstu við Eyjólf. Áverkar Þorvarðs og Odda voru líkir kallaðir. Víg húskarls Einars Þveræings var bætt fé. Þorvarður skyldi utan vera þrjá vetur og þeir Þorkell, Brandur og Höskuldur en Hallur eiga eigi útvon. Síðan var mælt fyrir tryggðum og fé upp goldið. Eyjólfi þótti sinn hluti heldur til lágur orðinn og stóð það meir af kappi og drap kæti fyrir honum mest.

31. kafli

Skip stóð uppi í Svarfaðardalsárósi er átti Kálfur hinn kristni. Þorvarður ætlaði sér eigi heim og fór til skips. En þeir frændur skildu eigi sem fyrr voru nefndir og höfðu tjald á landi.

Þorvarður skoraði á Kálf um skipkaup en hann svarar: "Eigi er um skipkaup fyrr ráðið. En þú skipir að helmingi því að þér mun það best líka."

Þorvarður kvað svo vera skyldu. Hrafn þorði eigi eftir að vera og vildi hann fara með Þorvarði. Eyjólfur spurði þetta og íhugaði hvað látið var og reið í Hlíð til Þorkels vinar síns og sagði honum að hann ætlaði að Þorvarði og drepa hann. En hann lét illa yfir því að ganga á sættir og latti mjög og sagði að þeir hefðu tjald á skipi. Eyjólfur kvaðst fara mundu og kvaðst eigi nenna að engi kæmi mannhefnd fyrir bróður sinn. En er menn komu í rekkjur þá var barið á hurð og gekk bóndi út og kom inn aftur. Eyjólfur spurði hver kominn var. Bóndi segir að sá var utan úr dalnum.

Eyjólfur mælti: "Hvað mun títt um Austmennina?"

Bóndi segir þá hafa utan látið. Eyjólfur kvað þá eigi orðið hafa sem hann vildi og reið heim við svo búið. En tveim nóttum síðar spurði hann að þeir höfðu eigi út látið og sagði reiði á bónda og kvað hann rangt hafa við sig gert. Og er Þorvarður spurði þetta sendi hann bónda tuttugu skjólna ketil og stóðhross af Fornastöðum.

Síðan lögðu þeir Þorvarður skipinu út undir Hrísey. Byr var engi en báturinn laus. Bátur fór þá innan frá landi. Þar var rekkjumaður í skut.

Þá stóð maður upp á bátnum og mælti: "Hvort er sá maður hér á skipi er Már heitir og hefir sér far tekið?"

Hann kvaðst þar vera.

Þá mælti maðurinn: "Tak þú við Þorvaldi hinum líkþrá frænda þínum eða vér munum banna þér far."

Síðan tók hann við honum.

"Eg á fé á landi hjá mönnum," segir hann, "og skal eg með hann þangað fara."

Síðan kom hann aftur og kvaðst séð hafa ráðstafa fyrir honum.

Síðan haustaði og gaf þeim eigi byr. Austmenn báru ráð sín saman og kváðust mundu rýma skip eða láta Hall af skipi.

Þorvarður svarar: "Tökum annað ráð. Föstum þrjá daga og vitum hvort guð sýnir eigi hvað veldur. Og fari hlutur í sveitir og dæmum þann af skipi er hlýtur hvort sem er yðvar maður eða vor."

Hlutir voru vígðir og kom upp hlutur þeirra Kálfs. En Már var þar í sveit og kom hans hlutur upp. Síðan stefndu þeir honum á land og kváðu honum illa mundu farið hafa við frænda sinn. Honum fannst fátt um. En þar voru þau efni til að hann hafði myrtan hann. Síðan vildu þeir drepa hann. En það var þó til ráðs tekið að hann iðraðist og gaf hálfan hluta eigu sinnar fátækjum mönnum en annan helming frændum mannsins.

Síðan héldu þeir undan Hrísey og kom þá skip af hafi. Það átti Eldjárn Arnórsson kerlingarnefs og Þórlaugar Víga-Glúmsdóttur.

