Harðar saga og Hólmverja 1. kafli Á dögum Haralds hins hárfagra byggðist mest Ísland því að menn þoldu eigi ánauð hans og ofríki, einkanlega þeir sem voru stórrar ættar og mikillar lundar en áttu góða kosti og vildu þeir heldur flýja eignir sínar en þola ágang og ójafnað, eigi heldur konungi en öðrum manni. Var einn af þeim Björn gullberi. Hann fór úr Orkadal til Íslands og nam Reykjadal hinn syðra frá Grímsá til Flókadalsár og bjó á Gullberastöðum. Hans synir voru þeir Svarthöfði, Geirmundur, Þjóstólfur, og koma þeir ekki við þessa sögu. Hinn elsti son Bjarnar hét Grímkell. Hann var bæði mikill og sterkur. Björn gullberi gerðist mikill maður fyrir sér og auðigur að fé. Grímkell Bjarnarson bað Rannveigar Þorbjarnardóttur úr Arnarholti, Þorbjörn var bróðir Lýtings, föður Geitis í Krossavík, og fékk hennar og voru ekki lengur ásamt en þrjá vetur og varð hún sóttdauð. Þau áttu eftir dóttur er Þuríður hét. Hún fæddist upp með þeim manni er Sigurður múli hét. Hann bjó undir Felli. Hún var væn kona og hög á hendur og nokkuð harðlynd. Var hún þó vinsæl. 2. kafli Grímkell bjó fyrst suður að Fjöllum skammt frá Ölfusvatni. Þar er nú kallað á Grímkelsstöðum og eru nú sauðahús. Grímkell átti vítt goðorð. Hann var auðigur maður og höfðingi hinn mesti og kallaður ekki um allt jafnaðarmaður. Hann færði bú sitt eftir konu sína dauða til Ölfusvatns því að honum þóttu þar betri landakostir. Hann bjó þar síðan alla stund meðan hann lifði. Hann var kallaður Grímkell goði. Högni hét maður og bjó í Hagavík skammt frá Ölfusvatni. Þorbjörg hét kona hans. Þau áttu dóttur þá er Guðríður hét. Hún var væn kona og vinsæl. Högni var ættsmár og var þó vel að sér en Þorbjörg kona hans var sýnu ættstærri og kom þó vel ásamt með þeim. Högni var vel fjáreigandi. Valbrandur hét maður er bjó á Breiðabólstað í hinum nyrðra Reykjadal. Hann var sonur Valþjófs hins gamla. Torfi hét son Valbrands. Þeir feðgar höfðu goðorð. Torfi var vitur maður og víðfrægur. Þar óx sá maður upp með þeim feðgum er Sigurður hét og var Gunnhildarson. Hann var skyldur Torfa að frændsemi. Hann var kallaður Sigurður Torfafóstri. Hann var hinn efnilegasti maður og ger að sér um flestar íþróttir. Annað barn átti Valbrandur. Það var dóttir er Signý hét. Hana átti Þorgeir úr Miðfelli, son Finns hins auðga Halldórssonar, Högnasonar. Hann var þá andaður er sjá saga gerðist. Grímur hét son þeirra, efnilegur maður og óx upp með móður sinni. Signý bjó á Signýjarstöðum skammt frá Breiðabólstað. Hún var skörungur mikill, skjótorð og skapstór og harðúðig í öllu. Þar óx upp sá maður með henni er Grímur hét. Hann var kallaður Grímur hinn litli. Hann var fóstri Signýjar og mikils háttar maður, skjótlátur og skynjugur um flest. Kollur Kjallaksson bjó þá á Lundi í Reykjardal hinum syðra. Hann var höfðingi mikill. 3. kafli Maður hét Þorvaldur er bjó á Vatnshorni í Skorradal, mikill maður og sterkur. Kona hans hét Þorgríma og var kölluð smíðkona, fjölkunnig mjög. Indriði hét son þeirra, mikill maður og efnilegur. Þorgríma lifði lengur þeirra hjóna. En þá er hún var ekkja orðin bjó hún í Hvammi í Skorradal. Hún gerðist auðig kona og mikil fyrir sér. Það er sagt eitt sumar sem oftar að Grímkell goði reið til þings og einnhvern dag gekk hann frá búð sinni með flokk mikinn manna og til búðar Valbrands og inn í búðina. Valbrandur fagnaði honum vel því að Grímkell var honum kunnigur áður. Setjast þeir niður og tóku tal með sér. Grímkell mælti: "Það er mér gjörla sagt Valbrandur að þú eigir þér dóttur þá er Signý heitir og sé skörungur mikill. Vil eg biðja hennar ef þú vilt gifta mér hana." Valbrandur svarar: "Kunnigt er oss að þú hefir ætt góða og auð fjár og ert sjálfur garpur hinn mesti. Vil eg þessu vel svara." Lýkur þeirra tali svo að Valbrandur fastnar Grímkatli goða Signýju dóttur sína en boð skyldi vera að tvímánuði suður að Ölfusvatni. Torfi Valbrandsson var eigi á þingi. Og er Valbrandur kom heim af þingi sagði hann Torfa syni sínum tíðindin. Torfi svarar: "Alllítils þykja yður verðar mínar tillögur er mig skyldi ekki að spyrja slíku enda þykir mér ekki ráð þetta er þú hefir séð fyrir dóttur þinni jafnvirðulegt sem þér þykir vera. Mun Signýju þetta verða ekki mikið til yndis er maður er bæði gamall og harðráður." Torfi kvað þá vísu: Gift hefir þorna þóftu, þegn nam slíkt að fregna, gamall benhríðar beiðir brynfatla Grímkatli. Auðs nam yndi og blíðu einfeldr Njörun steina. Get eg að gera mun lítið gamalmenni það henni. Spurði Signý nú gjaforð sitt og lét sér fátt um finnast. Og er þau Torfi og Signý systkin finnast lætur hann sér ekki um ráðahag þenna. "Er ást mikil," segir hann, "okkar í millum. Er mér ekki um að þú ráðist úr héraði á burt með fé þitt." Hún svarar: "Eg sé hér gott ráð til bróðir. Bregð þú ekki ráðahag þessum en eg mun handsala þér fé mitt allt á þann hátt að þú skalt gjalda heimanfylgju mína, slíka sem faðir minn hefir á kveðið og mun það víslega tuttugu hundraða munur. Vil eg það gefa þér til vingunar utan gripi mína tvo þá er eg hefi mestar mætur á. Er það annað men mitt hið góða en annað hestur minn Svartfaxi." Torfi lét sér þetta vel líka og mælti þá vel til hennar. 4. kafli Nú búast menn til brúðkaupsferðar. Kollur frá Lundi var boðinn til brúðkaupsins einnhver virðingamestur. Hann báðu þeir feðgar vera fyrir boðsmönnum því að Valbrandur var svo gamall að hann nennti eigi að fara en Torfi vildi eigi fara. Kollur réðst til ferðar með brúðinni og voru saman þrír tigir manna. Þau gistu að Þverfelli í Reykjadal hinum syðra. Grímur hinn litli fóstri Signýjar skyldi geyma hrossa á gistingunni og um morguninn er hann leitaði fann hann eigi Svartfaxa, hest Signýjar. Grímur fór þá að leita norður yfir háls til Flókadals. Gekk hann eftir döggslóð. Hann fann hestinn dauðan í jarðfalli þar í dalnum. Hann tók af fjötur er hann hafði haft á honum um nóttina og fór síðan aftur og segir Signýju að hestur hennar var dauður hinn góði og hversu til hafði borið. Hún svarar: "Þetta er ill furða og mun eigi gott á vita. Vil eg aftur hverfa og ekki fara lengra." Kollur kvað það ógeranda og ei duga að bregða ferð sinni þvílíkri fyrir þessa sök. Og svo varð að vera sem Kollur vildi og fara þau öll saman og koma þau til Ölfusvatns og hafði Grímkell þar margt fyrirboðsmanna. Var þar veisla hin prýðilegasta. Fór hún vel fram og skörulega. Eftir afliðna veisluna fór Kollur í burt og aðrir boðsmenn en Signý var þar eftir og fóstra hennar er Þórdís hét og Grímur hinn litli. Grímkell hafði gefið Koll góðar gjafir og talaði vináttusamlega við hann en þótti þeir feðgar sýnt óvirða sitt mál er þeir sóttu eigi brúðkaupið. Spurði hann og vísuna Torfa og gat ekki að gert. Gerðist þar nú fátt á milli. Grímkell var stirðlyndur en Signý var fálát og varð fátt um með þeim því að þau máttu ekki vini saman eiga, nema Grímur hinn litli, hann gat svo gert að þeim báðum líkaði vel. Leið svo fram hið fyrsta ár. 5. kafli Grímur hinn litli kom að máli við Signýju um vorið. Segist hann vilja á burt fara. "Þykir mér vant ykkar á milli að ganga," segir hann, "enda er svo best að skilja að hvorumtveggjum getist vel að." Signý mælti: "Tala þú þetta fyrst við Grímkel og haf hans ráð við því að þá muntu fá betri kosti en eg vildi gjarna að þú hefðir góða kosti en mér virðist hann vera vel til þín." Nú gerir Grímur svo að hann talar við bónda, segist vilja í burtu fara ef hann vill það samþykkja. Grímkell svarar: "Það er ráð mitt að þú sért heima. Skaltu og hafa betri kosti en áður því að mjög þarftu við Signýjar en við þurfum þín mjög til umbóta skapsmuna okkarra." Og svo gerði Grímur að hann var heima þau misseri og gast þeim báðum vel að honum. En um vorið eftir talaði Grímur við bónda að hann vildi fyrir víst á burtu en Grímkell mælti heldur á móti. "Þá bið þú Guðríðar Högnadóttur til handa mér," segir Grímur, "ef þú vilt að eg sé hjá þér." Grímkell svarar: "Dýr gerist þú nú því að hér er mannamunur mikill. Þú ert félítill en Högni er auðmaður mikill." Grímur mælti: "Vel máttu þó þessu ráða." Grímkell svarar: "Prófa má eg þetta." Hann fer nú í Hagavík og er honum þar vel fagnað. Hann biður nú Guðríðar til handa Grími. "Er það frá manni að segja að hann er vitur maður og vel að íþróttum búinn. Mun hann og vera þarfur búi og miklu á leið koma, því er þar hentar til, en þú tekur fast að eldast og sýnist mér þér slík mægð hentug." Högni svarar: "Oft hefir þú leitað mér meiri virðingar en svo nokkuð en þær mæðgur skulu hér mestu um ráða." Grímkell kvað þau skyldu ekki mikið fé þurfa fram að leggja. "Skal hér og ekki ríkara við liggja en þú skalt sjálfur ráða dóttur þinni fyrir mér en vel segir mér hugur um Grím að hann verður nytjamaður." Eigi þarf hér langt um að tala. Það verður að lyktum máls þeirra að Grímur fær Guðríðar. Var boð þeirra að Ölfusvatni og fór það vel fram. Voru samfarir þeirra góðar. Voru þau þar um veturinn og gast þar hvorum að vel við aðra. En um vorið vildu þau Grímur á burt fara. Sagði hann Signýju en hún bað hann segja til Grímkels og kvað þá mundu allt best fara ef hann léti Grímkel ráða. Nú vekur hann til við bónda að hann vill í burt fara. Grímkell svarar: "Það ætla eg nú ráð að gera þér þetta hallkvæmt og láta þig þessu ráða því að það er líklegt að þú verðir þrifamaður." Grímur keypti þá land suður frá Kluftum er hann kallaði á Grímsstöðum og bjó þar síðan. Grímkell fékk öll búsefni Grími en Högni galt fyrir landið. Grímur rakaði brátt fé saman. Voru tvö höfuð á hvívetna því er hann átti. Var hann skjótt hafður í hinni bestu bóndatölu. 6. kafli Það er sagt að Signýju Valbrandsdóttur dreymdi draum einn. Hún þóttist sjá tré eitt mikið í rekkju þeirra Grímkels, fagurt mjög og svo rótmikið að í öll húsin heima þar á bænum tóku rætur trésins en ekki þótti henni blómið svo mikið á vera sem hún vildi. Hún sagði drauminn Þórdísi fóstru sinni en hún réð svo að þau Grímkell mundu barn eiga og mundi það vera mikið og virðulegt. Kveðst hún hyggja það svein vera "og mun mörgum þykja mikils um hann vert sakir framkvæmdar sinnar en ekki kæmi mér það á óvart þó að eigi stæði hans hagur með hinum mesta blóma áður lúki, sakir þess að þér þótti tréið það hið mikla eigi með svo miklum blóma sem þú vildir. Og ekki er víst að hann hafi mikið ástríki af flestum frændum sínum." 7. kafli Litlu síðar fæddi Signý sveinbarn. Sá var Hörður nefndur. Hann var snemma mikill vexti og vænn að áliti en ekki dálega bráðger fyrst í því að hann gekk eigi einn saman þá er hann var þrevetur að aldri. Þetta þótti mönnum kynlegt og eigi bráðgervilegt svo sem hann var frágerðamaður að öllu öðru. Og þann dag er hofhelgi var haldin að Ölfusvatni, því að Grímkell var blótmaður mikill, sat Signý á stóli sínum á miðju stofugólfi. Bjóst hún þá um og lá men hennar hið góða í knjám henni. Sveinninn Hörður stóð við stokk og gekk nú hið fyrsta sinni frá stokkinum og til móður sinnar og rasaði að knjám henni. Menið hraut á gólfið fram og brast í sundur í þrjá hluti. Signý reiddist mjög og mælti: "Ill varð þín ganga hin fyrsta og munu hér margar illar eftir fara og mun þó verst hin síðasta." Hún kvað vísu: Braut í sundur fyrir sætu Sírnis hljóða men góða. Ýta trú eg að engi bæti auðar hlíði það síðan. Gangr varð ei góður hins unga gulls lystis hinn fyrsti. Hverr mun héðan af verri. Hneppstur mun þó hinn efsti. Grímkell kom í því í stofuna og heyrði hvað hún kvað. Hann greip upp sveininn þegjandi og reiddist mjög þessum orðum og kvað vísu: Auðs hefir átta beiðir ógóða sér móður. Hann nam fyrst að finna fljóðs nýgenginn jóða bræðiorð þau er beiðir brennusjós mun kenna. Atkvæði lifa lýða lengur en nokkur drengja. Svo var Grímkell reiður orðinn að hann vildi eigi að sveinninn væri heima þar. Hann fer og hittir Grím og Guðríði og biður þau taka við Herði og fæða hann þar upp. Þau kváðust það gjarna vilja og tóku fegin við og þótti góð sending í vera. Einum vetri fyrr höfðu þau Grímur og Guðríður son átt er þau létu Geir heita. Hann var snemma mikill og vænlegur og vel að íþróttum búinn, þess að hann skorti þó um allt við Hörð. Uxu þeir nú upp báðir samt og varð skjótt ástúðigt með þeim. Signý undi nú verr eftir þetta en áður og var nú sýnu færra með þeim Grímkatli en fyrr. Enn dreymdi hana draum að hún sæi tré eitt mikið sem fyrr, í rótum mest, limamargt og gerði á blóm mikið. Þann draum réð fóstra hennar enn til barngetnaðar þeirra á milli og mundi vera dóttir og lifa eftir ætt stór er henni sýndist limamargt tréið "en þar er þér þótti það bera blóma mikinn mun merkja siðaskipti það er koma mun og mun hennar afkvæmi hafa þá trú sem þá er boðin og mun sú betri." 