Þá mælti Eldjárn til Þorvarðs: "Hafið eigi Hall í gegnum haf. Fullboðið er oss þó."

Þorvarður svarar: "Hvað er annað sæmilegra en að hann fari utan með oss frændum sínum?"

Síðan gerði útnyrðing og kalt veður og heimtu þeir Þorvarður upp akkeri sín og brast hnakkbandið.

Þorvarður bað nokkurn sýna atgervi sína "og farið til Austmenn."

En þeir urðu eigi við búnir.

Þá sagði Hallur: "Eg em eigi sparandi til og fáið mér snærið."

Síðan fór hann úr stakki sínum og kafaði niður. Kom hann svo snærinu í akkerið svo að það náðist upp og fékk hann af þessu gott orð.

32. kafli

Síðan fluttust þeir út hjá þeim Eldjárni og var frerið á strenginum og hafði Hallur vöttu á höndum er hann dró akkerið.

Þá mælti maður einn til hans: "Óhræddur mun eg fyrir þér Hallur félagi er þú vattar streng."

Síðan lögðu þeir margir gott til Halls er áður höfðu óþokkast við hann. Síðan létu þeir í haf. Hallur var knár maður og liðgóður.

Þá bar norður að Noregi og sigldu suður síðan og höfðu byr hvassan. Sáu þeir við sker nokkur bát einn og voru á sveinar tveir og hélt annar skipinu en annar jós.

Þá mælti Þorvarður: "Hjálpum mönnum þessum er að dauða eru komnir og er skip þeirra fullt."

Kálfur svarar: "Þá leggur þú oss í hættu og vort fé."

Hann svarar: "Eg skal skip ábyrgjast og eigi áttu betra stöðu til að láta fé en eg."

Kálfur svarar: "Góð þykja mér þín ráð."

Síðan skutu þeir báti, Þorvarður og Hallur, og hlupu þar á og var þá skip sveinanna fullt. Hundar tveir voru bundnir í skipinu og fjötraðir við innviðu. Þorvarður greip þann sveininn er við árarnar sat en Hallur annan og hélt á hundunum og brá þeim á knörrinn og beittu að eynni. Þorvarður spurði hverjir þeir voru.

En þeir sögðu að annar hét Óspakur en annar Ósvífur: "Erum við hundasveinar Úlfs stallara og höfum við þetta af hundunum hlotið. Tjáði okkur eigi að bíða en er við komum voru þeir í brott. Erum við systursynir hans og ætluðum heim eftir þeim."

Þorvarður mælti: "Hvað er íslenskra manna með konungi í mestum virðingum?"

Þeir svara: "Úlfur er þar mest virður en þó er þar annar maður og heitir Járn-Skeggi."

Síðan gaf Þorvarður þeim feldi tvo og vopn og eftir það skildu þeir, héldu síðan eftir þeim konungi og spurðu þeir hvar hann drakk. En er þeir komu þar fagnar Úlfur þeim vel og spurði um ferðir þeirra.

Þeir kváðust hafa komið skipi sínu á voginn "og voru þar á góðir drengir og lífgjafar vorir."

Úlfur mælti: "Hverjir eru þeir?"

"Þorvarður heitir einn og er Ljósvetningur, Höskuldsson, og annar Hallur og er Ótryggsson, aflreyndur maður."

Þá mæltu menn: "Ykkur mundi eigi nær fallið er Íslendingar dugðu."

Þá mælti Úlfur: "Gerum eigi mikið um þetta."

Skeggi heyrði þetta og hitti konung og mælti: "Eg vildi að þú veittir mér lið að drepa menn þessa er sakaðir eru við oss" og sagði honum allan málavöxt.

Konungur mælti: "Það er eigi mitt að láta drepa mína þegna en þótt nokkur gerist til þá mun á því ömbun verða."

Hann hitti marga menn konungs og gaf þeim fé til fylgis sér.

Þá mælti sveinninn Ósvífur: "Hví lætur þú svo Járn-Skeggi?"

Úlfur svarar: "Hann ásakar menn þá er ykkur hafa lið veitt."

Sveinninn svarar: "Skaltu ekki að hafast eða þverr nú drengskapurinn þinn?"

Hann svarar: "Eigi mun eg þeirra mun gera."

Sveinninn svarar: "Illt eigum vér að þjóna yður. Mundum vér nú dauðir ef þeir hefðu eigi hjálpað oss."

Úlfur svarar: "Þetta fær ykkur mikils."

Sveinninn svarar: "Lítið megum við en með Þorvarði skulum við vera."

Og hlupu þeir þá til strandar, sögðu þeim Þorvarði hvað títt var.

Þorvarður mælti: "Enn er vandræði um að vera Kálfur. Nú vil eg kaupa að þér skipið en þér gangið af og gjaldi vor eigi aðrir menn. En vér munum flytja út grjót."

Kálfur svarar: "Eigi skal svo vera og eigi munum við skilja."

Vildu þeir allir fylgja þeim Þorvarði.

Skeggi hafði fengið til skip.

Hitti hann þá Harald konung og mælti: "Nú er liðið fengið herra."

Konungur mælti: "Hefir þú fundið Úlf eða hefir þú haft hans fulltingi við? Þá erum við sáttir."

Síðan hitti Skeggi Úlf og segir honum nauðsyn sína.

Úlfur svarar: "Vel hefir oss við þig líkað og munum vér þar fyrir veita þér það er þú biður."

Síðan kemur Skeggi fyrir konung og segir honum þessi orð Úlfs.

Konungur mælti: "Þá hefir hann vel við orðið. En undir væri þér hvorum megin hann sneri að."

Nú er frá því að segja að Þorvarður mælti til sveinanna: "Farið til Úlfs. Endast skal oss nú."

"Skilur þá mikið drengskap vorn," segja þeir, "og munum við eigi skiljast við þig."

Nú fara skip á voginn og er það Úlfur.

"Hvert mun hans erindi?" segir Þorvarður.

Ósvífur mælti: "Hart mun hann að róa ef hann vill illa."

Síðan komu þeir að kaupskipinu og reru kyrrt og lögðu skipi sínu á sitt borð hvorir. Þorvarður spurði hver fyrir skipunum ætti að ráða.

Úlfur mælti: "Friðmenn og hafið þér til þess unnið."

Síðan gekk konungur út og sá hvað títt var og mælti: "Skeggi félagi lát kyrrt vera og leyfi eg engum manni að berjast við Úlf eða að mínir menn leggist hendur á. Hefir þú hugað þá menn sektalausa. Er svo fyrir mig komið."

Og er nú eftir vitnum leitað og gengur Þorvarði vel. Skeggi kvað þá eigi við sig sátta.

Konungur mælti: "Eg hefi athugað málin og sýnist mér sem eigi hæfi ágangur við þá sem goldið hafa of fjár og flýið land sitt."

Og lætur konungur þá í friði fara.

Síðan héldu þeir til Danmerkur og fóru austur til Víkur. Þar hitti Þorvarður góðan dreng er Bárður hét og vingaðist við hann og fékk honum í hendur Hall Ótryggsson en Þorvarður bjóst til Róms. Bárður hélt skipi sínu í Austurveg og komu að þeim víkingar og buðu þeim kost hvort þeir vildu heldur berjast eða upp gefast og halda lífinu ef þeir veittu féið. En Bárður kvað það mundu sitt kjör að berjast eigi og því tóku flestir skipverjar.

Hallur svarar: "Eigi mun eg þrautarlaust upp gefast."

Bárður mælti: "Hættum eigi á við víkinga."

Hallur svarar: "Nú versnar skylduneyti mitt við stórvirkin og bið þú eigi þess. Mun eg gera það sem eg em fúsari til."

Tók hann þá beitiás einn og varði öðrum megin borðið. Barði hann á tvær hendur og örkumlaði menn. Og er það sáu skipverjar hans tóku þeir að dirfast og vörðu öðrum megin borðið. Fór svo að þeir höfðu sigur kaupmenn.