8. kafli Eftir þing um sumarið bað Signý Grímkel að hann leyfði henni að fara norður til frænda sinna. Hann kveðst það mundu leyfa henni en sagði að hún skyldi eigi vera lengur en hálfan mánuð. Tveir húskarlar fóru með henni og Þórdís fóstra hennar. Þau riðu norður í Reykjadal. Torfi tók allvel við þeim og bað að hún væri þar um veturinn og þótti ella ástleysi á finnast við sig. Hún kvað sér hálfan mánuð lofað burt að vera en eigi lengur. Torfi kvað ekki á því liggja. Hún lét þá að bæn hans og eggjan. Þau fóru þá heimboðum um veturinn og er þau voru að heimboði niðri í Bæ varð fóstra Signýjar bráðdauð og er jörðuð í Þórdísarholti. Það er skammt frá Bæ. Mikið þótti Signýju þetta, fóru síðan heim á Breiðabólstað. Og litlu síðar fékk Signý sótt þá er hún skyldi léttari verða og horfði þar mjög þunglega um sóttarfar hennar. Torfi talaði við hana, kvað sér illa hug sagt hafa um hennar gjaforð, lét sér og mjög hugstætt til Grímkels alla stund verið hafa. Hún kvað eigi ólíklegt að til mikils drægi um. Hún fæddi meybarn bæði mikið og jóðlegt. Torfi vildi eigi láta vatni ausa barnið fyrr en reiddist um líf Signýjar. Hún andaðist þar þegar á sænginni. Þá gerði Torfi sig svo reiðan að hann vildi láta barnið út bera. Hann bað Sigurð fóstra sinn taka við barninu og fara með það til Reykjadalsár og tortíma því þar. Sigurður kvað þetta allilla gert vera en nennti þó eigi að synja Torfa þessa. Sigurður tók nú við barninu og fór vegar síns. Honum sýndist vænlegt barnið og því nennti hann eigi að kasta því út á ána. Hann snýr nú upp til Signýjarstaða og leggur þar niður barnið í garðshliði og þótti líklegt að það mundi brátt finnast. Grímur bóndi stóð úti undir húsgafli, Signýjarson. Hann sá þetta, gengur til og tekur upp barnið og hefir heim með sér og lætur Helgu konu sína bregðast sjúka og segja hana hafa fædda mey þessa. Hann lét ausa vatni og nefndi Þorbjörgu. Grímur fór heiman til Breiðabólstaðar. Hann sá margt manna fara úr garði. Þar var fylgt líki Signýjar til graftar. Torfi sagði Grími andlát móður sinnar "og vil eg lúka þér öll en þó ættum vér Grímkatli að gjalda það fé en vér viljum þó allvel til þín gera." Grímur kvað hann vel segja. Síðan jörðuðu þeir Signýju og gengu frá síðan. Nú finnast þeir Sigurður og Grímur. Segist Sigurður vita að Torfi mun leggja reiði á hann þegar hann veit að hann hefir líf gefið barninu. "Eg kann þar ráð til," segir Grímur. "Eg skal koma þér utan og launa þér svo það happ að þig henti." Og svo gerði hann. Sendi hann Sigurð suður á Eyrar og fékk honum tvo hesta og voru klyfjar á öðrum. Þar fór hann utan. Annan dag eftir kom Torfi til Signýjarstaða og spurði hví Helga lægi því að hann vissi ekki von vanheilsu hennar. Hann kenndi nú barnið hjá henni og mælti: "Allmikil dirfð er í slíku er þið þorið upp að fæða barn það er eg lét út bera." Helga svarar: "Allnáið var barn þetta Grími og var vorkunn á þótt hann byrgi því." Þá spurði Torfi hvar Grímur væri. Hún kvað hann genginn til verkmanna. Þangað fór Torfi og hitti Grím. Lét Torfi hið versta og kvað Grím firna djarfan verða sér og spurði hvað hann vissi til Sigurðar, kvað hann ills verðan fyrir það að hann hafði rofið skipan hans, lét Grímkel maklegan þvílíkrar svívirðingar frá sér. Grímur kveðst hafa sent Sigurð vestur í fjörðu til skips. Torfi varð reiður við það. Hann tók meyna og nennti eigi að láta drepa hana því að það var morð kallað að drepa börn frá því er þau voru vatni ausin. Hann hefir meyna heim og selur til fósturs ambátt nokkurri og ekki fékk hann henni til klæða og ekki vildi hann taka af verkum ambáttarinnar. 9. kafli Sigmundur hét maður. Hann gekk yfir á húsgang og kona hans og sonur er Helgi hét. Oftast voru þau í gestahúsi þar sem þau komu nema Sigmundur væri inni til skemmtanar. Þetta hið sama haust komu þau Sigmundur til Breiðabólstaðar. Tók Torfi vel við þeim og mælti til þeirra: "Ekki skuluð þið í gestahúsi vera því að mér líst vel á þig Sigmundur og heldur gæfusamlega." Hann svarar: "Ekki mundi þér það missýnast þó að það væri að þér sýndist svo." Torfi kveðst mundu gera sæmd til hans "því að eg mun þiggja að þér barnfóstur." Sigmundur svarar: "Er okkar sá mannamunur þó að eg fóstri þér barn því að það er talað að sá sé minni maður er öðrum fóstrar barn." Torfi mælti: "Þú skalt færa meyna til Ölfusvatns." Þessu játar Sigmundur. Tekur hann nú við Þorbjörgu og bindur hana á bak sér og fer á burt síðan. Þetta þóttist Torfi gera allt til svívirðingar við Grímkel en þótti þessi maður vel fallinn til að bera meyna á rekning. Vildi hann og ekki hætta hér betra manni til en Sigmundi því að honum þótti engis örvænt fyrir Grímkatli ef sá maður hefði fært honum barnið að honum hefði nokkur hefnd í þótt. Sigmundi varð nú gott til gistingarstaða því að allir þóttust skyldir að gera vel við meyna og þá sem með henni fóru hvar sem hún kom og því vildi Sigmundur fara hinn lengsta veg. Hann fór út um Andakíl og Melahverfi og allt hið ytra um Nes öll en utan um Grindavík og Ölfus. Að aftni eins dags komu þau Sigmundur til Ölfusvatns. Var Sigmundur votur og frosinn mjög. Hann settist utarlega en Grímkell sat í rúmi sínu og hafði sverð um kné sér. Hann spurði hvað komið væri. Sigmundur svarar: "Hér er kominn Sigmundur barnfóstri þinn bóndi sæll og Þorbjörg dóttir þín. Er hún allra barna best." Grímkell mælti: "Heyrið hvað göngumaðurinn segir. Þú mundir vera barnfóstri minn allra stafkarla armastur. Og eigi er eins konar fjandskapur Torfa við mig. Deyddi hann fyrst móðurina en rak nú barnið á húsgang." Grímkell kvað þá vísu: Trauður var ei Torfi að deyða tvinna skorð og borða. Hann gerir hróp að sönnu hjörlestis í því flestu. Sendi sviptir branda silfurkers Gná þessa á rekning að röngu, raun er mál að launa. Alla vissi Grímkell ráðagerð Torfa og því vildi hann ekki að mærin væri þar eftir. Grímkell bað Sigmund dragast á burt sem skjótast nema hann vildi vera lamdur og bíða svo hins verra. Þau urðu nú þegar á burt að fara með meyna. Þau fóru um Grímsnes og um Laugardal og lögðu nú órækt á barnið því að þau þóttust eigi vita að þau mundu því nokkurn tíma af hendi koma. Þeim varð nú illt til gistingarstaða. Þóttist Sigmundur nú yfir flugu ginið hafa er hann tók við meynni af Torfa. Þau komu til Grímsstaða einn dag til dögurðar. Segja þau Grími að þau fóru með ungt barn. Grímur kveðst sjá vilja barn það hið unga "er menn gera nú mest orð á." Sigmundur kvað mikið fyrir að leysa upp barnið en sagði það þó ekki gott mundu að hugga eftir. Grímur kvað ekki skyldu að því gaum gefa. Var barnið nú upp leyst og sýnt Grími. Hann mælti þá: "Þetta er sannlega barn Signýjar, hennar hefir augun, og mundi hún það ætla mér að eg mundi eigi láta með húsum ganga barn hennar ef eg mætti að gera. En mikla skömm vill Torfi gera öllum frændum barns þessa og jafnvel sjálfum sér. Nú mun eg Sigmundur taka af þér barn þetta og þenna ómaga." Hann varð því allfeginn. Þar voru þau þann dag en fóru síðan ofan Botnsheiði. Þess gátu margir að Grímur mundi sig í hættu hafa við Grímkel goða um þetta mál sakir ofurkapps hans. 10. kafli Um fardagaskeið reið Grímkell goði heiman út í Ölfus um Hjalla en utan um Arnarbæli og upp eftir Flóa í Oddgeirshóla, þaðan í Grímsnes og gisti í Laugardal og svo heim. Hann stefndi öllum bændum á sinn fund til Miðfells, þeim sem þá hafði hann hitt, á tveggja nátta fresti því að Grímkell hafði goðorð yfir þessum sveitum öllum. Til Miðfells komu sex tigir þingmanna hans. Grímkell segir þeim nauðsynjamál sitt við Torfa og kveðst ætla að fara stefnuför til Torfa. Öllum þótti það vorkunn. Þeir riðu um Gjábakka, svo til Klufta og um Ok, svo hina neðri leið ofan hjá Augastöðum og svo á Breiðabólstað. Torfi var eigi heima og var farinn upp í Hvítársíðu. Grímkell stefndi Torfa um fjörráð við Þorbjörgu og um heimanfylgju Signýjar. Hann stefndi málunum til alþingis og reið heim síðan og var nú fátt fjölræðara en um mál þeirra Grímkels og Torfa. En er Grímur hinn litli spyr þetta, fer hann heiman út í Reykjavík á fund Þorkels mána lögsögumanns. Þeim varð talað um mál þeirra Grímkels og Torfa. Spyr Grímur hvað hann ætli hvern enda eiga muni með þeim. Honum kveðst þykja horfa óvænlega þar sem kappgjarnir áttu hlut í. Grímur mælti: "Gjarna vildi eg að þú ættir hlut að sættum með þeim því að þú ert bæði vitur og góðgjarn." Þorkell svarar: "Vel fer þér eftirleitin og góðmannlega og í því skal eg heldur hlut eiga að þeir sættist." Grímur mælti: "Eg vil gefa þér fé til þess að þú sættir þá." Hann hellti í kné honum hundraði silfurs og þakkaði honum heit sín er hann ætlaði að sætta þá. Þorkell kvað honum vel fara "en skil þú það að eg vænti þér sættinni en eg heit eigi." Grímur svarar: "Það er meira vert er þú væntir en þótt flestir menn aðrir heiti til fulls." Grímur fór á burt eftir þetta. Líður nú framan til þings. Koma þá hvorirtveggju mjög fjölmennir. Grímur var á þingi. Hann fór að hitta Þorkel mána og bað hann leita um sættir, kvað hann mundu fá af því mikinn sóma ef hann gæti sætt þá höfðingjana. Þorkell gerði nú svo. Hann fór fyrst að finna Grímkel goða og vakti til við hann um málin. Grímkell svarar: "Það er skjótt að segja að um öll skipti vor jafnsaman og fjandskap Torfa við mig. Vil eg engis gerð á hafa nema mína sjálfs nema því aðeins að það sé skilið undir niðri að hann gjaldi eigi minna en tólf hundruð þriggja álna aura." Þorkell bauð þá að gera um með þeim "en sjá megið þið hvað er við liggur en er ber ófriður ef þið sættist eigi en vér munum þeim veita er meir gerir að vorum orðum og vor orð vilja nokkurs virða. Og er það meira vert en það sem hér stendur á milli." Grímkell mælti þá: "Því játa eg að Þorkell dæmi um málið. Hann er kunnigur að allri réttvísi." Nú sér Torfi að þetta eitt hæfir, segist nú og þessu játa. Þorkell mælti: "Það er mín ummæli og gerð að Torfi greiði Grímkatli sex hundruð þriggja álna aura og leigi sex vetur og gjaldi þá tólf hundruð." Lést þá hafa gert sem honum sýndist réttlegast. Grímkell svarar: "Líka mun eg láta mér þessa gerð með því að eg hefi sjálfur undir lagið en minnkað þykir mér allmjög málin. Skal þetta fé eiga Hörður son minn og hafa það í móðurarf sinn." Torfi kveðst eigi mundu gjalda Herði þetta fé nema hann yrði eigi verrfeðrungur. Grímkell kvað eigi það víst vita mega hversu það vildi verða en kveðst Herði engi bót í því þótt almælið sannaðist það að móðurbræðrum yrðu menn líkastir "því að þú ert eigi einhamur og þætti mér honum verra en eigi að hafa það af þér." Þá varð óp mikið. Illa líkaði hvorumtveggja gerðin og var þó haldin að kalla. Liðu af þau misseri og önnur til. Þá bað Grímkell sér konu, Sigríðar Þorbjarnardóttur af Skálmarnesi. Var því máli vel svarað því að maður þótti göfugur og ættstór þó að hann væri nokkuð hnignandi. Var hún honum gefin. Var boð þeirra að Ölfusvatni heima að Grímkels. Fór það vel fram og skörulega. Þeirra samfarir voru allgóðar. Sat Grímkell nú um kyrrt. 11. kafli Illugi hét maður er bjó að Hólmi á Akranesi. Hann var son Hrólfs hins geitlenska, Úlfssonar, Grímssonar hins háleyska. Bróðir Illuga var Sölvi, faðir Þórðar, föður Magnúss prests í Reykjaholti. Systir Illuga var Halldóra er átti Gissur hvíti, móðir Vilborgar, móður Jórunnar, móður Guðrúnar, móður Einars, föður Magnúss biskups. Illugi var mikill maður og sterkur og hafði auð fjár. Hann fór til Ölfusvatns bónorðsför og bað Þuríðar dóttur Grímkels er hann átti við hinni fyrstu konu sinni. Grímkell tók þessu vel því að honum var Illugi kunnigur. Fóru þar festar fram. Eigi var Hörður hjá þessu kaupi. Að tvímánuði skyldi brúðlaupið vera heima að Ölfusvatni. En er kom að þeirri stefnu bjóst Illugi heiman við þrjá tigu manna til brúðlaupsins. Með honum var Þorsteinn öxnabroddur úr Saurbæ, mikill bóndi, og Þormóður úr Brekku af Hvalfjarðarströnd. Þeir fóru yfir fjörð til Kjalarness og fyrir norðan Mosfell og svo upp hjá Vilborgarkeldu, þaðan til Jórukleifar og svo til Hagavíkur og svo heim til Ölfusvatns og komu snemma dags. Illugi mælti: "Hvar er Hörður er eg sé hann eigi eða er honum ekki boðið?" Grímkell kvað honum vera sjálfboðið "en ekki hefi eg nefnt hann sérlega til þess." Illugi svarar: "Það samir þó eigi." Hann ríður á Grímsstaði. Þar voru aftur hurðir. Þeir drápu á dyr. Geir gekk til hurðar og spurði hverjir komnir væru. Illugi segir til sín og spurði að Herði. Geir kvað hann vera inni. Illugi mælti: "Bið þú hann út koma því að eg vil finna hann." Geir gekk inn og kom út, sagði Hörð liggja og vera sjúkan. Illugi gekk inn því að Hörður vildi eigi út ganga. Illugi mælti: "Með hverju móti er sótt þín Hörður?" Hann kvað vera ekki mikla. Illugi mælti: "Gjarna vildi eg að þú færir til boðs míns með mér og legðir vináttu til mín." Hörður kvað hann þetta hafa mátt fyrr mæla ef honum þætti allmikið undir: "Vil eg hvergi fara því að lítt hafið þér mig að þessum málum kvatt." Illugi fær ekki af Herði utan stór orð. Hann ríður á burt við svo búið. Litlu síðar mælti Geir til Harðar: "Það er meiri sómi að við förum til boðsins. Mun eg sækja okkur hross." Hörður kvað sér ekki um. Geir mælti: "Ger að bæn minni en að sóma þínum." Hörður gerði nú svo. Ríða þeir þá eftir þeim. Og er þeir fundust varð Illugi allkátur og lét ekki á sér finna stóryrði Harðar. Þeir riðu nú til boðsins og var þar vel við þeim tekið. Hörður sat á aðra hönd Illuga. Veislan fór vel fram og skörulega. Riðu þeir allir samt frá boðinu allt til Vilborgarkeldu. Þar skildust götur. Þá mælti Illugi: "Nú munum við Hörður hér skiljast og vildi eg að vingott væri með okkur og hér er skjöldur er eg vil gefa þér." Hörður svarar: "Ærnar á Grímur fóstri minn flagspildur" og kvað vísu: Skjöld gaf mér hinn mildi málmrjóður og ei góðan. Hann mun þurfa þenna þegn í Hildar regni. Eigi hann sjálfur hinn svinni sinn grip, er ann minni Auði urðþvengs hlíðar, eiðs og hringa meiðir. Illugi mælti þá: "Þigg þú þá hring þenna að mér til vinganar þótt þú viljir eigi skjöldinn." Hörður tók við hringnum. Var það góður gripur. "Eigi veit eg," segir Hörður, "því mér býður það í hug að þú munir eigi vel halda mágsemd við mig en þó mun það síðar reynast." Síðan skildu þeir og varð fátt um kveðjur en skildust þó sáttir að sinni. En er Hörður kom heim þá mælti hann við Þorbjörgu: "Þér vil eg gefa hring þenna er Illugi gaf mér því að eg ann þér mest allra manna en þú mun þessa gjöf eftir mig dauðan því að eg veit að þú munt lifa lengur en eg. Þorbjörg svarar og kvað þetta: Verðir þú, svo eg viti gjörla, vopnum veginn eða í val fallinn, þeim skulu manni mín að sönnu biturleg ráð að bana verða. Þá var Hörður tólf vetra er hér var komið sögunni. Hann var þá jafn um afl hinum sterkustum mönnum þar í sveitum. Leið nú svo fram þar til er Geir var sextán vetra gamall en Hörður fimmtán. Hann var þá höfði öllu hærri en aðrir menn flestir. Honum mátti öngvar sjónhverfingar gera í augum því að hann sá allt eftir því sem var. Hann var hærður manna best og rammur að afli, syndur manna best og um alla hluti vel að íþróttum búinn. Hann var hvítur á hörund en bleikur á hár. Hann var breiðleitur og þykkleitur, liður á nefi, bláeygur og snareygur og nokkuð opineygur, herðibreiður, miðmjór, þykkur undir höndina, útlimasmár og að öllu vel vaxinn. Geir var nokkuru ósterkari en þó voru þá nálega öngvir hans jafningjar. Hann var hinn mesti íþróttamaður þótt hann kæmist ei til jafns við Hörð. 12. kafli Það sama sumar kom skip af hafi á Eyrar. Það átti sá maður er Brynjólfur hét Þorbjarnarson Grjótgarðssonar, víkverskur maður. Þeir voru þrír tigir manna á skipi. Þeir komu út fyrir þing. Brynjólfur reið til þings og var í búð Grímkels goða. Oft mælti hann það að honum væri forvitni á að sjá Hörð "því að mér er mikið sagt," segir hann, "frá vænleik hans og atgervi." Það bar nú og svo til að Hörður kom á þing og þeir Geir báðir því að þeir skildu aldrei. Furðu ástúðigt var með þeim fóstbræðrum því að þá skildi á hvorki orð né verk. Þeir Brynjólfur hittast nú. Féll vel á með þeim. Sagði Brynjólfur að ekki væri ofsögum sagt frá Herði um vöxt hans og vænleik. "Sýnist mér þér Hörður," segir Brynjólfur, "muni vera vel hent að fara utan og vera á hendi tignum mönnum. Vil eg vingast við þig og gefa þér hálft skipið við mig." Hörður mælti: "Mikið tekst þú á hendur við ókunnan mann en þó vil eg þessum þínum málum vel svara og heita þó eigi í burt að fara fyrr en eg veit fararefni mín því að enn eru lítil að svo búnu." Geir mælti: "Slíkt er vel boðið fóstbróðir og vænlegt ráð sýnist mér þetta vera. Vil eg þessa fýsandi vera." Hörður mælti: "Ekki nenni eg að biðja Grímkel tillaga." Geir bað hann eigi það gera "því að hann ann þér mikið. Nú vildi eg að þú værir einfeldur í þessum ráðum og það annað að þú tækir það með þökkum er Brynjólfur býður þér." Nú fara þeir heim af þingi. Og er Hörður kom heim sagði hann Þorbjörgu systur sinni. Hún kvað Brynjólf góðan dreng mundu vera. Geir fýsti þá enn utanferðar. "Vildi eg," segir hann, "að þú tækir Helga Sigmundarson þér til þjónustumanns." Þorbjörg svarar: "Letjandi vil eg þess vera því að mér sýnist ógæfufullt allt lið Sigmundar. Mun mér aldrei sá harmur úr brjósti ganga er eg hefi af því fengið er þau báru mig á húsgang." Hörður svarar: "Lítið er mér um Helga því að oss hefir hin mesta svívirðing af þeim leitt" og kvað vísu: Hinn er mestr í manna minnum hafður, sem eg inni, harmr í Hlakkar stormi hundmargur Þorbjargar, er Sigmundi bauð branda bróðir hennar móður Auði upp að fæða ermvangs á húsgangi. Helgi sækir eftir mjög en Geir flytur mjög hans mál. Það reiðist af áður en létti að Helgi skyldi fara með þeim og sagði Hörður að þeim mundi því þykja nokkuru sýnna misráðið. Eftir þetta beiðir Hörður Grímkel fjár og mælti til sex tiga hundraða og væru í tuttugu hundraða mórend. Grímkell mælti: "Mjög kemur fram í slíku ofsi þinn og ágirni." Hann gekk frá þegjandi. Sigríður kona Grímkels kvað þetta fyrir lof hafa "því að þessu nærri mun sú vera sem hann hefir ætlað sér til kaupa." Þeir gerðu nú svo, færðu vöruna alla undir Fell til Sigurðar múla, fóru síðan utan með Brynjólfi þegar um sumarið og komu við Björgvin heilu skipi. 13. kafli Haraldur konungur gráfeldur réð þá fyrir Noregi. Þeir leituðu sér skjótt skemmuvistar og fengu það með umgangi Brynjólfs því að hann gerði við þá allt hið besta. Það var einn dag er Brynjólfur var riðinn upp á land að Geir gekk einn samt heiman. Hann hafði vararfeld yfir sér. Geir sér þá hvar flokkur manna fór og var einn af þeim í blárri kápu. Þeir finnast skjótt. Spyrja þeir hann að nafni. Geir segir til hið sanna og spyr hverjir þeir eru. Sá kveðst Arnþór heita er fyrir þeim var og vera féhirðir Gunnhildar konungamóður. Þeir föluðu að Geir feldinn en hann vildi eigi selja. Þá greip einn af honum feldinn. Geir stóð eftir og hélt á sverði. Þeir hlógu þá fast og göbbuðu hann og sögðu að landi hefði ei fast haldið feldinum. Hann reiddist þá hvorutveggja gabbi þeirra enda missa feldinn, þrífur hann þá í feldinn og hnykkjast þeir um nokkura stund. Arnþór seilist þá til feldarins og ætlar að hnykkja af honum. Í því brá Geir sverði og hjó á hönd Arnþóri fyrir ofan olboga svo að af tók. Náði hann þá feldinum og fór heim síðan því að þeim varð bilt við hann. Eftir varð honum umgerðin. Þeir tóku til Arnþórs því að hann mæddi blóðrás. Hörður spurði er Geir kom heim því blóð væri á sverði hans. Geir sagði sem farið hafði. Hörður svarar: "Slíkt lá til sem þú gerðir að. Mun nú eigi duga aðgerðalaust." Nú mæddi Arnþór blóðrás og féll hann niður í höndum þeim sem hjá honum voru og dó litlu síðar af blóðrás. Sendir Hörður nú eftir Íslendingum þeim sem þar voru. Þar var Tindur Hallkelsson bróðir Illuga hins svarta. Þeir bregða við skjótt og koma til móts við Hörð og verða saman fjórir og tuttugu. Þá var blásið í bænum og sent eftir konungi og sagt að drepinn væri einn konungsmaður. Kemur konungurinn skjótlega og biður þá fram selja Geir "því að hann hefir drepið vin minn en féhirði móður minnar." Hörður svarar: "Það samir oss eigi að selja fram mann vorn undir vopn yður. Viljum vér bjóða þér sjálfdæmi fyrir manninn til þess að Geir hafi lífs grið og lima." Í því kom Brynjólfur heim er þeir töluðu þetta og mælti: "Herra gerið svo vel, takið fé fyrir manninn og virðið til heiður yðvarn en vináttu mína því að margur maður mun lífi týna áður en Geir sé drepinn." Konungur svarar: "Það mun eg gera Brynjólfur fyrir þín orð að sættast við Geir og taka fébætur fyrir mína hönd en ekki fyrir móður mína." Brynjólfur þakkaði honum. Hann galt upp féð allt fyrir Geir og gaf þó konungi góðar gjafir því að hann var vellauðigur að fé og hinn besti drengur. En er konungur var á burt farinn mælti Brynjólfur: "Eigi treysti eg að halda yður hér fyrir Gunnhildi. Vil eg senda yður austur í Víkina á fund Þorbjarnar föður míns til trausts og halds." Hörður svarar: "Þinni forsjá vil eg hlíta því að þú ert góður drengur." Fóru þeir nú skjótlega austur í Víkina. Tók Þorbjörn vel við þeim sakir orðsendingar sonar síns. Voru þeir þar vel haldnir og þóttu vera ágætamenn. Ekki þótti flestum mönnum Helgi bæta um skapsmuni Harðar. Öndverðan vetur kom Brynjólfur austur þangað. Sátu þeir þá allir saman með vinskap. Um vorið talaði Þorbjörn við þá Hörð að hann vill senda þá austur til Gautlands "á fund Haralds jarls vinar míns með skýrum jarteignum því að eg veit að Gunnhildur kemur hér skjótt og get eg þá ekki haldið yður fyrir henni." Hörður kvað þá feðga ráða skyldu. Búa þeir nú skip sitt. 14. kafli Þá er þeir voru búnir skilja þeir fóstbræður og þeir feðgar með mikilli vináttu, halda nú austur til Gautlands, koma á fund Haralds jarls. Tekur hann við þeim vel þegar að hann sér jarteignir Þorbjarnar vinar síns. Jarl átti son er Hróar hét og var hann í hernaði og dóttur er Helga hét, kvenna vænst. Setur Haraldur jarl Hörð hið næsta sér í rúm Hróars sonar síns. Voru þeir þar um sumarið. Að hausti kom Hróar heim úr hernaði. Var honum vel fagnað. Þokar Hörður fyrir Hróari. Skjótt gerist vingott með þeim Herði og Hróari. Leið nú framan til jóla. Og er menn voru komnir í sæti jólakveld hið fyrsta stóð Hróar upp og mælti: "Hér stíg eg á stokk og strengi eg þess heit að eg skal hafa brotið haug Sóta víkings fyrir önnur jól." Jarlinn mælti: "Mikil heitstrenging og muntu eigi verða þér einhlítur að enda því að Sóti var mikið tröll í lífinu en hálfu meira síðan hann var dauður." Hörður stóð þá upp og mælti: "Mun eigi sannlegt að fylgja þínum siðum? Strengi eg þess heit að fara með þér í Sótahaug og eigi fyrr í burtu en þú." Geir strengdi þess heit að fylgja Herði hvort hann vildi þangað fara eða annars staðar og aldrei við hann skilja utan Hörður vildi. Helgi strengdi og þess heit að fylgja Herði og Geir hvert sem þeir færu ef hann kæmist og meta engan meira meðan þeir lifðu báðir. Hörður svarar: "Ekki er víst að okkar verði langt milli og hugsa þú um að eigi standi af þér til beggja okkarra líflát eða þó fleiri manna annarra." "Svo vildi eg að væri," segir Helgi. Jarl var vel til Harðar og kveðst helst vænta þar frama Hróari syni sínum til framkvæmdar sem Hörður væri. 15. kafli En er vor kom bjóst Hróar við tólfta mann til haugs Sóta. Þeir riðu um skóg þykkvan. Og í einhverjum stað sá Hörður hvar lá af skógarbrautinni lítill leynistigur. Hann ríður þenna stig þar til er hann kemur í eitt rjóður. Þar sér hann standa eitt hús bæði mikið og skrautlegt. Maður stóð úti fyrir húsinu í blárendri heklu. Hann heilsar Herði með nafni. Hann tók honum vel og spurði hvað hann hét "því að eg þekki þig ekki þótt þú látir kunnlega við mig." "Björn heiti eg," segir sjá, "og kenndi eg þig þegar eg sá þig og hefi eg þó ekki séð þig fyrri. En vinur var eg frænda þinna og þess skaltu njóta frá mér. Veit eg að þér ætlið að brjóta haug Sóta víkings og mun yður það eigi greitt veita ef þér eruð einir í aktaumum. En ef svo fer sem eg get til að yður vinnist eigi að að brjóta hauginn þá vitja þú mín." Nú skilja þeir. Hörður ríður nú til móts við Hróar. Koma þeir til haugsins snemma dags og taka til að brjóta og komust um kveldið niður að viðum en um morguninn eftir var haugurinn heill sem áður. Svo fór annan dag. Þá reið Hörður til móts við Björn og sagði honum hvar komið var. "Og fór svo," kvað Björn, "sem mig varði því að mér var eigi ókunnigt hvert tröll Sóti var. Nú er hér eitt sverð er eg vil fá þér og stikk þú því í haugsbrotið og vit þá hvort aftur lykst haugurinn eða eigi." Nú fer Hörður aftur til haugsins. Hróar segist þá vilja frá hverfa "og fást eigi við fjanda þenna lengur." Þess fýstu fleiri. Hörður svarar þá: "Eigi dugir það að enda eigi heitstrenging sína. Skulum vér enn til prófa." Hinn þriðja dag fóru þeir til að brjóta hauginn. Komast þeir enn að viðum sem fyrr. Hörður skýtur nú sverðinu Bjarnarnaut í haugsbrotið. Sofa þeir af um nóttina en koma til um morguninn og hafði þar þá ekki að skipast. Hinn fjórða dag brutu þeir langviðu alla en fimmta dag luku þeir frá hurðu. Hörður bað þá menn varast gust þann og ódaun er út legði úr haugnum en hann sjálfur stóð að hurðarbaki á meðan ódaunninn var sem mestur. Þá urðu tveir menn bráðdauðir af fýlu þeirri sem út lagði en þeir höfðu forvitnast um og haft eigi ráð Harðar. Hörður mælti þá: "Hver vill í hauginn ganga? En sá þykir mér eiga sem heit strengdi þess að vinna Sóta." Þagði Hróar þá. En er Hörður sá að enginn var búinn til í hauginn að ganga keyrði hann niður tvo festarhæla. "Nú mun eg," segir hann, "ganga í hauginn ef eg skal eiga þá þrjá gripi er eg kýs úr hauginum." Hróar kveðst þessu játa fyrir sína hönd og það samþykktu allir. Hörður mælti þá: "Það vil eg Geir að þú haldir festi því að þér trúi eg best til." Síðan fór Hörður í hauginn en Geir hélt festi. Ekki fann Hörður fé í haugnum og segir nú Geir að hann vill að hann fari í hauginn með honum og hafi með sér eld og vax "því að hvorttveggja hefir mikla náttúru með sér," segir hann. "Bið þú þá Hróar og Helga geyma festi." Þeir gerðu svo en Geir fór niður í hauginn. Hörður fann hurð um síðir og brutu þeir hana upp. Þá varð landskjálfti mikill og slokknuðu ljósin. Þar varp út ódaun miklum. Þar í afhaugnum var skrimingur lítill sá. Þá sáu þeir skip og fé mikið í. Sóti sat í stafni og var ógurlegur að sjá. Geir stóð í haugsdyrum en Hörður gekk til og vildi taka féið. Þetta kvað Sóti: Hví fýsti þig Hörður að brjóta hús moldbúa þótt Hróar bæði? Hefi eg aldrei hristi blóðorma angur gert ævi minnar. Hörður kvað: Því gerði eg þegn að finna og fornum draug firra auði, og af öllum alræmt orðið, að hvergi muni í heimi öllum verri maður vopnum stýra. Þá spratt Sóti upp og rann á Hörð. Varð þar harður atgangur þess að Hörður varð mjög