Þorkell, Brandur og Höskuldur fóru til Róms með Þorvarði frænda sínum.

33. kafli

Nú er að segja frá Eyjólfi Guðmundarsyni á Möðruvöllum að hann undi mjög illa við það að eigi komu mannhefndir eftir víg Koðráns bróður hans. Gerði hann för sína heiman og voru fjórir tigir saman. Þeir fóru norður í Flateyjardal á Brettingsstaði. Þar bjó Þórarinn Höskuldsson bróðir Þorvarðs. Þar var Einar Arnórsson með honum og Einar Járn-Skeggjason.

Forni hét maður er farinn var til rétta en sá maður var fyrir búi hans er Þorgeir hét er bjó að Þverá í Fnjóskadal. En Ketill hét sá maður er farinn var og til rétta og þeir gistu hjá Eyjólfur og höfðu þar góðan beina.

Þá mælti bóndi: "Hvert er nú ætluð förin?"

Eyjólfur Guðmundarson svarar: "Frek gerast nú boðin vor Eyfirðinga og þarf til fanga að ætla og er til Flateyjar förin eftir fangi."

Bóndi svarar: "Þó skal nú mjög skipa virðingamönnum í för þessa."

Eyjólfur svarar: "Viðurkvæmilegt er að vér förum allir frændur."

Engan höfðu menn grun á um ferð hans frá því er allir voru sáttir. Fóru þeir Eyjólfur nú og komu til Þórarins og gengu þar inn í hús og báru þegar vopn á hann og vógu hann og tvo menn aðra. Og er þeir riðu ofan yfir Vöðlaheiði frá víginu þá ræddu þeir um atburðinn og hrapaði hestur undir Eyjólfi og féll hann af baki. Og er hann vildi upp standa varð honum stirður fóturinn svo að hann gekk haltur. Og er menn riðu til alþingis þá bauð hann engar sættir. En svo var honum fóturinn stirður að hann mátti eigi ganga og reið hann í milli búða.

Þeir fundust Finni og Eyjólfur. Finni spurði hversu hann hafði fengið meinið. Hann segir honum það.

Finni mælti þá: "Það mundi eg ætla að þar mundir þú eigi hafa getað staðist fylgjur þeirra Þorvarðs og frænda hans er fjandskap leggja á þig."

Eyjólfur mælti: "Ætlar þú að þeirra fylgjur séu meiri fyrir sér en mínar og minna frænda?"

Finni mælti: "Ekki kveð eg að því. Þó er það reynt ef vér spyrjum um för Þorvarðs."

Hrólfur hét sonur Þorkels Tjörvasonar Þorgeirssonar frá Ljósavatni. Hann fór með Ljósvetningagoðorð á þinginu. Og var leitað um sættir. Eyjólfur kvaðst óráðinn til að bæta fé. En þeir höfðu búið málið á hendur Eyjólfi með hálfan hinn fimmta tug manna. Hrólfur bað sér liðs. Og er hann fann Þorkel Geitisson mælti hann slíkum málum við hann.

Hann svarar: "Þú mælir sannara en eigi nenni eg að ganga í móti Eyjólfi."

Síðan hitti Hrólfur Skegg-Brodda og mælti: "Flestum mun nú kunnigt mál mitt. En hér virða menn meir afla Eyjólfs en sannsýni. Verður mér nú reikult um þingvöllinn en fæstir líta á mína nauðsyn."

Skegg-Broddi svarar: "Eg ætla þig gengið hafa liðsbón en lítið að sóst og engan tek eg af um liðveislu við þig. En haldast munu réttindi þau er mönnum virðast hér að. En ef Eyjólfur vill engu bæta enda fáir þú engum málum fram komið þá er laust með okkur."