aflvani. Tók Sóti svo fast að hold Harðar hljóp saman í hnykla. Hörður bað Geir tendra vaxkertið og vita hve Sóta brygði við það. En er ljósið bar yfir Sóta ómætti hann og féll hann niður. Hörður gat þá náð gullhring af hendi Sóta. Það var svo góður gripur að menn segja að enginn gullhringur hafi jafngóður komið til Íslands. En er Sóti missti hringinn kvað hann þetta: Hörður rændi mig hringnum góða. Hálfu síður vildag hans um missa en gervallrar Grana byrðar. Hann skal verða að höfuðbana þér og öllum þeim er eiga. Hörður kvað: Þó hitt eg vissi að haldast mundu öll ummæli eyði góðverka þá skyldi eigi skauð afgömul lengur njóta lægis bríma. "Skaltu það víst vita," segir Sóti, "að sjá hringur skal þér að bana verða og öllum þeim er eiga utan kona eigi." Hörður bað Geir bera að honum ljósið og sjá hve vingjarnlegur hann væri. Og í því steypist Sóti í jörð niður og vildi eigi bíða ljóssins. Skildi svo með þeim. Þeir Hörður tóku kistur allar og báru til festar og fé allt er þeir fundu. Hörður tók sverð og hjálm er Sóti hafði átt og voru hinar mestu gersemar. Þeir kippa nú festinni og urðu þess varir að mennirnir voru á burtu af hauginum. Hörður las sig upp eftir festinni og komst hann út úr hauginum. Geir batt féið í festi en Hörður dró út. Það er að segja frá þeim Hróari og Helga að þá er landskjálftinn varð æddust menn allir þeir er úti voru nema þeir Helgi og Hróar og urðu þeir að halda þeim sem úti voru. En er þeir fundust varð þar fagnafundur. Þóttust þeir þá Geir og Hörð úr helju heimt hafa. Spurði Hróar Hörð að tíðindum en hann kvað vísu: Átti eg ei við léttan auðar hlyn né blauðan, þann var vont að vinna vóm í heiðnum dómi. Veit eg, þá er ljós nam líta, ljót varð ásjón Sóta, vildi geymir galdra greypr í jörðina steypast. Þeir fóru nú á burt með fang sitt. Hvergi fundu þeir Björn og höfðu menn það fyrir satt að Óðinn mundi það verið hafa. Mikið ágæti þótti mönnum Hörður gert hafa í hauggöngunni. Hann talaði þá við Hróar: "Nú þykist eg eiga þá þrjá grípi sem eg kýs." Hróar kvað það satt "og ertu maklegastur að hafa þá." "Þá mun eg," segir Hörður, "kjósa sverð, hring og hjálm." Síðan skiptu þeir fé öllu öðru og urðu allir vel ásáttir. Ekki vildi jarl hafa af fénu þá er þeir buðu honum, kvað Hörð maklegan mest af að hafa. Sitja þeir nú í sóma miklum og voru þar þau misseri. 16. kafli Að vori sagði Hörður að hann vildi til Íslands en jarl, og Hróar, kveðst gjarna vilja að hann færi eigi á burt og þótti þar eigi slíkur maður komið hafa. Hörður mælti: "Gera skal eg ykkur kost á því. Giftið þið mér Helgu jarlsdóttur." Jarl kveðst því mundu vel svara. Þau ráð tókust með samþykki Helgu og Hróars. Hörður unni mikið Helgu konu sinni. Hann hafði þá fé mikið. Þeir lögðu í hernað um sumarið allir fóstbræður, Hörður, Hróar, Geir og Helgi, og höfðu fjögur skip. Stýrði sínu hver þeirra. Varð þeim bæði gott til fjár og frægðar og fóru vel í sínum hernaði. 17. kafli Nú er þar til að taka sem fyrr var frá horfið að Sigurður Torfafóstri fór utan á Eyrum og kom við Noreg og var þar um veturinn. En um sumarið eftir kom hann sér í skip með kaupmönnum og fór suður til Danmerkur. Þá réð þar fyrir Haraldur konungur Gormsson. Kemur Sigurður sér í kærleika við konunginn því að hann reyndist hinn röskvasti maður. Óx honum skjótt bæði fé og metnaður allt þar til er hann kom sér í lið með víkingum og reyndist hinn mesti garpur. Og svo fór fram nokkur sumur og allt þar til að Sigurður varð höfðingi fyrir víkingaliði. Stýrði hann þá sjálfur fimm skipum. Það var eitt sumar að hann sigldi austur fyrir Balagarðssíðu. Og er hann kom að sundum þeim er Svínasund heita þá var kveld komið. Þeir voru þar um nóttina. En um morguninn verða þeir eigi fyrr varir við en þar reru að þeim víkingar á sjö skipum. Þeir spurðu hver fyrir skipunum ætti að ráða. Maður stóð upp í lyfting á einu skipi, bæði mikill og svartur. Sá kveðst heita Björn blásíða og vera son Úlfhéðins Úlfhamssonar, Úlfssonar, Úlfhamssonar hins hamramma, og spurði hver fyrir væri. Sigurður sagði til sín. "Hvort viljið þér heldur ganga á land lausgyrðir en fá oss skip og fé eða viljið þér berjast við oss?" "Það munum vér heldur kjósa að verja fé vort og frelsi og falla heldur með sæmd." Síðan búast við hvorirtveggju. Slær þar í hinn harðasta bardaga. Gengur Sigurður vel fram og þar kemur að hroðin voru öll skip Sigurðar en þrjú af Birni. Þá stendur Sigurður einn uppi og varðist lengi og allt þar til er bornir voru að honum skildir. Var hann þá höndum tekinn og varð hann áður sjö manna bani einn saman. Var þá komið að kveldi dags. Hann var þá bundinn fast á höndum en fjötraður á fótum og fengnir til sex menn að geyma hans um nóttina en hann skyldi höggva að morgni en víkingar lágu allir á landi. Sigurður spurði hverjir skemmta skyldu. Varðmenn kváðu honum óvant um skemmtan "er þú skalt deyja á morgun." "Ekki hræðist eg dauða minn og mun eg kveða yður kvæði ef þér viljið." Þeir kváðust það þiggja mundu. Kveður hann þá svo að þeir sofna allir. Hann velti sér þá þangað að sem öx ein lá. Getur hann þá skorið af höndum sér strenginn og því næst gat hann spyrnt af sér fjötrinum með því móti að af honum gengu bæði hælbeinin. Síðan drepur hann alla varðmennina. Síðan kastar hann sér til sunds og leggst til lands. Gengur hann þá yfir þvert nesið því að hann treystist eigi að glettast við víkingana. Þá sér hann liggja fjögur skip en búðir á landi. Hann gengur djarflega að tjöldunum og var þá morgnað mjög. Hann fréttir hverjir þar væru forráðs. Þeir sögðu að sá héti Hörður er fyrir þeim væri, Hróar og Geir og Helgi, en spurðu í móti hver hann væri. Hann sagði til hið sanna. Gekk hann þá fyrir Hörð og spurðust almæltra tíðinda. Kenndist Hörður skjótt við Sigurð og býður honum til sín. Sigurður kveðst það þekkjast mundu og sagði honum frá svaðilsferðum sínum og bað Hörð rétta hlut sinn við víkingana. Honum þótti það ekki vænlegt en kveðst þó gera skyldu sem hann bæði. Bregða þeir þá við skjótt og ryðja skip sín farminum en bera á grjót í staðinn, róa síðan fram fyrir nesið. En er víkingar verða varir við það búast þeir við og þykjast sakna vinar í stað er Sigurður var í burtu. Slær nú í bardaga með þeim. Ganga þeir fóstbræður hart fram en Sigurður dugði þó ámælislaust. En er leið á daginn ræður Hörður til uppgöngu á skip það er Björn blásíða var á og Geir þegar eftir honum. Gekk með sínu borði hvor og drápu gersamlega hvert mannsbarn fyrir framan siglu. Björn blásíða hleypur þá í móti Herði. Hörður var þá kominn aftur yfir siglu og höggur Björn til Harðar með tvíeggjuðum mæki. Hörður kemur þá þó eigi fyrir skildinum. Stökk hann þá öfugur fram yfir siglubitann en mækirinn kemur svo hart í siglubitann að felur báða eggteina. En er Hörður sér það að Björn lýtur eftir högginu höggur hann bæði hart og skjótt um þverar herðarnar og sundur manninn fyrir neðan bringspalirnar með sverðinu Sótanaut og lét Björn blásíða svo líf sitt. Og er þetta var unnið hafði Geir drepið hvert mannsbarn á skipinu en Hróar hafði hroðið eitt skip og þeir Helgi báðir. Sigurður hafði hroðið eitt skip en víkingar flýðu á hinu fjórða. Tóku þeir Hörður þar herfang mikið, bundu nú sár manna sinna. Sigurður greri svo að honum stóð fyrir öngu. Fylgdi hann Herði alla ævi síðan meðan hann lifði og þótti vera hinn röskvasti maður. Þeir sigldu nú heim til Gautlands um haustið og sátu þar um veturinn í góðu yfirlæti. 18. kafli Geir fýstist nú til Íslands og bað Hörð gefa sér fararleyfi. Hörður bað hann fara sem hann vildi en halda þó vináttu við sig. Helgi var eftir með Herði og Sigurður. Geir fór í burt. Þeim gaf seint byri og komu í Víkina austur og höfðu tjöld á landi. Það fréttir Gunnhildur konungamóðir og sendir menn sína til að drepa Geir. Þeir koma um nótt og berja þeim tjaldkúlur og fella á þá tjöldin. Geir komst einn á brott með vopnum sínum og varð áður níu manna bani. Hann fór þar til er hann kom til Brynjólfs Þorbjarnarsonar en þeir feðgar komu honum í skip og fengu honum fé nokkuð. Það þykir mönnum sem Gunnhildur hafi bannað Geir með fjölkynngi sinni til Noregs. Líkaði henni nú hið versta er Geir komst undan. Létu þeir nú í haf. Geir kom út á Eyrum um sumarið. Þá var andaður Grímur faðir Geirs og svo Högni móðurfaðir hans í Hagavík en þær Guðríður og Þorbjörg varðveittu bú á Grímsstöðum. Geir fór þangað og var þar um veturinn. En um vorið keypti hann land í Neðra-Botni og færði þangað bú sitt og var allgagnsamt. Þangað fór Guðríður og Þorbjörg. 19. kafli Indriði Þorvaldsson og Þorgríma smíðkona gerðu bú í neðanverðum Skorradal þar sem nú heitir á Indriðastöðum en Þorgríma bjó þá í Hvammi, móðir hans, en Þorvaldur var dauður, faðir hans. Það sumar er Geir bjó fyrst í Botni kom út sá maður er Ormur hét á Vikarsskeiði við Þjórsá. Þeir brutu skipið en týndu öllu fénu. Þeir voru fimmtán menn á skipi og fengu engar vistir. Ormur hafði verið fyrir tveim vetrum í Hvítá og þegið vist með Indriða og nú reið Indriði norðan við þriðja mann í móti Ormi og kveðst eigi vilja vita að hann væri ráðlaus. Hann bauð honum heim með sér og öllum skipverjum hans. Ormur játaði því og þakkaði honum boðið. Þeir riðu allir sunnan hjá Bakkárholti um Grafning og Bíldsfell og svo hjá Úlfljótsvatni og þaðan til Ölfusvatns og koma þar í rökkri. Grímkell heilsar þeim en bauð þeim ekki. Indriði biður þá Þorbjargar dóttur Grímkels: "Er þér bóndi kunnigur uppruni minn og svo um fjárhaga mína. Vildi eg vita skjótt svör þín." Grímkell mælti: "Ekki megum vér skjóta því þegar fram og ekki mun það ráðast svo skjótt." Ekki varð af boðum hans við þá. Indriði reið í Hagavík um kveldið. En er þeir voru riðnir mælti Sigríður húsfreyja við Grímkel: "Allkynlega leist þér á þetta að gifta eigi dóttur þína Indriða er oss þykir hinn merkilegasti maður vera og lát ríða eftir þeim og sit eigi fyrir sóma þínum eða dóttur þinnar." Grímkell mælti: "Gerum sem þú vilt." Þá var sent eftir þeim í Hagavík. Riðu þeir aftur með sendimönnum. Grímkell tók nú allvel við þeim. Töluðu þeir nú um málið og var það ráðið að Indriði skal eiga Þorbjörgu og skal hann hafa með henni fjóra tigu hundraða og skyldi þegar vera brúðkaupið að Ölfusvatni. Indriði skyldi sjálfur ábyrgjast hversu þeim líkaði er eigi voru við. Indriði lét þar eftir lið sitt en fór við þriðja mann og sótti Þorbjörgu heim í Botn. Hann fór Jórukleif og svo til Grímsstaða og þaðan Botnsheiði og svo í Botn. Geir var eigi heima. Það mæltu margir menn að Geir mundi viljað hafa átt Þorbjörgu en ekki mælti hún þó í móti þessum málum né að fara með Indriða. Þau fara nú þar til er þau koma til Ölfusvatns. Er þá búið til brúðkaups. Grímkell fór til hofs Þorgerðar hörgabrúðar og vildi mæla fyrir ráðahag þeirra Þorbjargar. En er hann kom í hofið þá voru goðin í busli miklu og burtbúningi af stöllunum. Grímkell mælti: "Hví sætir þetta, eða hvert ætlið þér, eða hvert viljið þér nú heillum snúa?" Þorgerður mælti: "Eigi munum vér til Harðar heillum snúa þar sem hann hefir rænt Sóta bróður minn gullhring sínum hinum góða og gert honum marga skömm aðra. Vil eg þó heldur snúa heillum til Þorbjargar og er yfir henni ljós svo mikið að mig uggir að það skilji með okkur en þú munt eiga skammt ólifað." Gekk hann þá í burt og var reiður mjög goðunum. Hann fór heim eftir eldi og brenndi upp hofið og öll goðin og kvað þau eigi skyldu oftar segja sér harmsögur. Og um kveldið er menn sátu undir borðum varð Grímkell goði bráðdauður og var hann jarðaður suður frá garði. Alla fjárvarðveislu bar undir Indriða og Illuga því að Hörður var eigi hér á landi. Ekki vildi Indriði skipta sér neinu af fjárvarðveislu eftir Grímkel nema heimanfylgju Þorbjargar. Illugi tók við fjárvarðveislu þegar um haustið. En um vorið var skipt fé við Sigríði og hafði hún land að Ölfusvatni og þótti góð húsfreyja. 20. kafli Nokkurum vetrum síðar kom út Hörður Grímkelsson á Eyrum og Helga kona hans og Sigurður Torfafóstri, Helgi Sigmundarson og þrír tigir manna. Þá var Hörður þrjátigi vetra að aldri. Hann hafði þá utan verið fimmtán vetur í einu og orðið gott til fjár bæði og virðingar. Illugi hinn rauði frá Hólmi kom til skips og bauð Herði til sín og öllum hans mönnum og fór sjálfur í móti þeim og gerði allt hið sæmilegasta til þeirra. Hörður tók því vel og þótti stórmannlega boðið. Fór Hörður til Illuga með hálfan þriðja tug manna og var þeim veitt mungát allan veturinn með hinni mestu rausn og líkaði Herði allvel. Illugi bauð honum fé sitt allt það sem hann hafði við tekið. Hörður kvað sér tíðara að heimta fé sitt að Torfa frænda sínum og kveðst mundu fara að finna hann. Síðan fór hann við tólfta mann og kom á Breiðabólstað og hitti Torfa og heimti fé sitt. Torfi kveðst eigi vita glöggt um fjárheimtur þær "því að eg er ekki skyldur til að gjalda þér féið ef þú ert verrfeðrungur." Hörður kvað það enn lítt reynt en lést eftir fénu leita mundu. Síðan reið Hörður á burtu og sagði Illuga er hann kom heim. Illugi bað Hörð vægja "og vænti eg að þá fari betur með ykkur því að Torfi er vitur maður og grimmúðigur." Hörður kvað það fjarri fara skyldu: "Hefir hann ávallt illa til vor gert en aldrei vel. Vil eg þegar fara og láta mönnum safna." Hörður reið og safnaði mönnum um Akranes en Illugi safnaði fyrir neðan og vestan, um Heynes og Garða til Fellsaxlar og um Klafastaði en Hörður fyrir austan Kúludalsá. Þeir riðu upp um Miðfell og svo til Breiðabólstaðar. Torfi var úti og fagnar þeim vel. Illugi leitaði um sættir og kvað þeim vera nauðsyn á að sættast svo nánum mönnum. Torfi lét meiri von að Hörður hefði rétt að tala. "Mun hann og verða mikilmenni," segir hann, "miklu hefir hann skjótara við brugðið. Vil eg unna honum sætta og hér landakostar. Eg mun fá honum í hönd hér með jörðunni þrjá tigu kúa og þrjá tigu hjóna. Mun eg fá allt til bús þessi misseri. Vil eg vita hvað manni hann vill vera. Hann skal ábyrgjast fé það allt er hann tekur við, bæði lönd og kvikfé." Illugi kvað þetta vel boðið og þetta þá Hörður og sættust að því. Þangað fór Hörður búi sínu um vorið og galt Illugi honum fé sín öll. Gagnsamt var bú Harðar. Ól hann gest ganganda. Öngvir urðu til að leita á Hörð enda var hann óáleitinn við aðra. Hann bjó þar tvo vetur. 21. kafli Auður hét maður. Hann bjó á Auðsstöðum gagnvert Uppsölum eða heldur neðar, einrænn maður og auðigur, kynlítill og þó kífinn nokkuð. Sigurður hét son hans. Hann átti merhryssi, móskjótt að lit, tvö. Honum þóttu hrossin góð. Illugi hinn rauði hafði gefið Herði stóðhross fimm saman þá hann fór burt frá Hólmi, svört öll að lit. Þangað vöndust til merar Auðs hinar skjóttu og hlupu í burt úr högum sínum. Illa kveðst Herði það þykja er Auði varð of lítið gagn að hrossum sínum. Fátt varð um frændsemi þeirra Torfa. Ekki kepptu menn mjög við Hörð enda átti hann gott eina við menn. Þá bjó Torfi á Uppsölum. Hann hafði goðorð og þótti ódæll og illur viðskiptis. Annað sumar fór á sömu leið að hross Auðs gengu í burt frá honum og til hrossa Harðar. Hörður bað hann færa hrossin sín yfir fjallið svo að eigi fyndu merar Auðs þau. Svo var gert og fundu þó merar Auðs hrossin. Það bar til um engiverk að Sigurður Auðsson kom heim frá stóðinu og hafði eigi getað náð hrossum sínum. Þá sendi Hörður Helga Sigmundarson til að veita honum lið. Helgi fór með Sigurði og var í illu skapi og kvað Auð einn valda slíkum spennum og ónáðum. En er hann kemur til hrossanna sér hann að sveinninn hefir sært hestinn. Þá mælti hann: "Þú munt vera illt mannsefni og eigi skaltu mörgum góðum gripum spilla héðan af." Hann vó þá sveininn. Litlu síðar kom Hörður að og mælti: "Þú ert illur maður er þú hefir drepið ungmenni eitt og þó saklaust. Væri það maklegt að eg dræpi þig. Nú mun eg ekki því nenna þó að það væri betur að þú lifðir eigi eftir slíkt óverkan. Mun þetta vera upphaf ógæfu þinnar. Er nú það fram komið er mér sagði hugur um og það líkast að svo nokkurneginn beri til að þetta dragi okkur báðum til bana og fleirum öðrum með því öðru sem þá ber til og lagið vill verða." Hörður kastaði þá feldi á líkið og fór síðan heim fyrst. Og þegar litlu síðar fór Hörður til Auðsstaða og þá er Hörður gekk vestan í garð þá gekk Auður norðan í garð. Og er þeir fundust mælti Hörður: "Þar hefir tekist illa og þó í móti mínum vilja er son þinn var drepinn. Nú vil eg selja þér sjálfdæmi og sýna það að mér þykir þetta allilla orðið og lúka þegar upp allt féið. Og munu það flestir tala að þér sé varla von betri málaloka að svo vöxnu máli." Auður svarar: "Nú hefi eg hitt Torfa vin minn og selt honum málið og hefir hann heitið mér að fylgja því til hinna fremstu laga enda mætti eg það allvel sjá að þér kæmuð hart niður Breiðbælingar." Hörður mælti: "Þú hefir það illa gert að rægja okkur Torfa saman og nú skaltu þess gjalda." Hann brá þá sverðinu Sótanaut og hjó Auð sundur í tvo hluti og húskarl hans. Svo var Hörður þá reiður orðinn að hann brenndi bæinn og allt andvirkið og tvær kvinnur er eigi vildu út ganga. En er Torfi spurði þetta kvað hann engan slíks fyrr fýst hafa "að gera slík ódæmaverk við vini mína en þó Hörð eigi gott af eyrum að leiða." Og er hann spurði að Hörður var eigi heima fór hann heiman til Breiðabólstaðar stefnuför og stefndi málunum til alþingis, fór heim síðan. En er Hörður spurði þetta sendi hann Helga suður til Indriða mágs síns og bað hann ríða til þings og svara málum sínum og bjóða sættir. Hann kveðst eigi geta af sér fyrir fjandskap Torfa að bjóða neinar sættir sjálfur. Helgi fór og hitti Indriða og segir honum orð Harðar. Indriði svarar: "Eg hefi heitið Illuga rauða að fara til Kjalarnessþings en bjóða vil eg Herði hingað til mín." Helgi svarar: "Minni nauðsyn mun þér að fara til Kjalarnessþings en að svara fyrir mág þinn jafnröskvan og muntu vera skauð ein." Þorbjörg mælti: "Þetta væri úrlausn nokkur ef dugandi maður færi með erindum en nú kann vera að engi verði. Hefir og þessi ógæfa af þér hlotist." Helgi fór heim og sagði ekki Herði frá heimboðinu Indriða en kvað hann ekki lið honum veita vilja. Herði fannst fátt um og kvað vísu: Minn varð mágur hranna mér, og svo er hann fleirum, eini illr að reyna elds, í málaferlum. Þorgrímu réð heldur heima hvarflaus vera arfi. Oss er stála stýrir stríðr en verri síðar. Og er menn komu til þings og dró að dómum þá spurði Torfi ef nokkur vildi fébótum upp halda fyrir hönd Harðar. "Mun eg," segir hann, "taka fébætur ef nokkur vill bjóða en eigi nenni eg að kasta máli þessu niður undir fætur mér." Engi komu svör á móti og urðu þeir Hörður sekir og Helgi báðir. En er Hörður spurði sekt sína kvað hann vísu: Gera réð geymir stórra gullhringa á alþingi ósa enn að vísu elds fægi útlægan um hyski heiðar þorska og, hjörrunna, miskunnar oss er engi á þessu ótti, grettis sótta. Ekki fundust þeir Torfi þá um sinn. 22. kafli Litlu síðar fór Hörður í Botn með allt sitt til Geirs fóstbróður síns. Hörður brenndi áður öll hús á bænum og svo hey. Hann kvað Torfa lítið þar skyldu féna. Segja það sumir menn að Hörður hafi búið að Uppsölum í þenna tíma en Torfi á Breiðabólstað. Þá hafði Hörður sextán vetur og tuttugu er hann féll í útlegð og hann fór í Botn. Öll hjón hans fóru með honum og fylgdarmenn til Geirs og höfðu þar setu. Það var einn dag að Torfi kvað vísu þessa: Víst mun Torfi treysta tandrauðra Nílsanda, hæðinn höldur að ríði heim í Botn að gotnum. Hreytar get eg að viðurnám veiti. Vargi trú eg að þegnar bjargi ef jafnmargir meiðar törgu mættu finnast hér inni. Þeim varð kostnaðarsamt þau misseri því að minni urðu tilföng en þurfti en Geir gáði nú verr búsýslu en áður. Hjuggust þá upp kvikféin svo að um sumarið eftir fæddi varla búféið fólkið. Um haustið eftir voru upp höggvin öll kvikféin gersamlega utan fáar einar kýr. Og einn morgun um veturinn fyrir jól tók Geir á fótum Helga. Hann stóð upp skjótt og fóru þeir yfir háls til Vatnshorns í Skorradal. Bóndi var eigi heima. Hann var að brúðkaupi á Lundi í Reykjadal að Kolls. Geir mælti: "Nú mun verða að afla til bús þannig sem verða má og skaltu gera annað hvort að halda vörð eða ganga í fjós." Helgi kaus að halda vörð. Geir gekk þá inn í fjósið og leysti upp nautin. Tveir menn voru á heystáli og tefldu og brann þar ljós. Þá mælti annar þeirra: "Hvort eru laus nautin í fjósinu?" Annar þeirra kvað konur mundu valda og hafa eigi bundið nautin. Fer nú annar þeirra utar undir dyrnar. Og er Geir sá það hljóp hann að og vó þann. Og er þeim dvelst er fyrri fór fer annar og er hann kom í hlöðudyr hafði hann slíka för sem hinn fyrri. Vó Geir og þenna. Síðan leiddu þeir á burt yxni sjö vetra gamalt. Og er þeir komu heim í Botn líkaði Herði allilla og kveðst á burt skyldu ef þeir vildu stela. "Þykir mér," segir hann, "miklu ráðlegra að ræna ef eigi má við annað vera." Geir bað hann eigi við sig skilja fyrir þessa sök, "skaltu einn öllu ráða okkar á milli." Og svo var að Hörður fór eigi á burt. En er konur komu í fjós að Vatnshorni þótti þeim undarlegt er naut öll voru laus. Ætluðu þær nautamenn sofa mundu. Bundu þær nautin. En er þær komu að hlöðudurum fundu þær þá þar dauða. Voru þá bónda orð send. Kom hann heim. Var fjölrætt um þenna hlut. Eigi vildi Hörður láta neyta yxnisins fyrr en maður var sendur til Vatnshorns að segja hið sanna um ferðir Geirs. Segja það og nokkurir menn að Hörður muni hafa bætt bónda að Vatnshorni fyrir menn sína og yxni og því muni hann þetta mál ekki síðan kært hafa. 23. kafli Kolgrímur hinn gamli son Álfs hersis úr Þrándheimi bjó á Ferstiklu í þenna tíma. Hann var landnámsmaður. Hans son var Þórhallur, faðir Kolgríms, föður Steins, föður Kvists, föður Kala. Kolgrímur sendi orð Botnverjum að þeir ættu saman knattleika og sköfuleika á Sandi. Þeir játuðu því. Tókust nú upp leikar og héldust fram yfir jól. Gekk þeim Botnverjum oftast verr því að Kolgrímur stillti svo til að Strendir urðu sterkari í leikinum. Mikið lögðu Botnverjar til skó sér er þeir gengu. Oft var þá skorin yxnishúðin til skæða. Þykir mönnum sem Kolgrímur hafi viljað forvitnast um yxnishvarfið og því hafi hann leikana lagið. Þóttist hann þá kenna yxnishúðina á fótum þeim. Voru þeir þá kallaðir yxnismenn. Fengu þeir þá enn harðleikið. Töluðu þeir þá um er þeir komu heim að þeir þættust harðleikið fá og kváðust upp mundu gefa brátt leikana. Hörður mælti hart við þá og kvað eigi þá meðalklækismenn vera ef þeir þyrðu eigi að hefna sín "og eruð þér," segir hann "til illgerða einna búnir." Þá voru þeir komnir til Harðar Þórður köttur og Þorgeir gyrðilskeggi, sekur maður. Nú lét Hörður gera sér hornsköfur um nóttina. Þá voru allir búnir að fara til leiks þegar er Hörður fór þótt áður væru nokkuð stirðir. Önundur Þormóðsson af Brekku var í móti Herði skipaður, vinsæll maður og rammur að afli. Sjá leikur var allharður en áður kveld kæmi lágu dauðir af Strandverjum sex menn en enginn af Botnverjum. Fóru nú heim hvorirtveggju. Önundi fylgdu allir þeir er utan voru af Strönd. En er þeir komu skammt inn frá Brekku þá bað Önundur þá fara fyrir "en eg vil," segir hann, "binda skó minn." Þeir vildu ekki frá honum ganga. Hann settist niður og heldur hart. Í því dó hann og er þar jarðaður. Þar heitir nú Önundarhóll. Ekki voru mál þessi sótt á hönd Herði né hans mönnum. Þorsteinn gullknappur bjó þá á Þyrli, grályndur og undirförull, slægvitur og vel fjáreigandi. En Þorvaldur bláskeggur bjó á Sandi, gildur bóndi og mikill fyrir sér. 24. kafli Refur hét maður Þorsteinsson, Sölmundarsonar, Þórólfssonar smjörs. Hann bjó á Stykkisvelli í Brynjudal. Hann var goðorðsmaður ríkur og garpur mikill. Hann var kallaður síðar meir Refur hinn gamli. Þorbjörg katla hét móðir hans. Hún bjó í Hrísum. Hún var fjölkunnig mjög og hin mesta galdrakona. Kjartan hét bróðir Refs. Hann bjó á Þorbrandsstöðum, mikill maður og sterkur og illa skapi farinn, ójafnaðarmaður um alla hluti. Því var hann furðu óvinsæll af alþýðu manna. Ormur hét maður Hvamm-Þórisson, vinsæll maður og smiður mikill. Þessir menn allir voru í mót Botnverjum. Það spyrja þeir Hörður af þingi um sumarið að menn ætla að safnast saman og drepa þá og þykjast þá sjá, að kvikfé voru höggvin, að þá mundi verða að ræna. Geir bað þá virki gera og kvað þá seint mundu sækjast. Hörður kveðst ætla að þeim mundi matur setinn "og vil eg fara láta í hólm þann er hér liggur fyrir landi á Hvalfirði fyrir Bláskeggsárósi fyrir utan Dögurðarnes. Sá hólmur er sæbrattur og víður sem mikið stöðulgerði." Þangað fóru þeir um þing með allt sitt. Þeir tóku ferju mikla úr Saurbæ frá Þorsteini öxnabrodd til fulltingjar sér en sexæring frá Þormóði af Brekku en selabát ferærðan frá Þorvaldi bláskegg. Þeir gerðu sér skála mikinn og horfði annar endir í landnorður en annar í útsuður og voru dyr á miðjum skálavegg til vesturs. Allt stóð skálinn suður á hamarinn en ganga mátti fyrir norðan milli klifs og dura þeirra sem á gafli voru. Norðan aðeins var þá á gengt en vestur frá skálanum voru leynigrafir. Þau voru lög þeirra að hverjum manni skyldi fyrir bjarg kasta ef þrem náttum lengur lægi. Allir skyldu skyldir að fara hvert sem Hörður vildi eða Geir ef þeir væru sjálfir í för. Skipt var verkum með þeim. Öll voru hús upp tekin í Botni að viðum og flutt út í Hólm. Sá hólmur er nú kallaður Geirshólmur. Tók hann nafn af Geir Grímssyni. Átta tigir manna annars hundraðs voru í Hólmi þá er flestir voru en aldrei færri en á hinum átta tigi þá er fæstir voru. Þessir voru nefndir: Hörður og Helga jarlsdóttir kona hans, Grímkell son þeirra og Björn, hann var tvævetur, Geir og Sigurður Torfafóstri Gunnhildarson, Helgi Sigmundarson, Þórður köttur og Þorgeir gyrðilskeggi. Hann var einn tillagaverstur af öllum Hólmverjum og fýsti allra illvirkja. Þangað drifu nær allir óskilamenn og svörðu eiða þeim Herði og Geir að vera þeim hollir og trúir og hver þeirra öðrum. Þorgeir gyrðilskeggi og Sigurður Torfafóstri fluttu vatn frá Bláskeggsá við tólfta mann og fylltu selabátinn af vatni og helltu í ker það er var út í Hólmi. Leið nú svo fram um hríð. 25. kafli Þorbjörg katla hældist um það að hún kvað aldrei Hólmsverja sér mundu mein gera. Svo treysti hún fjölkynngi sinni. Og er þeir spurðu þetta í Hólm kveðst Geir vilja reyna það og bjóst heiman við tólfta mann eftir þing. Þórður köttur fór með honum en er