Hrólfur mælti: "Eigi mun eg þig lengi þæfa um liðsbeina en segja mun eg þér ætlan mína. Ef eg má eigi málið fram hafa fyrir fjölmenni Eyjólfs mun eg bjóða honum hólmgöngu hvort er hann vill við fjórða mann eða við eigumst tveir við. Vildi eg þá til kjósa Einarana tvo og Þórodd hjálm er mér eru falastir til þungs hlutar. En eg ætla að fá í móti starfsmenn og ræningja."

Skegg-Broddi mælti: "Þú ert hetja mikil og ertu eigi ráðalaus. Haltu nú þessu fram en eg skal til sjá með þér. Og munu menn ráðast í móti þeim nöfnum ef þarf. Og má það verða að þú skiljir eigi við með óvirðingu."

Síðan hitti Skegg-Broddi Gelli vin sinn og sagði honum þetta.

Hann svarar: "Illa læt eg yfir því er hólmgöngur haldast uppi og er það heiðinna manna."

Skegg-Broddi mælti: "Hvers var að von annars en slíks ef maður býr allilla til sitt mál, að menn muni það illu gjalda, og drepur saklausa menn á gervar sættir?"

Þetta var sagt Eyjólfi.

Hann svarar: "Fjandmaður vor gerist þú nú Skegg-Broddi. Hefir þú nú tveim sinnum brugðist mér."

Skegg-Broddi svarar: "Eg firrði þig og næst á Hegranessþingi vandræðum sem von var að verða mundi ef þú sektir Þorvarð og frændur hans. Þá drapstu bróður hans og viltu það nú engu bæta. Eða hvar ætlar þú til? Eru nú tveir kostir fyrir höndum, að láta okkur Gelli ráða og dæma eða hólmgöngur munu fram fara."

Eyjólfur kvaðst ætla að betra mundi að bæta. Þá áttu margir hlut í og kom þar að manngjöld skyldi lúka og galst það fé allt.

Nú er þeir Þorvarður og frændur hans komu sunnan frá Róm og í Saxland þá hittu þeir Norðmenn og sögðu þeir þeim víg Þórarins er orðið hafði um haustið.

Þorvarður mælti: "Langt er nú öxanna vorra í milli og þeirra Möðruvellinga. Og það vilja þeir enn að þær takist til ef eg kem til Íslands. Og verði nú sem Pétur postuli vill. Ætla eg þó að betra væri að eg kæmi eigi út aftur."

Segja það menn að fáar mílur gekk hann þaðan frá áður hann missti auga síns af verk en andaðist síðan.

Eftir það fór Brandur til Haralds konungs Sigurðarsonar og var með honum og svo Hallur Ótryggsson. Hann var með honum austur í Gautlandi er Haraldur konungur barðist við Hákon jarl Ívarsson. Og er Haraldur konungur vildi á brott þá fraus skip hans inni og hjuggu menn þá ísinn milli skipanna.

Þá mælti Haraldur konungur: "Engi höggur sterklegar ísinn en hann Koðránsbani."

Maður er nefndur Þormóður og var Ásgeirsson, frændi Möðruvellinga. Hann var á skipi Magnúss konungssonar og var nýkominn af Íslandi. Sat hann um Hall. Og í því er konungur nefndi Koðránsbana þá hljóp Þormóður að Halli og hjó hann banahögg og hljóp síðan á skip Magnúss konungssonar. Haraldur konungur varð reiður mjög og bað leggja að þeim. Og er þeir þröngdust að Þormóði þá brast ísinn undan þeim og drukknuðu margir menn. En Magnús konungsson komst á brott en Þormóði kom hann af landi og létti hann eigi fyrr en hann kom út til Miklagarðs og gekk þar á mála. En þeir konungur og sonur hans sættust síðan.

34. kafli

Brandur fór vestur með Haraldi konungi til Englands. Og er þeir gengu upp í seinasta sinni þá hafði Brandur einn brynstakk en allt annað lið konungs hafði eftir látið brynjur að skipum. Konungur sjálfur átti brynju þá er Emma hét og tók hún á mitt bein og var svo sterk að aldrei festi vopn á. Brandur bauð konungi brynstakk sinn.