þeir komu í dalinn sáu þeir að fé var rekið norður um fell er stendur á milli Brynjudals og Botns. Geir lét tvo varðveita ferjuna. Þórður köttur sat á hálsi og hélt vörð. En er Þorbjörg katla kom út varð hún vís af fjölkynngi sinni og framvísi að skip var komið frá Hólmi. Hún sækir þá sveipu sína og veifði upp yfir höfuð sér. Þá gerði myrkur mikið að þeim Geir. Hún sendi þá orð Ref syni sínum að hann safnaði mönnum. Þeir urðu saman fimmtán og komu að Þórði ketti óvörum í myrkrinu og tóku hann höndum og drápu og er hann grafinn í Kattarhöfða neðanverðum. Þeir Geir komust til sjóvar. Þá tók af myrkrið og sáu þeir þá gjörla og réðu þeir Refur til og börðust. Allir menn voru drepnir þeir sem Geir fylgdu en þrír af Ref. Geir komst á skip og svo til Hólms og var sár mjög. Hörður hafði ferð hans mjög í spotti og kvað Kötlu enn ekki hafa í móti tekið. Helga var góður læknir og græddi hún Geir að heilu. Ótti var mönnum í Hólmi að þessu. Og þegar er sár Geirs voru bundin sté Hörður á skip með tólfta mann og fór þegar inn til Brynjudals og kveðst enn vilja reyna Kötlu. Tveir gættu skips en tíu fóru að sækja féið. Katla skók þá enn sveipu sína og gerir orð Ref og kvað nú vera slæg í að hitta Hólmverja "er sá er nú fyrir þeim hinn hárfagri maður er mestur garpur þykist vera." Refur kom við hinn sétta mann. Ekki fal sýn fyrir Herði af göldrum Kötlu og fóru þeir leið sína sem þeir höfðu ætlað og hjuggu á skip sitt til þess er þeir höfðu fullfermt svo að Refur horfði á og hans menn, fluttu síðan út í Hólm og skildi svo með þeim. 26. kafli En er mjög leið á sumarið fór Hörður við fjórða mann og tuttugasta til Saurbæjar því að Þorsteinn öxnabroddur hafði hælst um það að Skroppa fóstra hans fjölkunnig mundi svo geta gert að honum yrði ekki mein að Hólmverjum, með fjölkynngi sinni. Og er þeir komu að landi varðveittu sjö skip á fljóti en sautján gengu upp. Þeir sáu griðung mikinn á melnum upp frá naustum. Þeir vildu glettast við hann en Hörður vildi eigi það. Tveir menn af liði Harðar sneru í móts við griðunginn og brugðu á sitt ráð. Boli brá við hornunum í hvorttveggja sinn. Annar þeirra stefndi á síðuna en annar í höfuðið. Spjótið hvorstveggja fló aftur og fyrir brjóst þeim og höfðu báðir bana. Hörður mælti: "Hafið þér ráð mín því að eigi er hér allt sem sýnist." Nú koma þeir á bæinn. Skroppa var heima og dætur bónda, Helga og Sigríður, en Þorsteinn var í seli í Kúvallardal. Það er í Svínadal. Skroppa lauk upp öllum húsum. Hún gerði sjónhverfingar því að þar sem þær sátu á palli sýndist þeim standa eski þrjú. Menn Harðar töluðu um að þeir vildu brjóta eskin. Hörður bannaði það. Þeir fóru þá norður frá garði og vildu vita ef þeir fyndu fé nokkuð. Nú sáu þeir hvar gyltur ein rann með tveimur grísum norður úr garði. Þeir komust fyrir hana. Þá þóttust þeir sjá mannfjölda mikinn fara á móti sér með spjótum og alvæpni og nú skekur gylta norðan hlustirnar með grísum sínum. Geir mælti: "Förum til skips. Vér munum eiga hér við liðsmun." Hörður kvað hitt ráð að renna eigi svo skjótt að öllu óreyndu. Í því tók Hörður upp stein mikinn og laust gyltina til bana. Og er þeir komu að sáu þeir að þar lá Skroppa dauð en dætur bónda stóðu uppi yfir henni þar að grísirnir höfðu sýnst. Nú sáu þeir þegar að Skroppa var dauð að þetta var nautaflokkur er í móti þeim fór en öngvir menn. Þetta sama fé ráku þeir til skips og drápu og hlóðu ferjuna af slátri. Geir tók á burt Sigríði nauðga og fóru síðan út í Hólm. Skroppa var jörðuð inn frá Saurbæ, á milli og Ferstiklu, í Skroppugili. Þorsteinn gullknappur sat í friði fyrir Hólmverjum því að þeir höfðu sæst á laun að hann skyldi flytja alla einhleypinga í Hólm og segja þeim allar vélar landsmanna. Hann hafði unnið þeim eiða að halda þetta allt og svíkja þá í engu en þeir höfðu heitið honum að ræna þar ekki. 27. kafli Um veturinn fyrir jól fóru þeir tólf saman í Hvamm til Orms á náttarþeli. Ormur var eigi heima. Hann var farinn nokkuð að erindum sínum. Bolli hét þræll hans er annaðist um bú ávallt er Ormur var eigi heima. Þeir brutu upp útibúr og báru út vöru og mat. Þeir tóku kistu Orms er gripir hans voru í og fóru með þetta allt á burtu. Bolla þótti sér illa tekist hafa er eigi var vakað yfir útibúrinu. Hann kveðst skyldu ná kistunni af Hólmverjum eða fá bana ella og bað þá segja bónda að hann væri við átjánda mann að naustum hina fjórðu nótt þaðan og léti hljótt yfir sér. Bolli býst nú. Hann hafði slitna skó og vöruvoðarkufl. Hann var í Brynjudal hina fyrstu nótt og þó eigi að bæjum. Hann kom til Þorsteins gullknapps og nefndist Þorbjörn, sagðist vera sekur maður og kveðst vildu út til Harðar og koma sér í sveit með honum. Þorsteinn gullknappur flutti hann út í Hólm og er þeir Hörður og Geir sáu manninn leist þeim eigi einn veg báðum. Geir þótti ráð að taka við honum en Hörður kveðst ætla njósnarmann. Geir réð þó og sór hann þeim áður eiða en þeir tóku við honum. Margt sagði hann þeim af landi og kveðst þó vera syfjaður. Hann lagðist niður og svaf um daginn. Þeir Geir komu eigi upp kistunni og spurðu Þorbjörn hvert ráð hann legði til. Þorbjörn kvað það ekki vant. "Er þar ekki í," sagði hann, "utan smíðartól bónda" - kvað Ormi það eitt mein þykja í ráni þeirra Hólmverja er tólakista hans var í burtu "en eg var þá," segir hann, "að Mosfelli er ránið spurðist. Mun eg færa honum kistuna ef þér viljið." Lítil slægja þótti Geir í vera um kistuna með því að ekki væri í nema smíðartól ein. Tvær nætur var Þorbjörn þar og taldi um fyrir þeim að þeir létu lausa kistuna. Ekki var Herði um að þeir hefðu nokkur ráð Þorbjarnar, kvað þau mundu illa gefast. Geir vildi þó ráða og fóru þeir sex saman um nátt til nausta Orms. Þeir báru þá kistuna á land og upp í naustið og settu undir húfinn á skipi Orms. Þá kallaði Þorbjörn að menn skyldu upp standa og taka þjófana. Þeir hlupu þá upp er fyrir voru og sóttu að þeim. Geir greip þá einn árarstubba og barði á tvær hendur og varðist hann þá allrösklega. Geir nær þá skipi sínu. Fjórir menn létust af Geir. Ormur tók ferju og reru eftir Geir. Hörður tók til orða heima í Hólmi: "Það er líkara að Geir þurfi manna við og eigi þykist eg vita hve Þorbjörn sjá hefir gefist honum." Tók hann þá skip og rær inn á fjörð, kemur nú að eltingum þeirra Orms og Geirs. Sneri þá Ormur skjótt undan og að landi. Geir fór út í Hólm með Herði. Ormur gaf síðan Bolla frelsi og land á Bollastöðum og öll búsefni. Bjó hann þar síðan og varð auðigur maður og ófælinn. 28. kafli Eftir þing um sumarið fóru þeir Hörður og Geir við fjórða mann og tuttugasta á ferju einni einn aftan og lentu í Sjálfkvíum fyrir dyrum að Hólmi. Þeir létu sex gæta skips en átján gengu upp. Þeir ráku fé úr Akrafelli. Hörður sá að maður gekk út að Hólmi í skyrtu og línbrókum. Það var í sólarupprás. Hörður kenndi þar Illuga því að hann var allra manna skyggnastur. Nú varð Illugi var við ferð þeirra og sendi þegar menn í Garð og á Heynes og svo til Kúvallarár að safna mönnum. Hann réð ei fyrri til við þá en hann hafði þrjá tigu manna. Og er Hörður sér mannasafnaðinn bað hann Geir kjósa hvort hann vildi drepa féið og gera til og ferma skipið eða vill hann verja Illuga og hans mönnum svo að þeir kæmust ekki til. Geir kveðst heldur vilja gera til féið en eiga við Illuga. Hörður mælti: "Nú kaustu það er mér þótti miklu betra. Er eg og þessu vanari. Mun eg verja þeim við tólfta mann og skulum vér vera ávallt jafnmargir en þér skuluð vera því færri, sem féið gera til, sem nokkurir falla af oss." Urðu þeir þá fjórtán er fénaðinn gerðu til. Nú tókst atlaga með þeim Herði og Illuga. Var það að frágerðum hversu rösklega að Hörður varði kvíarnar því að þeir Illugi sóttu hart að. Einart söfnuðust menn að Illuga svo að þeir urðu alls um síðir fjórir tigir manna en þeir Hörður urðu tólf saman. Urðu nú menn hans mjög sárir því að liðsmunur var mikill. Sigurður Torfafóstri dugði allhraustlega sem hann var ávallt vanur. Helgi Sigmundarson varðist og karlmannlega. Þorgeir gyrðilskeggi hlóð ferjuna. Geir var eigi handseinn að drepa féið og gera til eftir. Níu féllu af Herði áður en ferjan var hlaðin en er þeir stigu á skip sóttu hinir hart að, landsmennirnir, og féllu þá sex menn af Herði áður en þeir létu skipborðið gæta sín. Hörður varð sár af bryntrölli. Allir voru nokkuð sárir. Illugi lætur þá safna skipum en þeir Hörður höfðu meitt öll stór skip. Landnyrðingur stóð í móti þeim Herði. Þeir bundu þá sár sín og reru með hinu nyrðra landi um Katanes og Kalmansárvík. Þeir lögðu farminn á eitt sker því að veður bægði þeim. Geir vildi þar eftir vera og einn maður með honum en Herði þótti það fólska að hætta sér þar. Hörður hélt ferjunni inn á fjörðinn. Þá hvíldust þeir því að þeir höfðu mjög hlaðið þó að snúið væri þeim. Þeir Illugi sækja þá eftir þeim Herði fast en þeir halda fram fyrir nesið. Þá gaf Hörður nafn nesinu og kallaði Katanes því að honum þótti þar margur kati fyrir fara. Þegar þeir Illugi koma eftir sækja þeir þegar að þeim. Hörður mælti þá: "Hart sækir þú eftir mágur og þetta bauð mér fyrir löngu hugur sem nú er fram komið." Illugi mælti: "Mikið hafið þér og til gert." Þá gerðist atsókn hörð. Hörður varði öðrumegin ferjuna en sex öðrumegin. Litlu síðar komu Hólmverjar á þremur skipum og hlaupa þegar á ferjuna. Þá lætur Illugi undan síga en þeir elta hann út eftir firði. Brandur hét maður, son Þorbjarnar kolls undan Miðfelli. Hann kom að Geir í skerinu og barðist við hann og drap þann er honum fylgdi. Geir varðist vel en Brandur var við sjöunda mann. Þá kom Hörður að í því og kvað Geir hafa farið eigi fjarri því sem hann gat til. Þá flýði Brandur. Þeir lögðu eftir honum og drápu hann, þar heita nú Brandsflesjar inn frá skerinu, það er fyrir austan Kalmansá, og fimm menn aðra en sétti komst undan. En þeir Hörður og Geir fluttu allt fangið til Hólms. Hörður kvað þá vísu: Flóðs hafði fellda áðan fimmtán viðu mána, tófta var Týr á sættir trauður, Illugi hinn rauði. Heldur réð Geir að gjalda grimmúðigur þá rimmu. Nú fellu af veiti vella vargfæðar jafnmargir. Leið nú af sumarið. 29. kafli Annan vetur eftir jól fóru þeir Hörður og Geir og fjórir tigir manna upp Álftarskarð og svo í Svínadal og þaðan í Skorradal og lágu í leyni um daginn en fóru ofan til sauðhúsa um nóttina og ráku þaðan í burt um morguninn átta tigu geldinga, er Indriði átti, upp hjá Vatni. Þá gerði snæfall mikið og gjörningaveður móti þeim. Þá mæddust forustusauðir er þeir komu undir fjallið og vildu þeir Geir þá láta eftir sauðina en Hörður kvað það lítilmannlegt þó að nokkur snæskafa væri eða lítið mugguveður í móti. Hörður tók þá forustusauðina sinni hendi hvorn og dró svo fyrir um fjallið. Varð það slóð mikil. Þeir ráku þar í eftir annað féið. Því heitir þar Geldingadragi síðan. En er þeir komu í Svínadal var þar enginn snjór, fóru síðan til skips síns og drápu þar féið, þar heitir síðan Gorvík, fara nú út í Hólm. Leið nú af veturinn. Um vordaga fara þeir Hörður og Geir og Sigurður Torfafóstri, Helgi og Þorgeir gyrðilskeggi með sex tigu vígra karla. Þeir fóru norður Álftarskarð til Indriðastaða og leyndust þar í skógum þar til er naut voru rekin til haga. Svartur hét sá er fénu stýrði og sveinn lítill með honum. Þeir Hörður fóru til nautanna og ráku fyrir vestan Vatn. Svartur fór og með. Þeir fóru um Geldingadraga í Svínadal. Þar drápu þeir Svart. Síðan fóru þeir að sofa þar uppi í dalnum. Sveinninn vísaði aftur nautunum meðan þeir sváfu. Hörður vakti og sá undan skildi sínum. Hann lét sveininn fara leiðar sinnar og mælti til hans: "Far þú nú sveinn því að betur er það komið er systir mín hefir en þeir Hólmverjar." Heim kom sveinninn og sagði Þorbjörgu orð Harðar og kvað skaða mikinn að slíkum manni "og gerði hann vel við mig en menn hans drápu Svart." Engu svaraði hún sveininum. Því heitir þar nú Kúhallardalur að nautin hölluðust þar frá þeim. Geir vaknar og vildi fara eftir nautunum en Hörður kvað það eigi skyldu. Síðan safna þeir um Svínadal svínum bænda og ráku ofan á sandinn og drápu þar svínin og lögðu á skip, þar heitir nú Svínasandur, fóru síðan út í Hólm. 30. kafli Um alþingi um sumarið fóru þeir Hólmverjar inn til Dögurðarness. Þeir fóru Síldamannagötu til Hvamms í Skorradal og tóku yxn Þorgrímu smíðkonu við Skorradalsvatn fyrir sunnan og ráku suður á hálsinn. Einn var apalgrár uxinn. Hann viðraði mjög. Hann hljóp aftur í hendur þeim og svo hver að öðrum og út á vatnið og lögðust yfir þar er mjóst var og gengu síðan heim í Hvamm. Hörður mælti þá: "Mikið er um kynngi Þorgrímu að fénaður skal eigi sjálfur mega ráða sér." Þorgríma hafði sofið og vaknaði vonu bráðara og sá út. Hún leit uxana vota og mælti þá: "Hart hefir yður nú boðið verið en laust héldu nú garparnir nú." Hörður spurði nú félaga sína hvort þeir vildu ekki breyta um hagi sína og athafnir. "Þykir mér," segir hann, "illt ráð vort að svo búnu að vér lifum við það eitt er vér rænum til." Þeir sögðu að hann mundi mestu um ráða. "Þá vildi eg," segir hann, "að vér færum til kaupmanna í Hvítá og gerðum þeim tvo etjukosti, að þeir gæfu upp skipið við oss eða vér munum drepa þá ella." Geir kveðst þessa albúinn "en þó vil eg áður að vér brennum inni Torfa Valbrandsson og Koll að Lundi, Kolgrím hinn gamla, Indriða og Illuga." Hörður mælti: "Minna mun fram koma um stórræði yður og er hitt líkara að vér verðum allir drepnir sakir þess að menn munu eigi þola oss svo mikinn ójöfnuð sem vér bjóðum." Fleiri voru þeir er löttu að fara til skipsins en fýstu illvirkja, utan Sigurður Torfafóstri. Hörður mælti: "Það mun verða fram að koma sem ætlað er og búið að ei sé hægt við að gera. En firr er það mínu skapi að liggja í þessum illvirkjum lengur." Aftur fóru þeir í Hólm hina sömu nótt og voru heima þrjár vikur. Síðan fóru þeir til lands átta tigir manna. Hörður kveðst þá vilja að þeir brenndu inni Illuga eða Indriða "þar sem þeir hafa einart," segir hann, "mér í móti verið en aldrei með í svo miklum nauðum sem eg hefi staddur verið." Þeir fóru um nóttina í Svínadal og lágu þar í skógum um daginn en aðra nótt fóru þeir í Skorradal og leyndust þar. 31. kafli Þá nótt hina sömu er Hörður fór úr Hólmi dreymdi Þorbjörgu á Indriðastöðum að átta tigir varga rynnu þar að bænum og brynnu eldar úr munni þeim og væri einn í hvítabjörn og þótti hann heldur dapur og dvöldust nokkura stund á bænum og runnu síðan vestur úr garði á hól nokkurn og lögðust þar niður. En Indriði sagði það vera hugi Hólmverja til sín. Þorbjörg kveðst ætla að þeir mundu vera sjálfir og koma þar brátt. Hún bað Indriða veita heim brunnlæk og þekja yfir því að hún kveðst vera berdreym. Svo var nú gert. Þorbjörg lét gera reykháfa stóra. Hún lét bera fé upp á þvertré því að vatn stóð í miðjum veggjum. Hún hafði ekki og svo mannfátt fyrir. Litlu síðar komu þeir Hörður. Gekk hann að durunum upp og fór fyrir liðinu. Hann drap á dyr. Þorbjörg gekk til hurðar og heilsaði vel Herði og bauð honum til sín og virktaliði hans. Vildi hún að hann skildi við harkalið það og kvað marga mundu verða honum þá að liði. Hörður bauð henni út á völl til sín og kvað hana skyldu vel komna hjá sér ef hún skildi við Indriða. Hún kvað það verr sama og lést eigi mundu við hann skilja. Síðan drógu þeir viðköst að dyrum og lögðu eld í bæinn en þeir vörðu með vatni sem fyrir voru. Þeim sóttist illa. Það undraðist Geir. Hörður mælti: "Þess get eg að systir mín hafi ráð til gefið um vatnrás þessa." Þeir fóru að leita og fundu lækinn og veittu af en þó var nóg vatnið í bænum, svo hafði mikið inn hlaupið áður. Hörður sá að maður stóð í einum reykháfnum og hélt á boga. Hörður skaut þann mann með gaflaki til bana. Eftir það sá Hörður fara lið að bænum er Þorbjörg hafði eftir sent. Geir kvað þá mundu verða undan að leita. Ekki latti Hörður þess. Hurfu þeir síðan frá. Engin féllu þar hús ofan. Fjöldi manna kom til Indriðastaða. Heim fóru Hólmverjar og sátu nú um kyrrt um stund. 32. kafli Bændur lögðu fund á Leiðvelli við Laxá hjá Grunnafirði að eigi færi svo lengur fram að þeim Hólmverjum þyldust öll illvirki þau er þeir gerðu öllum. Héraðshöfðingjum voru orð send að þeir kæmu til þessarar stefnu og öllum bændum og griðmönnum. En er Indriði bjóst til fundarins spurði Þorbjörg hvert hann ætlaði að fara. Hann sagði henni. "Þá vil eg fara með þér," segir hún, "því að þú mátt vita að eg er þér trú." Eigi vildi hann að hún færi til fundarins og kvað henni ekki gaman mundu vera í því að heyra hvað þar er mælt. Hún kveðst það þykjast vita. Síðan reið Indriði til fundarins. Litlu síðar lét Þorbjörg söðla sér hest og fór með annan mann til stefnunnar. Þar var fyrir mannfjöldi mikill og háreysti mikið en er hún kom drap klukku þeirra hljóð og þögnuðu allir. Hún mælti þá: "Vita þykist eg framferði yðvart og ætlan en ekki skal því leyna yður sem mér býr í skapi að eg skal verða þess manns bani eða láta verða sem Hörð bróður minn vegur." Síðan ríður hún á burt. Á þessu þingi var Torfi Valbrandsson, Kollur frá Lundi, Indriði, Illugi, Kolgrímur, Refur og Þorsteinn öxnabroddur og Ormur úr Hvammi og margir aðrir héraðshöfðingjar. Torfi mælti þá: "Einsætt er mönnum þeim sem hér eru við staddir og verða allir að því samráða að taka þessa vændismenn af lífi eða munu þeir gervir fyrst alránir sem næstir eru en síðan allir aðrir héraðsmenn. Megið þér það sjá að þeir munu eigi öðrum hlífa er Hörður vildi brenna inni mága sína. Snúum brátt að nokkuru ráði góðu svo að engin njósn komi þeim. Er þetta öllum hið mesta nauðsynjaverk." Illugi lét meiri illvirki af þeim standa en svo mætti vera, kvað þar saman komið hið versta fólk: "Mun eg þar öngvar tengdir virða. Höfum vér svo spurt til þeirra að þeir hafi oss slíkan hlut ætlað sem Indriða." Kolgrímur kvað þá mestan kulda af kenna er næstir eru en þó ekki langt að bíða áður en aðrir ættu slíkt fyrir höndum þótt firr sætu. Slíkum orðum mælti hver að öðrum. Refur kvað það eitt til liggja að maður væri ger út í Hólm, sá er þeim sverði eiða, að ekki væri af svikum við þá "og segi að það væri vilji allra landsmanna að þeir færu í burt úr Hólmi hvert sem þeir vildu og væru þá sáttir hvorir við aðra." Torfi var að þessu mestur upphafsmaður um ráðagerð þessa og það með að hann biður þá þegar ríða um nóttina inn til fjarðar svo að eigi yrðu Hólmverjar varir við "því að mér sýnist," segir hann, "sumir grunsamlegir á Ströndinni." Þeir riðu þegar um nóttina. Þeir átu dögurð um morguninn eftir á nesi því innanverðu er þeir kölluðu Dögurðarnes síðan. Þann morgun hinn sama sóttu þeir vatn, Þorgeir gyrðilskeggi og Sigurður Torfafóstri, tólf saman á skútu einni. Hólmverjar vissu öngvar vonir til mannsafnaðar eða nokkurra svika við sig. 33. kafli En er landsmenn urðu varir við ferð þeirra Sigurðar þá sendu þeir Koll Kjallaksson við fjórða mann og tuttugasta. Og er þeir fundust, flýði þegar Þorgeir gyrðilskeggi við sjöunda mann en Sigurður Torfafóstri bjóst til varnar við fimmta mann og var þar allhörð atlaga. Varðist Sigurður þá enn allhraustlega því að hann var bæði sterkur og vopnfimur. Þar til börðust þeir að fallnir voru allir félagar Sigurðar en hann var þá enn ekki sár. Þorvaldur bláskeggur sótti þá hart að og margir aðrir. Þá voru fallnir fimm menn af Koll. Sigurður verst þá enn ágæta vel. Vegur hann þá enn marga menn enda berast þá sár á hann. Þorvaldur bláskeggur snarar þá að Sigurði og leggur í gegnum hann með spjóti. Sigurður hafði vegið með öxi. Hann kastar þá til Þorvalds öxinni og kemur öxin í höfuðið og féll hvortveggi dauður niður. Þá hafði Sigurður orðið níu manna bani en fylgdarmenn hans höfðu drepið þrjá. Alls féllu þar í árkvíslunum sautján menn af hvorumtveggjum. Þær eru nú kallaðar Bláskeggsár. Þorgeir gyrðilskeggi nam staðar á Arnarvatnsheiði og lagðist í helli á Fitjum og safnaði sér liði og var þar þar til er Borgfirðingar gerðust til þeirra. Þá stökk Þorgeir norður á Strandir og var þar drepinn sem segir í Álfgeirs þætti. 34. kafli Nú leitast þeir um höfðingjarnir hver til vill verða að fara út í hólminn en flestir töldust undan því. Torfi talar þá um að þeim mundi aukast mikill frami í er færi og mundi þykja síðan meir maður en áður en sagði líklegt að þeir mundu gæfulausir vera sem í hólminum voru sakir illgerða sinna. Kjartan Kötluson bróðir Refs, hinn mesti garpur og manna frálegastur, hann kveðst mundu til hætta að fara ef þeir vildu gefa honum til hringinn Sótanaut ef Hörður yrði veiddur "en eg á þó illt að launa Hólmverjum." Þeir játuðu þessu og þótti hann vænlegastur til af þeim er þar voru þá. Kjartan mælti þá: "Mun ei það líkast að hafa bátinn Þorsteins gullknapps? Oft hefir hann oss að óliði farið." Öllum þótti það vænlegt og sögðu að Hólmverjar mundu það síst gruna. Kjartan Kötluson reri nú út á báti Þorsteins gullknapps. Hann var í brynju undir kufli. En er hann kom í Hólm segir hann Herði að landsmenn vilja sættast, lét Illuga og vini hans eiga mikinn hlut í að þeir færu frjálsir. Geir trúði þessu og þótti líklegt vera er hann hafði bát Þorsteins gullknapps því að hann hafði þeim eiða unnið að hann skyldi aldrei þeim til svika ganga. Margir voru fúsir í burt og leiddist þar að vera og fýstu að farið væri með Kjartani í burt úr Hólmi. Þá mælti Hörður: "Mjög oft höfum við Geir orðið eigi á eitt sáttir því að okkur hefir jafnan eigi einn veg sýnst. Þykir mér þeir illan mann hafa til fengið þar sem Kjartan er slík hugðarmál að bera, jafnmikil nauðsyn sem við liggur hvorumtveggjum. Höfum vér og lítt við Kjartan vingast." Hann mælti þá: "Ekki skulum vér nú á það minnast því að það heyrir eigi þeim er sáttmál bera en satt eitt segi eg yður og sverja mun eg það ef yður þykir þá fullara." Herði kveðst svo á hann lítast að hann mundi ekki eiðvar vera og kvað þá vísu: Mér líst málma snerru meiður, sá er ferðar beiðir, hryggðarfullan hvergi bregðast, hann að njósnir kanni. Brennu skyldi í burtu hranna Baldur sjá komast aldrei, ef eyðir álms því réði, ómeiddur, sá er slíks beiddi. Þá fýstu flestir allir burtferðar. Tóku þá þegar sumir sér flutning með Kjartani. Hörður kveðst hvergi fara mundu "en eg læt vel að þeir reyni hversu Kjartan væri þeim trúr. En það ætla eg," segir hann, "að þér séuð ókátari hinn síðara hluta dags." Kjartani þótti því betur sem hann flytti í burtu fleiri. Margir stigu á ferjuna. Sagði Kjartan að þeir skyldu sjálfir fara í móti sínum mönnum í annað sinni. Þeir fóru nú frá Hólmi. Eigi mátti mannfjölda sjá fyrr en skipið kom fram fyrir tangann. En er þeir voru landfastir orðnir gerðu bændur að þeim kvíar af mannfjölda. Og er þeir komu á land voru þeir teknir allir og haldnir og síðan snúinn vöndur í hár þeim og höggnir gervallir. Þá fögnuðu landsmenn er svo lítið lagðist fyrir slíka illvirkja og þótti þeim nú líklega á horfast að þeir mundu allir unnir verða. 35. kafli Kjartan fór í annað sinn út til Hólms. Hólmverjar spurðu því félagar þeirra hefðu ekki farið á móti þeim. Kjartan sagði þá svo fegna orðið hafa friðinum að þeir hefðu hlaupið leikandi á land. Geir trúði þessu og sté á skip með Kjartani við marga menn. Hörður latti þessarar ferðar og sagði til mikils draga mundu. Ekki vildi hann fara. Helgi Sigmundarson var eftir hjá honum og Helga jarlsdóttir og synir þeirra tveir og sex menn aðrir. Þeir Geir fóru nú burt frá Hólmi og þótti Herði hvergi betur er Geir vildi fara með Kjartani. En er þeir róa fram fyrir nesið sá Geir mannfjöldann á landi. Þóttist hann þá vita að þeir mundu sviknir vera. Hann mælti þá: "Illa gefast ill ráð og verða oft til síð um sén enda hefir Hörður mér oft nær getið og enn hygg eg að svo muni vera og er það nú líkast að hér verði endir á vorum illum framferðum og væri vel ef Hörður kæmist undan því að honum er einum meiri skaði en oss öllum." Þeir voru mjög komnir að landi. Geir hljóp þá fyrir borð á sund og lagðist fram með berginu. Ormur hét Austmaður er var með Indriða, rammur maður að afli. Hann skaut manna best og vel búinn að öllum íþróttum. Hann skaut eftir Geir gaflaki og kom í milli herða honum og fékk hann af því bana. Hann var lofaður mjög af þessu verki. Þar heitir Geirstangi er líkið rak á land. 36. kafli Helga jarlsdóttir stóð á hólminum út og sá þessi tíðindi. Hún sagði Herði og bað hann sjá. Ekki sýndist þeim þetta einn veg. Hún sagði að til mikils mundi um draga. Landsmenn lofuðu mjög Kjartan og kváðu hann mikið mundu vaxa af þessum ferðum, létu nú og vera fátt eftir. Kjartan kveðst nú ætla knapp á að ríða að ná Herði og lokka hann að líka eftir á. Hann hafði sexæring og fer nú út til Hólms. Hörður spurði hvar Geir væri eða því hann kæmi ekki í móti honum. Kjartan kvað hann vera haldinn á landi þar til er hann kæmi "sættist þér svo allir í einu." Hörður mælti: "Mikið færist þú í fang Kjartan er þú flytur oss alla Hólmverja til lands og mikil laun muntu fyrir taka af landsmönnum. Mun eg hvergi fara. Hefi eg þér ávallt illa trúað og eigi má á manni sjá ef þú gefst vel." Kjartan mælti: "Eigi muntu því hugminni en þínir menn að þú þorir eigi að fara á land." Hörður spratt þá upp og stóðst eigi eggjun hans og kveðst ætla að hann mundi eigi þurfa sér hugar að frýja áður en lyki þeirra viðskiptum. Hörður kvað Helgu skyldu fara með sér. Hún kveðst eigi fara mundu og eigi synir hennar heldur og lét nú að því koma sem mælt er að eigi má feigum forða. Grét Helga þá sáran. Hörður sté á skip reiður mjög og fara nú uns þeir koma þar að er Geir flaut dauður við sker eitt. Hörður hljóp þá upp og mælti til Kjartans: "Allra manna armastur, og skamma stund skaltu eiga að fagna þessum svikum." Hörður hjó þá til hans með sverðinu Sótanaut og klauf hann að endilöngu niður í beltisstað, allan búkinn með tvífaldri brynjunni. Í því renndi skipið að landi og urðu þeir allir handteknir sem á skipinu voru. Indriði lagði fyrstur hendur á Hörð og batt hendur hans heldur rammlega. Hörður mælti þá: "Heldur fast bindur þú nú mágur." Indriði svarar: "Það kenndir þú mér þá er þú vildir mig inni brenna." Illugi mælti til Indriða: "Eigi á Hörður þó góða mágana enda hefir hann illa til gert." Indriði svarar: "Löngu hefir hann því fyrirgert að nokkurar tengdir séu við hann virðandi." Hann rétti þá fram öxina og teiknaði til að nokkur skyldi vega að Herði en enginn vildi það gera. Hörður snarast þá við hart og varð laus. Hann þreif öxina úr hendi Indriða og stökk út yfir þrefaldan mannhringinn. Helgi Sigmundarson varð laus og hljóp þegar eftir honum. Refur sté á hest og reið eftir þeim og gat eigi náð þeim. Þá kom á Hörð herfjötur og hjó hann af sér í fyrsta sinn og annað. Í þriðja sinni kom á hann herfjöturinn og þá gátu þeir kvíað hann og slógu um hann hring og stökk hann enn út yfir hringinn og vó áður þrjá menn. Hann hafði Helga Sigmundarson þá á baki sér. Hljóp hann þá til fjalls. Sóttu þeir þá hart eftir honum. Refur varð fljótastur því að hann var á hesti og þorði hann eigi að ráða á Hörð. Þá kom enn herfjötur á Hörð. Komst þá eftir meginflóttinn. Hann kastaði þá Helga af baki sér. Hann mælti þá: "Mikil tröll eiga hér hlut í. En ekki skuluð þér þó hafa yðvarn vilja um það sem eg má að gera." Hjó hann þá Helga sundur í miðju og kvað þá eigi skyldu drepa fóstbróður sinn fyrir augum sér. Það þótti mönnum sem Helgi mundi mjög svo dauður áður. Svo var Hörður þá reiður og ógurlegur að sjá að enginn þeirra þorði framan að honum að ganga. Torfi sagði að sá skyldi eiga hringinn Sótanaut, sem Hörður hafði á hendi sér, sem þyrði að vega að Herði. Þá slógu þeir hring um hann. Þá kom Þorsteinn gullknappur að heiman frá Þyrli. Sóttu þeir þá hart að Herði. Varð hann þá enn sex manna bani. Þá gekk öxin af skaftinu. Í því hjó Þorsteinn gullknappur á hnakkann með háskeftri öxi því að enginn þeirra þorði framan að honum að ganga eða ráða þó að hann væri slyppur. Af því sári fékk Hörður bana. Þá hafði hann drepið af þeim þrettán menn með þeim fjórum sem hann drap við skip áður en hann var fangaður. Allir lofuðu hreysti hans, bæði vinir hans og óvinir, og þykir eigi honum samtíða á alla hluti röskvari maður verið hafa og vitrari en Hörður þó að hann væri eigi auðnumaður. Ollu því og hans fylgdarmenn þó að hann stæði í slíkum illvirkjum og það annað að eigi má sköpunum renna. 