Konungur svarar: "Víst ertu góður drengur en haf þú sjálfur brynstakk þinn."

Þar féll Brandur með konungi.

Menn Höskulds komu út á Eyrum og Hárekur. Fóru þeir þaðan norður á fjall um Kjöl en flokkur Eyjólfs Guðmundarsonar var fyrir á leiðinni og sat Eyjólfur þar.

Höskuldur mælti: "Nú er færi til að drepa fjandann" og snýr á rás.

Hárekur hleypur eftir honum og grípur hann í fang sér og mælti: "Stilltu þig vinur. Þetta er ekki færi."

Menn Eyjólfs mæltu: "Verið hefir þú stundum snertibráðari og ríðum eftir þeim."

Eyjólfur svaraði: "Eigi skal eg launa svo guði er hefir á séð vandræði vor."

Og skildu þeir við það.

Oddi Grímsson gekk utan og fór suður og kom sunnan félaus á fund Knúts konungs hins ríka.

Hann gekk fyrir konung, kvaddi hann og mælti: "Féþurfi erum vér herra."

Konungur mælti: "Gefið þeim þrjár merkur silfurs."

Oddi mælti: "Eigi höfum vér fyrr svo ríkjan mann heim sótt og hæfir oss eigi að sjá eigi í mót þessari gjöf og vil eg gefa þér fé."

Konungur mælti: "Þykir þér lítið féið?"

Oddi svarar: "Einum þætti mér það vel gefið herra en vér erum tólf."

"Svo mun og satt vera," sagði konungur, "og gefið þrjár merkur hverjum þeirra."

Þá mælti konungur: "Hvort barðist þessi Oddinn við frændur sína á Íslandi?"

Oddi svarar: "Þar voru þeir menn er mér voru skyldir en eg vægði í móti."

Hann fór út síðan til Íslands og þótti ræsimaður hvar sem hann var.

Hann var faðir Guðmundar er augað stakk úr Katli biskupi. Og svo barst að því að óvinir Guðmundar báru það í eyru Katli þá er hann bjó á Möðruvöllum að hann fífldi konu hans, dóttur Gissurar biskups. Fundust þeir á förnum vegi og veitti Ketill honum tilræði. Varð þó sá munur að Guðmundur varð efri og stakk úr honum augað. Síðan vildi Ketill fram færa mál á hendur honum en síðan urðu nokkurir til að lemja því niður og jókst af því óvirðing. En síðan er Guðmundur varð félaus og þurfti annarra þá bauð Ketill honum til sín og veitti honum meðan hann lifði. Snerist Katli síðan hver hlutur til sóma. En að lyktum var hann til biskups kjörinn og galst honum svo sitt góðræði.

En er Þorsteinn skuldarmaður sem fyrr gátum vér í sögunni varð félaus fór hann til Odda Grímssonar.

Þá mælti Oddi: "Mikið er það um góðan dreng að engi forlög verða. Og þó að þú værir nokkuð mótsnúinn mér og litaðir á mér skallann þá mun eg leggja til með þér."

Síðan fékk hann honum bústað og það með er hann þurfti. Og sýndist það í þessu hver drengur hann var.

En það er að segja frá Háreki að hann fór að finna Skegg-Brodda og mælti: "Forvitni er mér á hversu sterkur þú ert því að mikið er af því sagt. En eg em kallaður aflmaður. Mun eg þó eigi við þér hafa. Vit þú fyrst hvort þú kemur höndum úr höfði mér."

Skegg-Broddi svarar: "Óskylt ætla eg það."

Tók hann þó til og svipti þegar í brott höndum hans. En er hann gekk að Skegg-Brodda þá stóð hann fyrir kyrr og hafði hendur í höfði sér og kom Hárekur þeim hvergi í brott er hann reyndi til. Mátti af því sjá hvor þeirra meiri maður var.

Þá mælti Skegg-Broddi: "Eigi þykir mér þú maður sterkur en drengur góður ertu."