37. kafli Landsmenn lofuðu Þorstein gullknapp fyrir þetta verk og fengu honum hringinn Sótanaut og kváðust honum hans vel njóta og unna. En er Þorsteinn spurði umræðu Þorbjargar vildi hann gjarna þetta verk aldrei gert hafa. Nær sex tigir manna voru drepnir af Hólmverjum, og að auk þeir fóstbræður, í Dögurðarnesi. Nú töluðu þeir um höfðingjarnir að ráð væri að fara eftir Helgu og drepa sonu þeirra Harðar. Þá þótti sumum of síð dags. Höfðu þeir þá að því samtak að þeim skyldi engi grið gefa né ásjá veita ella skyldu allir þeim hefna. Svo var ríkt við lagið. Þeir ætluðu út um morguninn en voru þar um nóttina. 38. kafli Helga er nú í hólminum og þykist vita nú allar vélar og svik landsmanna. Hún hugsar nú sitt mál. Það verður nú hennar ráð að hún kastar sér til sunds og leggst til lands úr hólminum um nóttina og flutti með sér Björn son sinn fjögurra vetra gamlan til Bláskeggsár. Og þá fór hún móti Grímkatli syni sínum átta vetra gömlum því að honum dapraðist sundið þá og flutti hann til lands. Það heitir nú Helgusund. Þau fóru um nóttina upp á fjall frá Þyrli og hvíldust í skarði því er nú heitir Helguskarð. Hún bar Björn á baki sér en Grímkell gekk. Þau fara þar til er þeir og hún koma til Indriðastaða. Hún settist þá niður utan undir túngarði en sendir Grímkel til húss að biðja Þorbjörgu þeim griða. Þorbjörg sat á palli er sveinninn kom inn. Hann bað hana griða en hún stóð upp og tók til hans og leiddi hann út og spurði hver hann var. Hann sagði til hið sanna. Hún spurði að tíðindum eða hvar Helga væri. Grímkell sagði slíkt sem hann vissi og fylgdi henni til Helgu. Þorbjörg mátti þá ekki mæla, svo fékk henni mikils. Hún fylgdi henni í útibúr eitt og læsti þau þar. Þenna aftan kom Indriði og margt manna með þeim. Ekki fann á Þorbjörgu og bar hún mat fyrir gesti. En er þeir sögðu henni tíðindin og það að Þorsteinn gullknappur hafði vegið Hörð og gengið aftan að honum en hinn staðið kyrr fyrir þá kvað Þorbjörg vísu: Varð í hreggi hörðu Hörður felldur að jörðu, hann hefir átta unnið, Unns, og fimm að gunni. Heldur nam grimmra galdra galdur rammlega að halda. Mundi ei bitra branda brandr ellegar standa? En er þau komu í sæng um kveldið þá brá Þorbjörg saxi og vildi leggja á Indriða bónda sínum en hann tók í móti og varð sár mjög á hendi. Hann mælti þá: "Bæði er nú Þorbjörg að úr hörðu er að ráða enda viltu mikið að gera. Eða hvað skal nú vinna til sátta með okkur?" "Ekki annað en þú færir mér höfuð Þorsteins gullknapps." Því játaði Indriði. Hann fór um morguninn einn saman og hið gegnsta reið hann til Þyrils. Hann steig þá af baki og gekk ofan Indriðastíg hjá Þyrli og beið þar uns Þorsteinn fór til blóthúss síns sem hann var vanur. En er Þorsteinn kom, gekk hann inn í blóthúsið og féll fram fyrir stein þann er hann blótaði og þar stóð í húsinu og mæltist þar fyrir. Indriði stóð úti hjá húsinu. Hann heyrði þetta kveðið í steininum: Þú hefir hingað í seinsta sinni feigum fótum fold spornaða. Þér mun rétt áður röðull skíni harður Indriði heiftir gjalda. Síðan gekk Þorsteinn út og heim. Indriði sá ferð hans gjörla. Indriði bað hann eigi hlaupa svo mikinn. Hann snýr þá fram fyrir hann og hjó þegar með sverðinu Sótanaut undir kverkina svo af tók höfuðið. Hann lýsti þessu vígi á hendur sér heima að Þyrli. Sagði hann Þorstein lengi ótrúan verið hafa. Hann reið heim og seldi Þorbjörgu höfuðið. Hún kveðst ekki hirða um það þegar það væri af bolnum. "Nú muntu," segir Indriði, "sættast við mig." Hún kvað það eigi skyldu fyrr en hann tæki við Helgu og sonum hennar ef þau kynnu þar að koma og veitti þeim allan dugnað þann sem þau þyrftu. "Þá mun eg," sagði hún, "veita þér alla elsku þaðan af." Indriði kveðst ætla að þau mundu hafa á sjó hlaupið og drekkt sér er þau fundust eigi í hólminum "og vil eg því heita þér þessu að eg veit að ekki mun þurfa til að taka." Þá gekk Þorbjörg eftir þeim Helgu og leiddi þau fram. Indriði mælti þá og varð fár við: "Ærið langt hefi eg nú fram talað. En þó mun það nú ráð að halda orð sín." Endi hann og vel öll sín orð. Gaf og engi maður honum að þessu sök. Þótti öllum Þorbjörgu mikilmannlega verða. 39. kafli Þórólfur hét maður og kallaður starri, hagur og heldur auðigur, gálaus og glensmikill, frækinn og framgjarn og harðger í hvívetna. Hann kom hið sama haust til Indriðastaða og bauðst bónda. Þorbjörg bað hann taka víst við honum. Og svo varð. Dvaldist hann þar um hríð til smíða. Helga jarlsdóttir var kát við hann og þær Þorbjörg báðar. Hann þóttist vera í þingum við jarlsdóttur en hún tók því ekki allfjarri. Þórólfur hafði verið með Ref um sumarið og hafði illa þar að getist. Hann leitar nú veturvistar til Þorbjargar. Hún svarar: "Eg mun fá þér veturvist og hringinn Sótanaut, Helgu jarlsdóttur og mikið fé annað ef þú drepur Ref í Brynjudal." Hann svarar: "Þetta er mér ekki illa hent. Trúi eg mér og allvel hent til að geta þetta gert ef eg hefi sverðið Sótanaut. Er og ekki von að eg muni lítið til vinna en taka mikið upp." Þessu keyptu þau. Ekki var hægt að ná sverðinu því að Indriði hafði það alla stund hvert sem hann fór. Einn dag tók Þorbjörg sverðið Sótanaut og reist hér og hvar svo að sverðið féll sjálft niður úr. En er Indriði ætlaði að gyrða sig sverðinu, það féll þá niður úr slíðrunum. Honum þótti það kynlegt en Þorbjörg kvað það náttúru sverðsins ef það vissi tíðindi á. Hann bað hana gera að umgerðinni. Hún kveðst það í tómi mundu gera. Indriði átti að fara vestur á Mýrar að sætta vini sína. Hann hafði þá eigi sverðið. En er hann var farinn seldi Þorbjörg Þórólfi sverðið Sótanaut og bað hann neyta drengilega ef hann vildi ná ráðahag við Helgu. Þórólfur fór til Refs og kom þar síð dags. Hann leyndist í torfbingi og hlóð að sér elditorfi svo að ekki kom upp nema nasirnar einar. Refur var var um sig svo að hann lét lokur fyrir hurðir hvert kveld og lét ljós bera tvisvar um hús öll, fyrst fyrir náttverð og í annað sinn áður en menn fóru í rekkjur. Og enn var svo gert. Eigi fannst Þórólfur að heldur. Þórólfur talaði hverjum manni líkt. Hann stóð upp þegar niður var lagist. Hann vakti griðkonu Refs og sagðist vera sauðamaður. Hann bað hana kalla til skæða við Ref því að hann kveðst skyldu á fjall ganga um morgun. Hún kvað hann ekki óstarfsamt gera, kvað hann eigi alls minna hafa en aðra "og er enginn sá af húskörlum að þarfari sé en þú." Hann kvað það verða skyldu áður en lyki. Refur hvíldi í lokrekkju og vildi hann ekki þangað láta ganga til sín um nætur. Hún fór þó og sagði Ref skæðakallið sauðamanns. Sagði hún hann ómaklegan að missa skó eða aðra hluti þá sem hann þyrfti að hafa "þar sem hann hugsar ávallt um þitt góss bæði nátt og dag." Refur lét illa að henni er hún skyldi fara með slíkum erindum um nætur "en þó liggur léskrápur einn utar í torfbási og taki hann sér þar af skæði." En er hún gekk í burt rak Þórólfur kefli fyrir hleðann svo að ei gekk aftur. Hann hafði staðið uppi yfir Ref meðan að þau töluðust við og varð honum bilt. Refur sofnaði en Þórólfur þorði eigi á hann að ráða. Þorbjörg katla móðir Refs kallaði: "Vaki þú son minn. Fjandinn stendur uppi yfir þér og vill vega þig." Þá vildi Refur upp standa og í því hjó Þórólfur með sverðinu Sótanaut undan honum báða fætur, annan þar sem mjóstur var kálfi en annan í ristarlið. Síðan hljóp Þórólfur fram á gólfið úr lokrekkjunni. Þá kom Þorbjörg katla í móti honum og greip til hans og rak hann undir sig og beit í sundur í honum barkann og gekk svo af honum dauðum. Refur tók sverðið Sótanaut en hringurinn hvarf af Þórólfi er þær Þorbjörg og Helga höfðu selt honum, sá er Hörður hafði tekið af Sóta. Refur varð græddur og borinn á stóli alla stund síðan því að hann mátti aldrei ganga og lifði þó lengi upp frá þessu svo að hann var kallaður Refur hinn gamli og þótti æ hinn mesti mætamaður. 40. kafli Litlu síðar kom Indriði heim og spurði þessi tíðindi. Þóttist hann þá vita að Þorbjörg mundi hafa verið í þessum ráðum. Eigi vildi hann þó missa sverðsins. Fór hann síðan og hitti Ref og bað hann laust láta sverðið "því að eg hefi í öngum þessum ráðum verið," segir hann. Refur selur honum sverðið. "Vil eg ekki óvingast við þig," segir Refur. Tók Indriði þá við sverði sínu og reið heim síðan. Má í slíku marka hver höfðingi Indriði hefir verið að slíkur garpur sem Refur var treysti eigi öðru en láta laust sverðið við Indriða þegar hann beiddi, svo mikil örkymsl sem hann hafði fengið af því. Litlu síðar fundust þær Þorgríma smíðkona og Þorbjörg katla móðir Refs og fundust síðan dauðar báðar í Múlafelli. Þær voru allar rifnar og skornar í sundur í stykki og reimt þykir þar síðan vera hjá kumlum þeirra. Þess geta menn til að Þorgríma móðir Indriða mundi vilja sækja hringinn Sótanaut til handa Indriða en Katla verði og vildi eigi lausan láta og fyrir því dræpust þær niður. Aldrei fannst hringurinn síðan. 41. kafli Fám vetrum síðar kom skip í Breiðavík. Þar var á Tindur Hallkelsson og Þórður Kolgrímsson frá Ferstiklu. Þeir riðu frá skipi, Tindur á Hallkelsstaði en Þórður yfir Hvítá og ætlaði heim. En er Helga jarlsdóttir frétti þetta mælti hún til Grímkels sonar síns að seint kæmi honum í hug föðurdauðinn. Hún bað hann þá sitja fyrir Þórði Kolgrímssyni "því að faðir hans var mestur mótgöngumaður Herði föður þínum." Þá var Grímkell tólf vetra. "Vildi eg frændi," segir hún, "að þú dræpir Þórð því að gild hefnd er í honum." Grímkell var við þriðja mann. Þeir fundust við Bakkavað fyrir austan Hvítá undir torfstökkum nokkurum. Litlu síðar fundust þeir allir dauðir hvorirtveggju. Skeifur hét maður er bjó á Hvítárvöllum, félítill maður. Þess gátu sumir að hann mundi hafa drepið sára menn og tekið síðan góða gripi þá sem Þórður hafði haft með sér og aldrei spurðist til síðan. Skeifur fór utan og kom aldrei út síðan og varð vellauðigur að fé. Indriði vildi eigi hætta Helgu hér á landi og Birni syni hennar. Þau fóru utan á Eyrum til Noregs og þaðan til Gautlands og lifði Hróar þá. Hann varð feginn Helgu systur sinni en þótti mikill missir að Herði. Ekki var Helga gift síðan svo að þess sé getið. Björn varð mikill maður og kom aftur til Íslands og drap marga menn í hefnd föður síns og varð hinn röskvasti maður. Fjórir menn og tuttugu voru drepnir í hefnd eftir Hörð. Enginn þeirra var fé bættur. Synir Harðar drápu suma og frændur og mágar en suma Hróar. Flestir allir voru drepnir með ráði Þorbjargar Grímkelsdóttur. Þykir hún mikill kvenskörungur verið hafa. Þau Indriði bjuggu á Indriðastöðum til elli og þóttu hinir mestu menn og er margt manna frá þeim komið. Þá hafði Hörður nítján vetur og tuttugu er hann var veginn og höfðu honum flestir tímar til heiðurs og metnaðar gengið utan þeir þrír vetur er hann var í útlegð. Segir og svo Styrmir prestur hinn fróði að honum þykir hann hafa verið í meira lagi af sekum mönnum sakir visku og vopnfimi og allrar atgjörvi, hins og annars að hann var svo mikils virður útlendis að jarlinn í Gautlandi gifti honum dóttur sína, þess hins þriðja að eftir engan einn mann á Íslandi hafa jafnmargir menn verið í hefnd drepnir og urðu þeir allir ógildir. Nú lúkum vér hér Hólmverja sögu. Guð gefi oss alla góða daga utan enda. Amen.